Hannes: Bankahrunið ekki sökum „nýfrjálshyggjunnar“

Las Vegas: Wynn-gistihúsið, þar sem ársmót APEE fór fram, er t. v. fyrir miðju.

Ýmsir vinstri sinnar halda því, að bankahrunið íslenska hafi verið vegna misheppnaðrar tilraunar til að hrinda í framkvæmd „nýfrjálshyggju“, eins og það er kallað. Prófessor Hannes H. Gissurarson vísaði þeirri skýringu á bankahruninu á bug í fyrirlestri, sem hann flutti á málstofu á ársmóti APEE, Association of Private Enterprise Association, í Las Vegas 14. apríl 2014. Hann kvað þá skýringu stangast á við tvær skýrar staðreyndir. Hin fyrri væri, að sömu lög og reglur hefðu gilt um íslenska fjármálamarkaðinn og í öðrum aðildarríkjum EES, Evrópska efnahagssvæðisins. Hin síðari væri, að útþensla og skuldasöfnun íslensku bankanna hefði ekki hafist fyrr en 2004, þegar á Íslandi hefði verið vikið frá markaðskapítalisma (eða „nýfrjálshyggju“) til klíkukapítalisma. Að sögn Hannesar var þó örlítill sannleikskjarni í þessari skýringu vinstri sinna: Ísland hefði getið sér gott orð vegna röggsamlegrar og frjálslyndrar stjórnar árin 1991–2004, þegar fylgt var markaðskapítalisma. Þá var fjáraustri úr opinberum sjóðum í illa rekin einkafyrirtæki hætt, skattar lækkaðir, ríkisfyrirtæki seld, lífeyrissjóðir efldir, kvótakerfið í sjávarútvegi betrumbætt og skuldir ríkisins greiddar niður, jafnframt því sem verðbólga hjaðnaði. Lánstraust landsins og um leið íslenska fyrirtækja hefði því aukist mjög, og hefðu bankarnir notið góðs af því. Þeir hefðu haft nær ótakmarkaðan aðgang að ódýru lánsfé frá útlöndum og þess vegna vaxið hratt og langt umfram getu íslenska ríkisins til að bjarga þeim, færi illa. „Laun dygðarinnar er syndin,“ sagði Hannes.

Tvenns konar kerfisáhætta hefði því verið á Íslandi til viðbótar við hina almennu og alþjóðlegu kerfisáhættu. Vegna klíkukapítalisma áranna 2004–2008 hefðu íslensk fyrirtæki verið orðin mjög skuldug og háð hvert öðru. Jafnframt hefði rekstrarsvæði bankanna verið allt EES, en baktryggingarsvæði þeirra Ísland eitt, eins og komið hefði í ljós í lánsfjárkreppunni, þegar hún náði hámarki haustið 2008. Ísland hefði þá hvergi fengið aðstoð ólíkt öðrum löndum. Bandaríski seðlabankinn hefði ekki viljað gera gjaldeyrisskiptasamninga við íslenska seðlabankann, eins og hann gerði þó við seðlabanka Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Sviss, Bretar hefðu ekki viljað aðstoða breska banka í eigu Íslendinga, eins og þeir aðstoðuðu þó alla aðra breska banka, sem það vildu eða þurftu, og til að bæta gráu ofan á svart hefðu Bretar sett hryðjuverkalög á Ísland, en það hefði einangrað landið og gert að engu allar vonir um að bjarga einhverju úr rústum bankanna.

Prófessor Joshua Hall, forseti APEE.

Fjörugar umræður urðu að fyrirlestri Hannesar loknum, og var auðheyrt, að Bandaríkjamenn vissu lítt af erfiðleikum Íslendinga í bankahruninu. Ársmót APEE sóttu að þessu sinni um fimm hundrað manns, þar á meðal margir háskólanemar, og var það hið fjölmennasta í sögu samtakanna. Rætt var um íslenska þjóðveldið 930–1262 á annarri málstofu á mótinu. Hélt prófessor Carrie B. Kerekes frá Florida Gulf Coast University fyrirlestur um helstu stofnanir þess og vakti athygli á því, að Íslendingar hefðu búið við lög án ríkisvalds í rösk þrjú hundruð ár. Réttarvarsla hefði þá verið í höndum einstaklinga. Prófessor John E. Mueller frá Ohio State University flutti einn aðalfyrirlesturinn á ársmótinu. Kvað hann bandarísk stjórnvöld ýkja stórlega hættuna af hryðjuverkum. Geipifé væri tekið af skattgreiðendum og notað til hryðjuverkavarna. Niels Veldhuis frá Fraser-stofnuninni flutti ræðu á hádegisverðarfundi á mótinu og sýndi, hvernig Kanadamenn hefðu breytt um stefnu á miðjum tíunda áratug 20. aldar, minnkað ríkisútgjöld, lækkað skatta og örvað hagvöxt.

Hannes notaði tækifærið á mótinu til að hitta ýmsa gamla kunningja, frá því að hann sótti mörg námskeið og sumarskóla Institute of Humane Studies á níunda áratug 20. aldar, þar á meðal prófessor Roger Garrison í Auburn University, prófessor Larry White í George Mason-háskóla, dr. Gerald P. O’Driscoll í Cato-stofnuninni, dr. Nigel Ashford í IHS, prófessor Peter Boettke í George Mason-háskóla og prófessor Sanford Ikeda í Purchase-skólanum í Ríkisháskólanum í  New York. Á mótinu voru einnig nokkrir nýlegir gestir RNH á Íslandi, þar á meðal prófessor Douglas Rasmussen í St. John’s-háskóla, dr. Eamonn Butler í Adam Smith-stofnuninni og dr. Yaron Brook í Ayn Rand-stofnuninni. Prófessor Joshua Hall í Háskólanum í Vestur-Virginíu var kjörinn forseti APEE, en næst verður ársmót samtakanna í Cancún í Mexíkó.

Comments are closed.