Hættum að fóðra tröllið: Mánudag 4. nóvember 12–13

Ríkið er að taka á sig sífellt sterkari svip hvalsins Levjatans, sívaxandi trölls, sem gráðugt er í sjálfsaflafé borgaranna. Dr. Daniel Mitchell, aðalskattasérfræðingur Cato-stofnunarinnar í Washington-borg, ræðir, hvernig við getum hætt að fóðra tröllið í sameiginlegum fundi RNH og Samtaka skattgreiðenda mánudaginn 4. nóvember kl. 12–13 í stofu N-131 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Dr. Mitchell mun víkja að auknum ríkisútgjöldum um allan heim í kjölfar fjármálakreppunnar alþjóðlegu. Hann mun einnig lýsa Laffer-boganum svonefnda, sem talsvert hefur verið deilt um á Íslandi, en samkvæmt honum munu skatttekjur að lokum minnka með aukinni skattheimtu, því að skattstofninn mun þá minnka.

Fundurinn með Mitchell er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“, en Margrét Thatcher heitin, barónessa af Kesteven, var verndari AECR. Erla Ósk Ásgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur og markaðsstjóri hjá Handpoint, verður fundarstjóri. Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Daniel Mitchell lauk M. A. prófi í hagfræði frá Háskólanum í Georgia og doktorsprófi, Ph. D., í hagfræði frá George Mason-háskóla í Virginíu. Hann vann fyrir fjárlaganefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og fyrir Heritage Foundation í Washington-borg, áður en hann varð aðalskattasérfræðingur Cato-stofnunarinnar í Washington-borg. Hann hefur gefið út bók um flatan skatt og skrifar reglulega í Wall Street Journal, New York Times og önnur stórblöð. Hann hefur nokkrum sinnum komið til Íslands og skrifað um íslensk skattamál. Hann kemur einnig oft fram í sjónvarpsþáttum vestan hafs og austan. Hér deilir hann til dæmis við auðmann einn um það, hvort ríkt fólk eigi að bera hlutfallslega þyngri skatta en aðrir:

Hér talar hann um háskattalönd og lágskattalönd:

Hér ber hann vitni fyrir nefnd öldungadeildarinnar um fjármál hins opinbera:

Comments are closed.