Lamont lávarður: Framferði Bretastjórnar „til skammar“

Lamont lávarður í Búdapest. Ljósm. Pócza Kálmán.

Norman Lamont, lávarður af Lerwick, sem var fjármálaráðherra Breta 1990–1993, sagði á ráðstefnu í Búdapest 15. nóvember 2013 um fjármálakreppuna 2008, að það framferði ríkisstjórnar breska Verkamannaflokksins að setja hryðjuverkalög á Íslendinga hefði verið „til skammar“ (a disgrace). Hann kvaðst biðjast afsökunar á þessu framferði fyrir hönd allra þeirra Breta, sem teldu Íslendinga eiga að sæta réttlátri málsmeðferð. Lamont lávarður kvaddi sér sárstaklega hljóðs eftir fyrirlestur dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors á ráðstefnunni, en hann hafði rakið, hvernig stjórn Verkamannaflokksins hefði lokað íslensku bönkunum tveimur í Lundúnum, fimm mínútum áður en hún kynnti viðamikla björgunaráætlun fyrir alla banka í Bretlandi, og síðan sett hryðjuverkalög á einn íslenska bankann, sem hefði samstundis lamað starfsemi annarra íslenskra fyrirtækja og stofnana.

Hannes í Búdapest. Ljósm. Pócza Kálmán.

Í fyrirlestri sínum hafði Hannes hafnað ýmsum algengum skýringum á bankahruninu íslenska, til dæmis þeim, að regluverkið hefði verið losaralegra en annars staðar, bankarnir of stórir eða bankamennirnir íslensku sérstakir glannar. Hann benti á, að regluverkið var hið sama og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, að stærð bankageirans í Sviss, Belgíu og Bretlandi hefði verið svipuð hlutfallslega og á Íslandi og að bankamenn annars staðar í Evrópu hefðu reynst vera sömu glannar og á Íslandi, nema hvað þeir hefðu fengið aðstoð bandaríska seðlabankans, svo að þeir hefðu ekki fallið. Hannes kvað íslenska bankakerfið 2008 hafa verið veikburða vegna tvenns konar kerfisáhættu: vegna of mikilla innbyrðis eignatengsla og vegna þess, að rekstrarsvæði bankanna hefði verið miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra. Úrslitum hefði ráðið um hrun þess, að seðlabankinn bankaríski hefði neitað að veita Íslandi fyrirgreiðslu og stjórn breska Verkamannaflokksins hefði lokað íslensku bönkunum og beitt hryðjuverkalögunum. Þessar ákvarðanir væru enn ekki að fullu skýrðar.

Á ráðstefnunni í Búdapest, sem breski rithöfundurinn John O’Sullivan skipulagði og Dónárstofnunin hélt 15. nóvember, töluðu meðal annarra auk Lamonts lávarðar og prófessors Hannesar H. Gissurarsonar prófessor Péter Ákos Bod, fyrrverandi seðlabankastjóri Ungverjalands, prófessor Antonio Martino, fyrrverandi utanríkisráðherra (1994–1995) og varnarmálaráðherra (2001–2006) Ítalíu, Peter Wallison, fyrrverandi lögfræðilegur ráðgjafi Reagans Bandaríkjaforseta og höfundur minnihlutaálitsins í skýrslu rannsóknarnefndar Bandaríkjaþings á fjármálakreppunni, og Jack Hollihan, fyrrverandi forstöðumaður hjá Morgan Stanley, sem nú rekur eigið fjárfestingafyrirtæki, en hann seldi allar eignir fyrirtækis síns árið 2007, því að hann taldi kreppu á næsta leiti. Wallison rakti fjármálakreppuna að miklu leyti til undirmálslánanna, sem bandarískum fjármálastofnunum hefði með lögum verið skylt að veita, en Hollihan taldi, að mikil mistök hefðu verið gerð með því að bjarga eða endurskipuleggja fyrst Bear Sterns fjármálafyrirtækið, en reyna síðan ekki að koma í veg fyrir það, að Lehman Brothers-fyrirtækið yrði gjaldþrota. Martino gagnrýndi hugmyndina um nýtt stórveldi með sérstaka mynt, Evrópusambandið og evruna, en Bod kvað Ungverja ekki reiðubúna til að taka upp evru. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans”. Hér er upptaka af ræðunni:

Comments are closed.