Hvað er fréttnæmt um íslenska kommúnista?

Almenna bókafélagið gaf haustið 2011 út bókina Íslenska kommúnista 1918–1998 eftir dr. Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði. Mörg atriði í henni hafa ekki komið fram áður, og sum, sem komið hafa fram áður, eru rannsökuð rækilegar og skýrð.

 1. Í þessari bók fæst í fyrsta skipti heildarmynd af íslensku kommúnistahreyfingunni, allt frá upphafi hennar í götuóeirðum í Kaupmannahöfn 1918 og fram til þess að forystusveit Alþýðubandalagsins fór í boðsferð til kúbverska kommúnistaflokksins 1998. Önnur rit um þessa hreyfingu hafa aðeins verið um einhvern einn þátt hennar eða afmarkað tímabil. Hér er sagan rakin frá upphafi til enda og með öllum tiltækum gögnum. Höfundur hefur til dæmis haft afnot af fjölda skjala, m. a. úr rússneskum og íslenskum söfnum, sem öðrum hafa ekki verið tiltæk. Jafnframt birtast í bókinni fjöldi sögulegra ljósmynda, sumar í fyrsta skipti.
 2. Skýrt kemur fram í bókinni, að kommúnistum á Íslandi var full alvara með því að hafna lýðræðislegri leið jafnaðarmanna til breytinga. Alþýðuflokkurinn klofnaði fyrst 1930 vegna þess, að kommúnistar vildu ekki einskorða sig við friðsamlega valdatöku, og hið sama gerðist í sameiningartilraunum Alþýðuflokks og kommúnistaflokks 1937–1938. Stefnuskrá Alþýðubandalagsins 1975 var marxísk og útilokaði ekki valdatöku með ofbeldi. Jafnvel árið 1989 vildi Steingrímur J. Sigfússon ekki, að Alþýðubandalagið gengi í alþjóðasamband jafnaðarmanna, eins og Össur Skarphéðinsson og fleiri lögðu til.
 3. Kommúnisminn hófst fyrr á Íslandi en menn töldu: Hendrik Ottósson var fyrsti launaði erindreki Moskvumanna 1919, og 1920 fengu kommúnistar stóran styrk frá Komintern, eftir að Hendrik og Brynjólfur Bjarnason fóru á sögulegt alþjóðaþing kommúnista í Moskvu.
 4. Þegar forystusveit Alþýðubandalagsins með Svavar Gestsson og Margréti Frímannsdóttur í fararbroddi lét það verða sitt síðasta verk að þiggja boð frá kommúnistaflokki Kúbu haustið 1998, var Kúba einræðisríki kommúnista: 2 milljónir Kúbverja voru landflótta, hundruð eða þúsund manna í fangelsi fyrir stjórnmálaskoðanir sínar og tugþúsundir höfðu verið drepnar eða látið lífið í flóttatilraunum.
 5. Svavar Gestsson var ekki í Humboldt-háskóla í Berlín 1967–1968, eins og hann hélt fram í sjónvarpsþættinum „Þriðja manninum“ 1995, heldur í æðsta flokksskóla miðstjórnar austur-þýska kommúnistaflokksins, Institut für Gesellschaftswissenschaften beim ZK der SED. Þangað var aðeins hleypt þeim, sem gegna átti æðstu stöðum í austur-þýska kúgunarkerfinu. Varð hann nemandi þar samkvæmt sérstakri samþykkt austur-þýsku miðstjórnarinnar og meðmælum Einars Olgeirssonar. Fékk hann rífleg laun, á meðan hann var í náminu, og dóttir hans, Svandís, gekk í leikskóla, sem aðeins var ætlaður börnum miðstjórnarmanna og starfsfólks flokksins.
 6. Svavar reyndist ekki vel undirbúinn undir þennan skóla, svo að ákveðið var að færa hann í flokksskóla á lægri stigi, Parteihochschule Karl Marx. Hann settist þó aldrei í þann skóla, þar sem innrásin í Tékkóslóvakíu var gerð, á meðan hann var í sumarleyfi á Íslandi 1968.
