Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, var seðlabankastjóri, þegar íslensku bankarnir hrundu 7. október 2008, og hann hafði verið forsætisráðherra og utanríkisráðherra 1991–2005. Davíð kom fram í frægu sjónvarpsviðtali þriðjudagskvöldið 7. október 2008, þar sem hann benti Íslendingum á leið út úr ógöngunum, að slá hring um og varðveita hinn íslenska hluta bankakerfisins, en gera upp erlenda hlutann. Þótt þessum ráðum væri fylgt, var Davíð skömmu síðar hrakinn úr stöðu seðlabankastjóra. Davíð verður ræðumaður í frelsiskvöldverði RNH mánudagskvöldið 7. október 2013 og mun þá meðal annars leitast við að skilgreina stjórnmálaarfleifð sína og rifja upp hina örlagaríku októberdaga 2008, en ræða einnig um framkomu Breta og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í garð Íslendinga.
Þetta er þriðji frelsiskvöldverðurinn, en áður hafa þeir dr. Tom Palmer frá Cato-stofnuninni í Washington-borg og dr. Matt Ridley, einn kunnasti vísindarithöfundur heims, verið ræðumenn. Vegna mikillar aðsóknar að þessu sinni hefur frelsiskvöldverðurinn verið færður úr Þingholti og í Björtuloft í Hörpunni. Þess vegna er enn völ á örfáum miðum. Þeir eru seldir á tvenns konar verði, baráttuverði 30.000 kr. og æskulýðsverði 15.000 kr. Geta þeir, sem hafa áhuga á að sitja kvöldverðinn, haft samband við Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóra RNH, á netfangið jonas@bokafelagid.is fyrir mánudagsmorgun 30. september. Frelsiskvöldverðurinn hefst klukkan 19.00 með fordrykk, en síðan verður borin fram fjórréttuð máltíð.
Fyrr um daginn, kl. 17–19, verður ráðstefna í Háskóla Íslands, stofu N-132 í Öskju, um bankahrunið. Dr. Eamonn Butler, forstöðumaður Adam Smith-stofnunarinnar í Lundúnum, greinir orsakir hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu. Dr. Pythagoras Petratos, kennari í fjármálafræði í Said School of Business í Oxford-háskóla, ræðir um Kýpur, eyland eins og Ísland, sem var hins vegar í Evrópusambandinu og notaði evru. Prófessor Hannes H. Gissurarson leitar raunverulegra orsaka bankahrunsins íslenska, erlendra sem innlendra, en hann vinnur að bók á ensku um það mál. Dr. Ásgeir Jónsson, sem gefið hefur út bók á ensku um bankahrunið, lýsir eftirleik hrunsins, en hann er með bók á ensku í smíðum um hann. Dr. Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði, bregst við erindum. Ásta Möller, forstöðumaður Stofnunar stjórnmála og stjórnsýslufræða í Háskóla Íslands, verður fundarstjóri. Ráðstefnan verður nánar auglýst síðar. Hún er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.