Málstofa í minningu fórnarlamba alræðisstefnunnar

Málstofa var haldin í Varsjá 14.–15. maí 2013 um, hvernig best væri að minnast fórnarlamba alræðisstefnu tuttugustu aldar, kommúnisma, nasisma og fasisma. Talið er, að kommúnisminn hafi kostað um eitt hundrað milljón mannslífa, en nasisminn um tuttugu milljónir. Málstofuna hélt Evrópunetið um minningu og samvisku, PEMC, í samstarfi við þrjár stofnanir, Minningarsafnið um uppreisnina í Varsjá, MPW, Rannsóknarstofnun um alræðisstjórnir í Prag, USTR, og Þjóðminningarstofnun Póllands, IPN. Prófessor Hannes H. Gissurarson sótti málstofuna fyrir hönd RNH, en eitt áhersluatriði og rannsóknarefni RNH er einmitt „Evrópa fórnarlambanna“, sem er samstarfsverkefni rannsóknarsetursins og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna.

Lindblad flytur setningarávarp. Dr. Pavel Zeman frá Prag fyrir aftan hann. Ljósm.: Pjotr Gaweski.

Göran Lindblad, fyrrverandi þingmaður á sænska Ríkisdeginum og forseti Evrópunetsins, PEMC, setti málstofuna, en hann hafði forystu um það 2006 í Evrópuráðinu, að ákveðinn var sérstakur minningardagur fórnarlamba alræðisstefnunnar, 23. ágúst, en þann dag árið 1939 undirrituðu Hitler og Stalín griðasáttmálann, sem hleypti af stað heimsstyrjöldinni síðari. Jafnframt skiptu þá einræðisherrarnir tveir á milli sín mið- og austurhluta Evrópu. Evrópuþingið tók málið síðan upp með ályktun 2009. Lindblad kom til Íslands og hélt erindi 31. ágúst 2009 í tilefni af útkomu íslenskrar þýðingar á Svartbók kommúnismans.

Dr. Pawel Ukielski, MPW, talar. Dr. Lukas Kaminski, forstöðumaður IPN, situr fremst. Hannes H. Gissurarson situr á fjórða bekk, vinstra megin fyrir miðju. Ljósm.: Pjotr Gaweski.

Á meðal ræðumanna á málstofunni í Varsjá voru dr. Neela Winkelmann, framkvæmdastjóri Evrópunets um minningu og samvisku, prófessor (emeritus) Gundega Michele, forstöðumaður safns um hernám Lettlands 1940–1991, dr. Andreja Valic Zver, forstöðumaður rannsóknarstofnunar um sögulega sátt í Slóveníu, og Uve Poom, forstöðumaður Unitas-stofnunarinnar í Eistlandi, sem Mart Laar stofnaði. Winkelmann kynnti myndskreytta bók, sem ætluð er nemendum í framhaldsskólum og hefur að geyma sögur og minningabrot fórnarlamba nasista og kommúnista í ýmsum löndum, en henni fylgir geisladiskur með heimildarmyndum. Prófessor Adam Daniel Rotfeld, fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands, sleit málstofunni.

Ýmsar áleitnar spurningar voru ræddar á málstofunni, til dæmis hvenær fórnarlömb verða böðlar og kúgaðir minnihlutahópar breytast í meirihlutahópa og kúga, hver sé merking orðanna „þjóðarmorð“ og „glæpa gegn mannkyninu“ og hvort nota megi orðið „helför“ um fleira en skipulagða útrýmingu Gyðinga, til dæmis þegar Stalín svelti til bana milljónir smábænda í Úkraínu, Tíbetar eru smám saman að hverfa undir stjórn kínverskra kommúnista og Pol Pot framdi fjöldamorð í Kambódíu. Einn dagskrárliðurinn var heimsókn í Minningarsafnið um uppreisnina í Varsjá 1944, og var þar sýnd tölvugerð kvikmynd af borginni í rústum í ársbyrjun 1945. Þá höfðu þýskir nasistar, aðallega SS-sveitirnar, barið uppreisnina niður af mikilli hörku, en rússneski herinn setið aðgerðalaus hjá hinum megin árinnar Vistula, sem rennur í gegnum Varsjá. Myndin er á Youtube:

Einnig er á Youtube mynd til samanburðar af Varsjá fyrir stríð:

Allir málstofugestir fengu að gjöf bók, sem Þjóðminningarstofnun Póllands, IPN, hefur tekið saman um fjöldamorðin í Katyn-skógi 1941, en þá lét Stalín myrða blómann af liðsforingjum pólska hersins og kenndi síðan Hitler um.

Comments are closed.