Hannes H. Gissurarson: Maó ófreskja í mannsmynd

Ljósm. Mbl./Kristinn

Hannes H. Gissurarson prófessor flutti fyrirlestur undir heitinu „Maó: Sagan sem hefur verið sögð“ í boði Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa 2. nóvember 2012. Þar lýsti hann deilum á Íslandi og annars staðar vegna bókar eftir Jung Chang og Jon Halliday, Maó: Sagan sem aldrei var sögð, en hún kom út í þýðingu Ólafs Teits Guðnasonar 2007. Svaraði Hannes ýmissi gagnrýni, sem Geir Sigurðsson, kínverskumælandi heimspekingur og fyrrverandi forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar, og Sverrir Jakobsson sagnfræðingur höfðu beint að bókinni. Kvað Hannes bókina feikilegt afrek og athugasemdirnar við hana um hrein smáatriði, sem engu breyttu um það, að Maó bæri að telja einn versta fjöldamorðingja tuttugustu aldar ásamt þeim Stalín og Hitler. Væri miðað við hugmyndir stríðsglæpadómstólsins í Nürnberg 1946, þá hefði Maó gerst sekur um glæpi gegn friðnum, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.

Hannes sýndi myndband, þar sem Peng Dehuai marskálkur, sem andæft hafði hinum fáránlegu áætlunum Maós um „Stökkið stóra fram á við“, var pyndaður, svívirtur og niðurlægður fyrir framan fjölda fólks í Menningarbyltingunni. Rakti Hannes einnig umræður á Íslandi um Kína fyrr og nú. Til dæmis hefði Jóhann Hannesson trúboði skrifað greinaflokka í Morgunblaðið 1952, þar sem komið hefðu fram svipaðar upplýsingar og í Svartbók kommúnismans og ævisögu Maós. Einnig hefðu skrif Skúla Magnússonar, sem birtust í SÍA-skýrslunum 1963, verið fróðleg. Fjölmenni var á fyrirlestrinum og margra spurninga spurt. Meðal áheyrenda var Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem bloggaði um hann. Morgunblaðið sagði frá honum 10. nóvember 2012. Fyrirlesturinn verður bráðlega aðgengilegur á Youtube.

Glærur Hannesar um Maó

Comments are closed.