Fulltrúar RNH á frelsiskvöldverði í New York 14. nóvember

Frá v.: Skafti Harðarson, Lindy Vopnfjörð (vestur-íslenskur hljómlistarmaður), Igor Gembitsky frá Institute for Humane Studies og Gísli Hauksson.

Gísli Hauksson, formaður stjórnar RNH, og Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda, sóttu frelsiskvöldverð Atlas Foundation í New York 14. nóvember 2013. Atlas Foundation eru eins konar regnhlífarsamtök þeirra rannsóknarstofnana um heim allan, sem reyna að finna sjálfvaldar lausnir frekar en valdboðnar á ýmsum úrlausnarefnum, nýta verðlagningu á frjálsum markaði í stað skattlagningar og skipulagningar. Hugsjónamaðurinn Sir Anthony Fisher stofnaði Atlas, en á meðal stofnana innan samtakanna eða netsins eru Institute of Economic Affairs og Adam Smith-stofnunin í Lundúnum og Cato-stofnunin í Washington-borg, en RNH hefur gott samstarf við við þær. Fyrir samkomuna var haldin ráðstefna, Liberty Forum eða Frelsismótið, um rekstur rannsóknarstofnana og grasrótarsamtaka skattgreiðenda og neytenda. Sagnfræðingurinn Leonard Liggio, sem varð áttræður á árinu, var heiðraður sérstaklega á mótinu fyrir ótrauða baráttu fyrir auknu einstaklingsfrelsi. Liggio sótti fyrir meira en hálfri öld málstofu austurrísk-bandaríska hagfræðingsins Ludwigs von Mises í New York-háskóla. Annar gamall lærisveinn von Mises, prófessor Israel Kirzner, flutti einnig erindi á mótinu, en hann hefur sérstaklega rannsakað hlut frumkvöðla að sköpunarmætti kapítalismans. Á frelsismótinu voru Sir Antony Fisher-verðlaunin afhent, 25 þúsund dalir, og veitti hagfræðingurinn Ning Wang þeim viðtöku fyrir bók, sem hann skrifaði með prófessor Ronald Coase, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, um How China Became Capitalist, hvernig Kína sneri á braut kapítalisma. Aðalstefið þar er, að ör vöxtur kínversks atvinnulífs síðustu áratugi megi frekar rekja til frumkvæðis einstaklinga en forræðis ríkisins.

Aðalræðuna í frelsiskvöldverðinum flutti sænski sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Johan Norberg, en hann leiddi rök að því, að aukin frjáls viðskipti á markaði — eða það, sem er oft nefnt „kapítalismi“ — hefði skilað stórkostlegum árangri síðustu áratugi. Hér er kynning dr. Toms Palmers (sem er tíður gestur á Íslandi) og ræða Norbergs:

Síðan kynnti Brad Lips, forstöðumaður Atlas Foundation, John Templeton verðlaunin, sem nema 100 þúsund Bandaríkjadölum, fyrir merkasta framlag til frelsisbaráttunnar á síðasta ári. Verðlaunahafinn reyndist vera hin bresku Samtök skattgreiðenda, en stofnandi þeirra, Matthew Elliott, flutti erindi á Íslandi fyrir skömmu. Veitti núverandi forstöðumaður Samtakanna, Matthew Sinclair, verðlaununum viðtöku. Hér er verðlaunaveitingin og ræða Sinclairs:

Comments are closed.