Júní–desember 2013: RNH viðburðir

Tuttugu viðburðir eru komnir á dagskrá RNH seinni helming ársins 2013. Eitt mikilvægasta rannsóknarsvið RNH er „grænn kapítalismi“, rannsókn á kostum þess að leysa umhverfismál með því að skilgreina eignarrétt á auðlindum og auðvelda frjáls viðskipti með þær. Prófessor Hannes H. Gissurarson úr rannsóknarráði RNH tekur þátt í þingi Mont Pelerin-samtakanna á Galapagos-eyjum 22.–29. júní næstkomandi um „Þróun, vísindi og frelsi“. Hann verður fundarstjóri á málstofu um „The Political Animal“ 25. júní, en þar verða fyrirlesarar prófessor Larry Anhart, North Illinois University, og prófessor Kenneth Minogue, London School of Economics. Þátttaka Hannesar er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Í júlí 2013 heldur RNH ásamt ýmsum öðrum aðilum hátíðlegan skattfrelsisdaginn á Íslandi, en hann ber upp á þann dag, er venjulegur Íslendingur hættir að vinna fyrir ríkið og fer að vinna fyrir sjálfan sig. Þátttaka RNH er liður í samstarfsverkefni setursins með AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

26. ágúst 1991 í Höfða. Frá v.: Davíð Oddsson, Jón Baldvin Hannibalsson, A. Saudargas, Litháen, J. Jurkans, Lettlandi, og L. Meri, Eistlandi.

Evrópuþingið hefur gert 23. ágúst að Evrópudag minningarinnar um fórnarlömb alræðisstefnunnar, jafnt kommúnisma og nasisma. Þennan dag árið 1939 gerðu Hitler og Stalín griðasáttmála, sem hleypti af stað heimsstyrjöldinni síðari, og skiptu jafnframt með sér Mið- og Austur-Evrópu. Opnuð verður myndasýning í Þjóðarbókhlöðunni föstudaginn 23. ágúst 2013 um íslensku kommúnistahreyfinguna. Við það tækifæri flytur eistneski sagnfræðingurinn og þingmaðurinn dr. Mart Nutt, formaður Mannréttindastofnunar Eistlands, erindi um „Eistland: Smáþjóð undir oki erlendis valds“. Fyrir réttum fjörutíu árum, árið 1973, birtist á íslensku bók eftir sænsk-eistneska rithöfundinn Anders Küng undir sama nafni í þýðingu Davíðs Oddssonar, þá laganema, en hann hafði sem forsætisráðherra forystu um það 1991 að endurnýja viðurkenningu Eystrasaltsríkjanna, sem hernumin voru af erlendum stórveldum 1940–1991. Á samkomunni í Þjóðarbókhlöðunni flytur pólski sagnfræðingurinn dr. Pawel Ukielski, forstöðumaður Minningarsafnsins um uppreisnina í Varsjá 1944, einnig erindi um hina sögulegu uppreisn, þar sem þjóðernisjafnaðarmenn, nasistar, gengu berserksgang og drápu alla Pólverja, sem þeir náðu til, á meðan Rauði herinn beið hinum megin Visluár, sem rennur í gegnum Varsjá, og hafðist ekki að.

Andreasen

Föstudaginn 30. ágúst 2013 í stofu N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, kl. 17–18, flytur Marta Andreasen, Evrópuþingmaður fyrir breska Íhaldsflokkinn og fyrrverandi yfirbókari framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, erindi undir heitinu: „The European Union: Where is It Going?“ Andreasen hefur gagnrýnt spillingu innan sambandsins, en reikningar þess hafa ekki verið endurskoðaðir árum saman, því að endurskoðendur hafa ekki treyst sér til að skrifa upp á þá. Fundurinn með henni er á vegum Þjóðráðs, en RNH kynnir og styður þetta framtak eftir megni sem lið í samstarfsverkefni setursins með AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Eftir fyrirlestur Andreasons og fyrirspurnir og umræður verður móttaka á staðnum.

