Hannes: Hlutskipti Eystrasaltsþjóða lítt þekkt

Davíð Oddsson ásamt utanríkisráðherrum Íslands og Eystrasaltsríkjanna 26. ágúst 1991.

Prófessor Hannes H. Gissurarson flutti 25. október 2013 erindi um Eystrasaltsþjóðirnar í vitund Íslendinga á málstofu um hina alþjóðlegu vídd í Þjóðarspeglinum, þar sem kennarar á félagsvísindasviði Háskóla Íslands kynna rannsóknir sínar. Hann minnti á, að Ísland og Eystrasaltsþjóðirnar hefðu allar orðið fullvalda sama árið, 1918. Allar hefðu þjóðirnar verið hernumdar vorið 1940, Ísland af Bretum, en Eystrasaltsþjóðirnar af Rússum. Í öllum löndunum fjórum hefði annar her haldið inn sumarið 1941, Bandaríkjamenn tekið að sér hervernd Íslands, en Þjóðverjar hernumið Eystrasaltsríkin. Árið 1944 hefði einnig markað tímamót í öllum fjórum löndunum, lýðveldi verið stofnað á Íslandi, en Eystrasaltslöndin verið neydd til að ganga í Ráðstjórnarríkin eins og verið hafði í eitt ár fyrir hernám Þjóðverja.

Frá upphafi fléttaðist saga hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar saman við sögu þessara smáþjóða. Hannes rakti stuttlega sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar, sem hófst, þegar Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Ottósso gerðust stuðningsmenn bolsévíka eftir götuóeirðir í Kaupmannahöfn 1918 og sóttu síðan kornungir þing Kominterns í Moskvu 1920. Árið 1923 flutti lettlensk kona, Liba Fridland, nokkra fyrirlestra á Íslandi um byltingu bolsévíka, og andmælti Hendrik henni ákaflega í Alþýðublaðinu. Hannes rakti einnig ritdeilur milli Morgunblaðsins og Þjóðviljans árin 1945–1946 um hlutskipti Eystrasaltslanda, en þá fræddi flóttamaður frá Litháen, Teodoras Bieliackinas, íslenska lesendur um það, og kallaði Þjóðviljinn hann fyrir vikið „litúvískan fasista“. Kommúnistar höfðu lagt niður flokk sinn 1938, en Sósíalistaflokkurinn var enn hallur undir rússnesku ráðstjórnina.

Ants Oras

Hannes sagði frá stofnun Almenna bókafélagsins 1955, sem átti að sporna við áhrifum kommúnista í íslensku menningarlífi, en fyrsta bók þess var Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir eistneska bókmenntafræðiprófessorinn Ants Oras. Sumarið 1957 tóku forseti Íslands og utanríkisráðherra á móti dr. August Rei, forsætisráðherra útlagastjórnar Eistlands í Stokkhólmi, og mótmælti sendiherra Ráðstjórnarríkjanna því. Árið 1973 gaf Almenna bókafélagið út bókina Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir eistnesk-sænska rithöfundinn Andres Küng, og var þýðandi hennar ungur laganemi, Davíð Oddsson. Þá voru vinstri menn á Íslandi flestir hættir stuðningi við stjórnir kommúnistaríkjanna. Alþýðubandalagið hafði þá leyst Sósíalistaflokkinn af hólmi. Davíð Oddsson var síðan forsætisráðherra sumarið 1991, þegar Ísland varð fyrst til þess allra ríkja að endurnýja viðurkenninguna á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.

Gunnar Karlsson sagnfræðingur í fararbroddi mótmælagöngu gegn vestrænu samstarfi.

Loks kynnti Hannes niðurstöður rannsóknar, sem hann gerði ásamt einum nemanda sínum, Helenu Rós Sturludóttur, á því, hvernig segir frá Eystrasaltsþjóðunum í íslenskum kennslubókum í sögu. Gagnrýndi hann sérstaklega bókina Nýja tímann eftir Gunnar Karlsson og Sigurð Ragnarsson, þar sem segði, að rússneska ráðstjórnin hefði „innlimað“ Eystrasaltsríkin í Ráðstjórnarríkin 1940, en ekki hernumið þau, eins og rétt væri. Þar segði einnig, að Vesturveldin hefðu í Jalta í reynd viðurkennt yfirráð Kremlverja yfir Eystrasaltsríkjunum, en það væri umdeilanlegt. Aðalatriðið um það væri þó, að forystumenn vestrænna lýðræðisríkja hefðu lagt allt annan skilning í hugtakið „áhrifasvæði“ en Stalín. Einnig segði í kennslubók þeirra Gunnars og Sigurðar, að Eystrasaltsþjóðirnar hefðu 1991 nýtt sér stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að ganga úr Ráðstjórnarríkjunum, en þetta væri þvert á skoðanir þessara þjóða sjálfra og á viðtekin sjónarmið í alþjóðarétti: Þær teldu sig hafa verið sjálfstæðar, en síðan verið hernumdar allt til 1991, en ekki lýðveldi í Ráðstjórnarríkjunum að eigin vilja.

Erindi Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Einnig hafði hann um það samstarf við tvær stofnanir í Eistlandi og Lettlandi, sem starfa að verkefninu „Ólíkar þjóðir deila reynslunni“ (Different Nations — Shared Experiences).

Comments are closed.