 7. Öllum skjölum um Svavar Gestsson í skjalasafni hins illræmda austur-þýska öryggismálaráðuneytis, Stasi, var eytt sunnudaginn 25. júní 1989, fjórum mánuðum fyrir hrun múrsins. Þetta er afar óvenjulegt og hefur enn ekki verið skýrt.
 8. Á sama tíma og Svavar Gestsson sagðist vera friðarsinni, lýsti hann yfir því opinberlega 1989, að hann ætti þann draum heitastan að taka sér vopn í hönd og berjast með skæruliðahreyfingum í Afríku eða Suður-Ameríku. Hann lét líka eitt sinn í ljós þá von, að Nicolae Ceausescu, einræðisherra í Rúmeníu, gæti sætt hina alþjóðlegu kommúnistahreyfingu.
 9. Fram kemur í einkaskjalasafni Bjarna Benediktssonar, að yfirmenn veðurstofunnar veltu því fyrir sér að víkja Ragnari Stefánssyni jarðskjálftafræðingi frá 1969, eftir að hann hafði tekið ófrjálsri hendi rafhlöður frá stofnuninni til að nota í sprengjur, sem áttu að tortíma mannvirkjum Bandaríkjahers í Hvalfirði. Bjarni, sem þá var forsætisráðherra, fékk því ráðið, að Ragnar fékk aðeins áminningu.
 10. Kristinn E. Andrésson fékk leynileg fyrirmæli um það í Moskvu 1940 að þýða fleiri rit marxista á íslensku og styrk til þess. Fyrirmælin gaf „Vladímírov“, sem var Valko Tsjernenkov, síðar forsætisráðherra Búlgaríu.
 11. Vjatseslav Molotov, þá utanríkisráðherra Ráðstjórnarríkjanna, hafði viðkomu á Íslandi í strangleynilegri og hættulegri flugferð til Bandaríkjanna í maí 1942. Þá um sumarið hitti Einar Olgeirsson rússneska leynilögreglumenn í Reykjavík á leynifundi heima hjá sér.
 12. Eftir að Bandaríkjastjórn bar fram beiðni um herstöðvar til langs tíma í október 1945, ráðfærði Einar Olgeirsson sig við ráðamenn í Moskvu á leynifundi þar, eins og dagbók Dímítrovs sýndir, en eftir það héldu sósíalistar uppi harðri andstöðu við beiðnina.
 13. Lítill vafi er á því, að hin harða barátta sósíalista gegn Keflavíkursamningnum 1946, sem var ekki í neinu samræmi við efni samningsins, var vegna þess, að þeir töldu, að vopnuð valdataka þeirra (eins og bræðraflokkur þeirra í Tékkóslóvakíu framkvæmdi 1948) yrði framvegis útilokuð, hefðu Bandaríkjamenn sérstakan aðgang að Keflavíkurflugvelli.
 14. Ekki er heldur vafi á því, að árásin á Alþingishúsið 30. mars 1949 hafði þann tilgang að stöðva afgreiðslu aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu, eins og kommúnistum hafði tekist með ofbeldi að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Reykjavíkur 9. nóvember 1932. Tilkynning frá Einari Olgeirssyni um, að þingmenn sósíalista væru fangar í húsinu, sem var efnislega rangt, gat ekki þjónað neinum öðrum tilgangi.
 15. Kremlverjar kostuðu nokkrar hörðustu vinnudeilurnar í kalda stríðinu. Miðstjórn kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna samþykkti meðal annars 5.000 punda styrk til Dagsbrúnar 1961, og var framlag þeirra uppistaðan í vinnudeilusjóði félagsins. Stalínistinn Vilhjálmur Þorsteinsson stjórnaði vinnudeilusjóðnum. (Það er hins vegar villa, ættuð frá Jóni Ólafssyni, að þeir hefðu veitt jafnháan styrk 1952.)