Hannes H. Gissurarson prófessor flytur erindi á ráðstefnu, sem Lithuanian Free Market Institute, LFMI, heldur í Vilnius í Litháen fimmtudaginn 12. september um hina alþjóðlegu fjármálakreppu og viðbrögð Evrópusambandsins. Daginn eftir situr hann málstofu um hugveitur, sem LFMI heldur. Föstudagskvöldið 13. september heldur hann ræðu á fundi Samtaka ungs frjálshyggjufólks í Vilnius, „Endurminningar um Hayek, Popper og Friedman“.

Zver

Myndasýningunni í Þjóðarbókhlöðunni um íslensku kommúnistahreyfinguna verður lokað 16. september, en við það tilefni verður þar samkoma til heiðurs Arnóri heitnum Hannibalssyni prófessor. Arnór var eindreginn andstæðingur alræðisstefnunnar, en studdi í kyrrþey rússneska, pólska og kínverska andófsmenn. Við þetta tækifæri verða leyniskjöl Kominterns, sem Arnór safnaði saman í rússneskum skjalasöfnum eftir fall kommúnismans, afhent Þjóðarbókhlöðunni, þar sem þau verða öllum aðgengileg. Jafnframt verður opnuð vefsíða með bókum, ritgerðum og ýmsum skjölum um kommúnismann og hina íslensku kommúnistahreyfingu. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra verður fundarstjóri. Slóvenski sagnfræðingurinn dr. Andreja Valic Zver, forstöðumaður rannsóknarseturs um sátt við söguna í Ljubljana, flytur erindi um, hvers vegna halda þurfi vakandi minningunni um fórnarlamb nasisma, fasisma og kommúnisma. Félag áhugamanna um heimspeki stendur að fundinum ásamt RNH. Myndasýningin og viðburðir tengdir henni eru liðir í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu fórnarlambanna“.

Matthew Elliott frá bresku skattgreiðendasamtökunum, Taxpayers’ Alliance, heldur fyrirlestur í Lögbergi, stofu 101, föstudaginn 20. september, kl. 12–13, um það, að í senn sé framkvæmanlegt og nauðsynlegt að lækka skatta. Árið 2009 birti Elliott ásamt David Craig bókina The Great European Rip-Off: How the Corrupt, Wasteful EU is Talking Control of Our LivesSamtök skattgreiðenda standa að fundinum ásamt RNH.

Hannes H. Gissurarson prófessor heldur fyrirlestur sunnudaginn 22. september á ráðstefnu Evrópusamtaka ungra íhaldsmanna, European Young Conservatives, EYC, á Churchill-garði í Cambridge á Englandi. Nefnist lesturinn „Iceland’s Boom and Bust: Lessons for Europe“ — Hvað læra má af íslensku uppsveiflunni og niðursveiflunni. Hann kynnir einnig rannsóknir sínar á bankahruninu á rannsóknarborði stjórnmálafræðideildar 3. október í fundaherbergi á 3. hæð í Gimli kl. 11.45–13.00 undir yfirskriftinni „Olli falinn valdahópur bankahruninu íslenska?“

Málþing verður haldið mánudaginn 7. október 2013, kl. 17–19, í stofu N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, í tilefni þess, að rétt fimm ár verða þá liðin frá bankahruninu íslenska. Dr. Eamonn Butler, forstöðumaður Adam Smith-stofnunarinnar í Lundúnum, greinir „Orsakir hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu“. Dr. Pythagoras Petrotas, kennari í fjármálafræði í Said School of Business í Oxford-háskóla, ræðir um „Kýpur í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu“. Kýpur er eyland eins og Ísland, en ólíkt Íslandi í Evrópusambandinu og notar evru. Prófessor Hannes H. Gissurarson fer yfir „Skýringar á íslenska bankahruninu“, en hann er að skrifa bók á ensku um það efni. Dr. Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði, flytur erindi um „Eftirleik bankahrunsins“, en hann er að skrifa bók á ensku um það efni. Dr. Stefanía Óskarsdóttir bregst við erindunum. Ásta Möller, forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, er fundarstjóri. Rannsóknasetur um smáríki, sem starfar innan Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, stendur að þessu málþingi ásamt RNH. Það er einnig þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Um kvöldið verður hinn árlegi frelsiskvöldverður RNH, sem haldinn er að þessu sinni í Björtuloftum í Hörpu, og þar mun Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, rifja upp atburðarásina í kringum 7. október 2008 og sinn skilning á þeim.

