Á fjölsóttri alþjóðlegri ráðstefnu um bankahrunið íslenska 7. október 2013, réttum fimm árum síðar, lagði dr. Eamonn Butler frá Adam Smith-stofnuninni í Lundúnum áherslu á, að mistæk ríkisafskipti, ekki síst undirmálslánin í Bandaríkjunum og lin peningastefna bandaríska seðlabankans og hliðstæðra stofnana, hefðu átt sök á fjármálakreppunni 2007–2008. Rétta ráðið væri því ekki að herða eftirlit eða auka ríkisafskipti.
Prófessor Hannes H. Gissurarson benti á, að íslensku bankarnir voru fyrir hrun þeirra ekki hlutfallslega stærri en bankar til dæmis í Bretlandi eða Sviss. Munurinn var sá, að bresku og svissnesku bankarnir, svo að ekki sé minnst á norrænu bankana, gátu haldið velli vegna gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann, en hinum íslenska var neitað um slíka samninga. Við þetta bættist ekki aðeins, að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins undir forystu Gordons Browns lokaði tveimur bönkum í eigu Íslendinga, um leið og hún bjargaði öllum öðrum bönkum í Bretlandi, heldur líka hitt, að hún setti hryðjuverkalög á Íslendinga, vopnlausa vinaþjóð. Enn ætti eftir að fá skýringar á því, hvernig Bandaríkjamenn og Bretar komu fram við Íslendinga.
Dr. Pythagoras Petratos frá Said School of Business í Oxford-háskóla lýsti fjármálakreppunni á Kýpur, sem er eyland í Evrópu, en ólíkt Íslandi í Evrópusambandinu og á evrusvæðinu. Hefur þeim Íslendingum, sem krafist hafa inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru til þess að komast út úr erfiðleikum, eflaust þótt erindi hans fróðlegt.
Dr. Ásgeir Jónsson frá Háskóla Íslands hélt því fram, að ein meginástæða bankahrunsins hefði verið hátt lánsfjárhæfi íslenskra fyrirtækja, en það mætti rekja til góðs árangurs ríkisstjórna Davíðs Oddssonar 1991–2004 við að koma á stöðugleika í hagkerfinu, auka frjáls alþjóðaviðskipti, hætta að styrkja taprekstur, lækka skatta, betrumbæta kvótakerfið í sjávarútvegi, sem væri eina skilvirka kerfið í fiskveiðum, og treysta innviði lífeyrissjóðanna, sem væru einhverjir hinir öflugustu í heimi. Ásgeir kvað unga og áræðna íslenska framkvæmdamenn, sem notið hefðu stuðnings bankanna, ekki hafa getað neitað sér um allt hið ódýra lánsfé erlendis, sem þeir hefðu haft aðgang að vegna lánstrausts landsins. Ásgeir rakti einnig ýmis mistök, sem gerð hefðu verið eftir hrun, meðal annars sölu bankanna til erlendra kröfuhafa.
Fjörugar umræður urðu í tilefni ráðstefnunnar. Hannes H. Gissurarson kynnti ráðstefnuna í Morgunblaðinu 7. október 2013. Viðskiptablaðið birti viðtal við við Butler 10. október, en Morgunblaðið flutti frétt um ráðstefnuna 8. október og ræddi við Butler 7. október, Petratos 8. október og Ásgeir 9. október. Ríkisútvarpið sendi út viðtal við Butler, sem komið hafði Íslendingum til varnar í bók, sem hann gaf út, Eitthvað er rotið í Bretaveldi (The Rotten State of Britain), skömmu eftir að Gordon Brown og aðrir leiðtogar breska Verkamannaflokksins settu hryðjuverkalög á Íslendinga. Einnig ræddi vefsjónvarp Viðskiptablaðsins við Butler 7. október. Björn Bjarnason bloggaði um fundinn sama dag.
Að kvöldi ráðstefnudagsins var frelsiskvöldverður RNH í Björtuloftum í Hörpunni, og sátu hann 141 maður. Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri, var ræðumaður kvöldsins. Rifjaði hann upp sjónvarpsviðtal við sig 7. október 2008, þar sem hann hefði sagt, að íslenskur almenningur ætti ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Í greiningu á bankahruninu hefði hins vegar verið horft fram hjá því, að kreppan var alþjóðleg, þótt hún skylli fyrr á Íslendingum en flestum öðrum þjóðum. Vitnaði Davíð til frægs símtals síns við Mervyn King, seðlabankastjóra Breta, í því sambandi. Jafnframt sagði Davíð, að erlendur áhrifamaður í fjármálaheiminum hefði hitt sig 30. júlí 2008 og spáð því, að öðrum til viðvörunar yrði einn banki látinn falla fljótlega, líklegast Lehman Brothers, og eitt lítið land, líklega Ísland. Hér er sýnishorn úr heimildaþætti, sem ungir sjálfstæðismenn gerðu um stjórnmálaferil Davíðs Oddssonar og nefnist „Þúsund stormar“, en hann má kaupa á vefverslun ungra sjálfstæðismanna: