Dr. Matt Ridley: Framfarir í krafti frjálsra viðskipta

Ridley flytur fyrirlestur sinn. Ragnar Árnason er fundarstjóri.

Dr. Matthew Ridley, sem lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Oxford-háskóla, var vísindaritstjóri The Economist um árabil og er höfundur fjölmargra metsölubóka um vísindi, flutti fyrirlestur 27. júlí á vegum RNH og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands. Var fyrirlesturinn um, hvers vegna mannkynið gæti verið bjartsýnt af skynsemisástæðum. Var hann fjölsóttur og umræður málefnalegar. Ridley brá upp mynd af því, hversu örar framfarir hefðu orðið í heiminum sökum þess, að menn hefðu öðlast hæfileika til að skiptast á vöru og þjónustu og þess vegna getað nýtt sér þekkingu, vitneskju og kunnáttu annarra. Til hefði orðið skiptaskipulag, „catallaxy,“ eins og Friedrich von Hayek hefði kallað það.

Forystugrein Morgunblaðsins um boðskap Ridleys.

Fyrirlesturinn vakti mikla athygli í fjölmiðlum. Viðskiptablaðið birti frásögn af ritdeilu Ridleys og Bills Gates um hlýnun jarðar og þróun í Afríku 26. júlí, og Morgunblaðið tók viðtal við Ridley 27. júlí. Stöð tvö flutti viðtal við Ridley 29. júlí, en einnig var getið um fyrirlestur hans í útvarpsþættinum Harmageddon. Morgunblaðið sagði frá fyrirlestrinum 28. júlí og skrifaði forystugrein um boðskap hans 30. júlí. Í framhaldi af fyrirlestrinum ákvað Almenna bókafélagið að láta þýða bók Ridleys, The Rational Optimist, sem á íslensku mun heita Heimur batnandi fer. Fyrirlestur Ridleys er aðgengilegur á Youtube:

Comments are closed.