Hannes H. Gissurarson sækir málstofu Pallanza-hópsins í Torino á Ítalíu 10.–12. október 2013, en á meðal þátttakenda verða Brian Carney, ritstjóri Wall Street Journal, prófessor Pascal Salin frá Frakklandi, prófessorarnir Geoffrey Wood og Keven Dowd frá Bretlandi og prófessor Leszek Balcerowicz frá Póllandi (fyrrverandi fjármálaráðherra og seðlabankastjóri Póllands), en einnig embættismenn frá Evrópusambandinu, Englandsbanka, þýska seðlabankanum og fleiri stofnunum.

Thatcher

Margrét Thatcher, barónessa af Kesteven og forsætisráðherra Breta 1979–1990, lést árið 2013. Af því tilefni heldur Samband ungra sjálfstæðismanna minningarfund um hana á afmælisdegi hennar sunnudaginn 13. október 2013 í stofu N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, kl. 17–19. Þar talar breski rithöfundurinn John O’Sullivan, fyrrverandi ritstjóri bandaríska tímaritsins National Review, um „hina raunverulegu járnfrú“, en hann aðstoðaði Thatcher við ritun sjálfsævisögu hennar. Sýnt verður kynningarmyndband úr hinni umdeildu kvikmynd um Thatcher, Járnfrúnni, þar sem Meryl Streep lék aðalhlutverkið, og valdir kaflar úr heimildarmyndum um Thatcher. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra verður fundarstjóri. RNH styður þennan viðburð sem lið í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“. Eftir hann verður móttaka á staðnum.

Mánudaginn 14. október 2013 verður kl. 17–18 í hátíðasal Háskóla Íslands málþing um „Kvótakerfi og veiðigjald“. Er það haldið í minningu Árna Vilhjálmssonar, prófessors, athafnamanns og ótrauðs stuðningsmanns atvinnufrelsis. Við það tækifæri afhenda forráðamenn Hvals hf., sem Árni var meðeigandi í, Háskóla Íslands að gjöf brjóstmynd af Árna, sem Gerður Gunnarsdóttir myndhöggvari mótaði. Einn kunnasti fiskihagfræðingur heims, prófessor Ralph Townsend, flytur fyrirlestur um kvótakerfi í fiskveiðum. Ragnar Árnason prófessor ræðir um kröfuna um sérstök gjöld í sjávarútvegi, dr. Gunnar H. Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, greinir fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, reynslu og horfur, og Hannes H. Gissurarson prófessor lýsir réttlætissjónarmiðum, þegar aðgangur er skammtaður að takmörkuðum auðlindum, en ræðir sérstaklega um veiðar á hval og makríl. Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, er fundarstjóri. Þessi fundur er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans.“

Föstudaginn 25. október 2013 verður XIV. ráðstefnan í félagsvísindum haldin í Háskóla Íslands, Þjóðarspegillinn. Á málstofu kl. 9–10.45 á Háskólatorgi, í stofu HT-101 flytur prófessor Hannes H. Gissurarson erindi, sem hann nefnir „Explanations of the Icelandic Bank Collapse“. Þar leiðir hann rök að því, að sumar algengar skýringar á bankahruninu standist ekki í ljósi gagna. Erindið er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Á málstofu kl. 11–12.45 í aðalbyggingu Háskólans, stofu 220, kynnir Hannes einnig verkefni, sem hann hefur unnið ásamt nemanda sínum, Helenu Rós Sturludóttir, „Different Nations, Shared Experiences: The Baltic Countries and Iceland.“ Það er þáttur í rannsóknaráætlun RNH og AECR um „Evrópu fórnarlambanna“. Verkefnið var unnið í samstarfi við Unitas-stofnunina í Eistlandi og Hernámsárasafnið í Lettlandi, sem sjá saman um verkefni á vegum Evrópusambandsins, „Different Nations — Shared Experiences.“

