Ridley um bjartsýni af skynsemisástæðum, 27. júlí kl. 17.30–19.00

RNH, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, efnir til fundar í Öskju, stofu N-132, í Háskóla Íslands föstudaginn 27. júlí 2012 kl. 17.30–19.00. Þar flytur einn kunnasti rithöfundur Breta, Matt Ridley (dr. Matthew White Ridley, fimmti greifinn, viscount, af Ridley) erindi undir heitinu „Hvers vegna ég er bjartsýnn af skynsemisástæðum“ (Why I am a Rational Optimist). Síðan eru fyrirspurnir og umræður, og er Ragnar Árnason prófessor fundarstjóri. Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands stendur einnig að fyrirlestrinum. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Matt Ridley fæddist 1958 og lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Oxford-Háskóla 1983. Hann var vísindaritstjóri Economist í mörg ár og skrifar reglulega um vísindi fyrir Wall Street Journal. Hann sat í bankaráði Northern Rock 2004–2007. Bækur Ridleys um vísindi hafa vakið mikla eftirtekt og selst í 900 þúsund eintökum samtals: The Red Queen and the Evolution of Human Nature 1993; The Origins of Virtue: Human Instincts and the Evolution of Cooperation 1996; Genome: The Autobiography of a Species in 23 Chapters 2003: Nature via Nurture: Genes, Experience, and What Makes Us Human 2003; Francis Crick: Discoverer of the Genetic Code 2006; The Rational Optimist: How Prosperity Evolves 2010.

Matt Ridley skrifar um vísindi í anda Charles Darwins og Richards Dawkins. Hann hefur einnig gagnrýnt ýmsar ýkjur um hlýnun jarðar af mannavöldum. Eftir síðustu bók sína, The Rational Optimist, átti hann í fjörugri ritdeilu við bandaríska auðjöfurinn Bill Gates um, hvort tilefni væri til bjartsýni um þróun mannkyns. Fyrir bókina fékk hann Hayek-verðlaunin og Julian Simon-verðlaunin. Hér er ritdómur Samuels Brittans í Financial Times og hér ritdómur Davids Papineaus í Observer. Matt Ridley heldur úti heimasíðu og bloggar reglulega. Margir fyrirlestrar hans og viðtöl eru á Youtube, til dæmis hér á TED, hér á Reason TV og hér á Hoover Institution. Fyrirlestur Ridleys á Íslandi er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Morgunbladid about Ridley 27 July 2012.

Comments are closed.