 16. Komintern, Alþjóðasamband kommúnista, sem stjórnað var af Moskvumönnum, sendi sex erindreka til Íslands: Vegheim 1925, Sillén 1928 og 1930, Hansteen 1930, Langseth 1930, Levin 1930 og Mielenz 1932. Bein tengsl voru milli erindreksturs Mielenz hér og hinna miklu götuóeirða, sem kommúnistar skipulögðu hér 1932.
 17. Um tuttugu Íslendingar hlutu þjálfun í sérstökum búðum í Moskvu, þar á meðal hernaðarþjálfun. Þeir gegndu síðar lykilhlutverki í kommúnistaflokknum og Sósíalistaflokknum. Forystumenn kommúnista andmæltu þessu gegn betri vitund, t. d. í blaðadeilum um Hallgrím Hallgrímsson 1938 og Tuure Lehén 1949.
 18. Nokkrir áköfustu íslensku kommúnistarnir söfnuðu að frumkvæði dansks iðnaðarmanns, sem búsettur var hér á landi, á fjórða áratug vopnum, sem ætti að nota í byltingunni. Átti Brynjólfur Bjarnason meira að segja skammbyssu.
 19. Bresku leyniþjónustunni tókst að ráða nokkur af þeim fjölda dulskeyta, sem fóru milli Moskvu og Kaupmannahafnar og Reykjavíkur um 1936. Samkvæmt einu þeirra átti kommúnistaflokkurinn íslenski að útvega hjónum tvö vegabréf. Samkvæmt öðru skeyti átti Einar Olgeirsson að veita tafarlaust útskýringar á, hvaða braskari væri á ferð með honum og vildi selja með honum síld til Rússlands. Var það, þegar Einar vildi selja síld austur haustið 1936, eftir að Spánarmarkaður lokaðist fyrir fisk vegna borgarastríðsins þar. Tafðist vegabréfsáritun Einars til Moskvu um nokkrar vikur vegna tortryggni, sem vaknaði vegna viðskiptafélaga hans, Fritz Kjartanssonar umboðsmanns.
 20. Af þeim þremur mönnum, sem kommúnistaflokkurinn sendi til að berjast í spánska borgarastríðinu, hafði einn fengið hernaðarþjálfun í Rússlandi. Í skýrslum til Kominterns, sem nú birtast hér í fyrsta skipti, er sérstaklega talað um áhuga hans á hernaði. Hinir tveir sjálfboðaliðarnir komust aldrei á vígvellina, en annar þeirra var margdæmdur ofbeldismaður úr Reykjavík.
 21. Komintern lagði blessun sína yfir stofnun Sósíalistaflokksins 1938, eins og skjöl sýna. Munurinn á Íslandi og grannríkjunum var ekki, að kommúnistar væru hér sterkari, heldur að jafnaðarmenn voru hér veikari og tóku sumir sameiningartilboði kommúnista.
 22. Forystumenn íslenskra kommúnista voru í sérstökum tengslum við nokkra verstu böðla kommúnistaríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu, t. d. Mihály Farkas og Mátyás Rákosi í Ungverjalandi og Valko Tsjervenkov í Búlgaríu.
 23. Í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar 1958 varð uppnám, sem þaggað var niður, þegar þýsk gyðingakona, Henný Goldstein-Ottósson, sem gift var einum forystumanni kommúnista, bar kennsl á þýskan nasista, Bruno Kress, sem búið hafði hér fyrir stríð, en var nú orðinn háttsettur maður í Austur-Þýskalandi og sérstakur gestur íslenskra kommúnista. Urðu blaðaskrif og bréfaskriftir næstu árin um málið.
 24. Þau Henný Goldstein-Ottósson og Bruno Kress tengdust á annan og óhugnanlegan hátt án þess að vita það sjálf á þeim tíma. Bruno Kress, sem hafði verið rekinn úr Nasistaflokknum fyrir undirróður, en settur inn í hann aftur með sérstöku boði Adolfs Hitlers, var styrkþegi sérstakrar rannsóknastofnunar SS-sveita Himmlers, Ahnenerbe, og átti að skrifa fyrir hana íslenska málfræði. Sama stofnun tók bróður Hennýar Goldstein-Ottósson út úr Auschwitz til að gera á honum mannfræðilegar tilraunir tengdar hinu illræmda „beinagrindamáli“ í Natzweiler-búðunum í Alsace, en fyrir það voru ráðamenn Ahnenerbe hengdir í stríðslok. Fyrrverandi eiginmaður Hennýar, bróðir, mágkona og bróðursonur létust öll í gasklefum nasista.