Þriðjudaginn 29. október flytur Hannes H. Gissurarson prófessor erindi um íslenska bankahrunið, orsakir þess og afleiðingar, á fundi í Stokkhólmi, sem sænska hugveitan Timbro heldur. Ásamt honum er ræðumaður Urban Bäckström, fyrrverandi seðlabankastjóri Svíþjóðar og nú framkvæmdastjóri hinna sænsku Samtaka atvinnulífsins.

Rand

Föstudaginn 1. nóvember 2013 kemur skáldsagan Kíra Argúnova (We the Living) eftir rússnesk-bandaríska rithöfundinn Ayn Rand út á íslensku, en hún birtist sem framhaldssaga í Morgunblaðinu 1949, og er þýðandi ókunnur. Frosti Logason útvarpsmaður hefur búið hana til prentunar, en eftirmáli er eftir Ásgeir Jóhannesson, heimspeking og lögfræðing. Sagan gerist á fyrstu árum kommúnistastjórnarinnar í Rússlandi og kemst næst því af skáldsögum Rands að vera sjálfsævisöguleg. Við þetta tækifæri ræðir dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar í Kaliforníu, um Rand og heimspeki hennar, en óhætt er að segja, að Rand sé áhrifamesti kvenheimspekingur allra tíma. Einnig verða sýnd brot úr kvikmynd, sem gerð var á Ítalíu 1942 eftir sögu Rands. Fundurinn verður kl. 17.15 í stofu N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, en að honum loknum verður móttaka. Útgáfa bókarinnar og fyrirlestur Brooks eru liðir í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópa fórnarlambanna.“ Almenna bókafélagið gefur bókina út eins og fyrri skáldsögur Rands, Uppsprettuna og Undirstöðuna.

Mánudaginn 4. nóvember 2013 ræðir dr. Daniel Mitchell, sérfræðingur í skattamálum í Cato-stofnuninni í Washington-borg, um „Laffer-bogann: Hvernig skatttekjur geta aukist við lægra skatthlutfall?“ á fundi RNH og Samtaka skattgreiðenda. Fundurinn verður kl. 12–13 í stofu N-131 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Hann er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans.“

Þriðjudaginn 5. nóvember 2013 talar prófessor Hannes H. Gissurarson á málstofu í viðskiptadeild Háskóla Íslands kl. 12–13 á Háskólatorgi í stofu HT-101 um efnið: „Réð Kolkrabbi atvinnulífi á Íslandi fram undir lok 20. aldar? Og hvað tók þá við?“ Vísar hann þá meðal annars til skrifa breska blaðamannsins Rogers Boyes og háskólakennaranna Roberts Wades og Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur um aðdraganda íslenska bankahrunsins 2008. Fyrirlestur hans er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Fulltrúi frá RNH sækir væntanlega ráðstefnu Evrópuvettvangs um minningar og samvisku í Haag 12.–13. nóvember 2013. Gert er ráð fyrir, að einhverjir úr rannsóknarráði og stjórn RNH sitji hinn árlega Frelsiskvöldverð, Freedom Dinner, sem Atlas Network skipuleggur, en RNH er í samstarfi við þau samtök. Hann verður að þessu sinni haldinn fimmtudaginn 14. nóvember 2013 á Intercontinental Times Square í New York. Hinir íslensku gestir sækja einnig Frelsisvettvanginn, Liberty Forum, tvo næstu daga á undan.

RNH gengst einnig fyrir margvíslegum viðburðum á Netinu og í útgáfumálum í samstarfi við Almenna bókafélagið og aðra aðila. Markmiðið er að gera niðurstöður rannsókna á vegum setursins aðgengilegar, ekki aðeins fræðimönnum, heldur einnig öllum almenningi.

Comments are closed.