 25. Forystumenn sósíalista og Alþýðubandalagsins létu sem vind um eyru þjóta upplýsingar frá mönnum, sem kynnst höfðu kúguninni og fjöldamorðunum í Kína, þar á meðal séra Jóhanni Hannessyni og Skúla Magnússyni. Sósíalistar fóru í margar boðsferðir þangað austur.
 26. Moskvumenn stunduðu talsverðar njósnir hér í kalda stríðinu: Nokkrir KGB-menn voru hér jafnan að staðaldri og enn fleiri menn úr leyniþjónustu hersins, GRÚ. Einn þessara manna var hinn frægi Mítrokhín, sem flýði til Bretlands. Annar KGB-maður, Gordíevskíj, taldi, að nokkrir Íslendingar gengju erinda Moskvumanna á Íslandi. Hafði hann hlustað á einn samstarfsmann sinn, Gergel að nafni, segja frá þessu, á meðan þeir deildu skrifstofuherbergi hjá leyniþjónustunni í Moskvu.
 27. Bjarni Benediktsson fékk einnig upplýsingar frá Bandaríkjunum um hugsanlega njósnara Kremlverja hér á landi. Einn þeirra var eistneskur maður, sem kvæntur var íslenskri konu, og kom hingað 1946, en hafði áður verið ræðismaður Eistlands í Leníngarði og Kaupmannahöfn, en fór síðan til Suður-Ameríku. Hét hann Karl Sepp. Hann varð síðar íslenskur ríkisborgari. Aldrei sönnuðust þó neinar njósnir á hann.
 28. Áróðursstarf kommúnista bar árangur. Í leynilegri skoðanakönnun, sem Bandaríkjastjórn gerði 1955, kom í ljós, að Íslendingar voru talsvert vinsamlegri Ráðstjórnarríkjunum og örlitlu óvinsamlegri Bandaríkjunum en algengast var í ríkjum Atlantshafsbandalagsins. Töldu um 11% kjósenda sig kommúnista. Bjarni Benediktsson fékk einn íslenskra ráðamanna aðgang að þessari könnun.
 29. Kommúnistar og síðar sósíalistar höfðu miklu meiri umsvif og áttu miklu meiri eignir en eðlilegt mátti telja miðað við stærð þeirra og afl: Skólavörðustíg 19, Tjarnargötu 20, Þingholtsstræti 27, Laugaveg 18. Ein aðalskýringin á því var Rússagull, þótt áreiðanlega sé ekki allt komið fram í því efni. [Þótt það komi eðli máls samkvæmt ekki fram í bókinni, nemur brunabótamat þessara fjögurra húseigna 2015, gert fyrir árið 2016, um 1,1 milljarði króna.]
 30. Mál og menning þáði ekki aðeins uppgjöf skulda og bein fjárframlög úr sjóðum Moskvumanna, heldur var talsvert af útgáfu félagsins greitt beint að utan, meðal annars frá Ráðstjórnarríkjunum, Kína og Austur-Þýskalandi. Stofnandi Máls og menningar og forstjóri, Kristinn E. Andrésson, fékk sérstök eftirlaun skv. samþykkt miðstjórnar kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna.
 31. Á sjöunda áratug, til 1968, úthlutaði Sósíalistaflokkurinn árlega sex til átta mánaðarferðum á sólarstrendur við Svartahaf til dyggra flokksmanna. Flokkurinn hafði einnig beina milligöngu um nám fjölda ungs fólks í kommúnistaríkjunum. Fulltrúar Æskulýðsfylkingarinnar sóttu flokksskóla í Moskvu allt til 1972.
 32. Þegar menn, sem höfðu dvalist í sósíalistaríkjunum og kynnst þar kúguninni, sögðu frá henni, var ráðist harkalega á þá í málgögnum sósíalista, t. d. á þá Benjamín Eiríksson og Arnór Hannibalsson. Eftir að Arnór leyfði sér að gagnrýna opinberlega stefnu Moskvumanna í listum, vísindum og efnahagsmálum, var honum útskúfað úr sínum gamla vinahópi.
 33. Íslenskir kommúnistar unnu leynt og ljóst gegn þeim rithöfundum, sem þorðu að andæfa þeim. T. d. kallaði bókmenntagagnrýnandi Þjóðviljans, Bjarni Benediktsson frá Hofteigi, Tómas Guðmundsson sprellikarl og ritstjóri Þjóðviljans, Magnús Kjartansson, sakaði Gunnar Gunnarsson um nasisma.
 34. Þegar skáld gerðu upp við Moskvuvaldið, t. d. Hannes Pétursson, Jón úr Vör, Jón Óskar og Jóhann Hjálmarsson, fengu þau yfir sig háðsglósur og níðkvæði í málgögnum sósíalista. Þórbergur Þórðarson orti t. d. níðkvæði um Hannes Pétursson og Þorsteinn frá Hamri níðkvæði um Jón Óskar. Þegar Þórarinn Eldjárn gerði upp við sósíalismann, fékk hann sömu móttökur. Mörður Árnason sendi honum glósur og Franz Gíslason orti kvæði gegn honum.
 35. Þrátt fyrir samþykkt Alþýðubandalagsins 1968 um að rjúfa tengslin við kommúnistaríkin héldu þau áfram, m. a. við Sovétríkin, en þó aðallega við Rúmeníu, Kúbu og jafnvel Norður-Kóreu. Forystumenn Alþýðubandalagsins létu sem vind um eyru þjóta viðvaranir og upplýsingar manna, sem þekktu til í þessum löndum, t. d. Bárðar Halldórssonar í Rúmeníu.
 36. Upp úr 1970 sagði Guðrún Helgadóttir, að Nicolae Ceausescu í Rúmeníu væri mikill „sjarmör“ og gæfulegur af þjóðarleiðtoga að vera, og Þórhildur Þorleifsdóttir sagðist loks hafa kynnst alþýðuvöldum í Kína. Bæði ríkin voru einræðisríki, og stjórnarfar var þar síst betra en í Ráðstjórnarríkjunum eða á Kúbu. Lúðvík Jósepsson neitaði jafnan að fordæma ofsóknir gegn rithöfundum í Rússlandi.
 37. Jafnvel eftir 1968 fóru íslenskir vinstri menn til kommúnistaríkjanna í pílagrímsferðir, m. a. á svonefnd heimsmót æskunnar. Þorsteinn Vilhjálmsson lauk lofsorði á stjórnarfar í Austur-Þýskalandi 1973 og Birna Þórðardóttir og fleiri einstaklingar, sem voru þá í Alþýðubandalaginu, en urðu síðar virkir í Samfylkingunni eða Vinstri grænum, fóru til Norður-Kóreu og höfðu ekkert nema gott eitt um stjórnarfarið þar að segja.
 38. Eftir að Rússagullið þraut, urðu flest fyrirtæki sósíalista gjaldþrota eða því sem næst. Landsbankinn varð að afskrifa 250 milljónir króna að núvirði vegna Þjóðviljans, en Ólafur Ragnar Grímsson hafði í fjármálaráðherratíð sinni gert sérstakan samning við Landsbankann um fyrirgreiðslu við Alþýðubandalagið og Þjóðviljann. Allar eigur svokallaðs Sigfúsarsjóðs runnu til að greiða skuldir flokksins, en aldrei hefur fengist viðhlítandi skýring á um helmingi þeirra þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. [Þótt það komi eðli máls samkvæmt ekki fram í bókinni, nam það Rússagull, sem vitað er um frá 1940 til 1970, aðallega þó veitt 1955–1970, núvirt og uppreiknað vegna skattfrelsis af því um 3,5 milljónum dala eða hátt í hálfan milljarð ísl. kr.]

Comments are closed.