Fórnarlömb kommúnista njóti réttlætis

Frá v.: Doireann Ansbro, Hannes H. Gissurarson, Andrei Muraru, Edvins Snore, Neela Winkelmann og Frantisek Sedivý (snýr baki).

Fram á síðustu ár hafa borist fréttir af því, að aldraðir nasistar og samstarfsmenn þeirra séu dregnir fyrir dóm vegna illvirkja, sem þeir frömdu fram að falli nasismans 1945. Hitt er miklu sjaldgæfara, að kommúnistar og meðreiðarsveinar þeirra séu ákærðir fyrir glæpi, þótt þeir hafi stjórnað miklu lengur, í Austur-Evrópu allt til 1989, og hafi miklu fleiri fórnarlömb á samviskunni. Hvarvetna í kommúnistaríkjunum voru stjórnarandstæðingar ýmist teknir af lífi eða sendir í þrælkunarbúðir, fjölmargir hópar fluttir eftir þjóðerni, stétt eða stjórnmálaskoðunum nauðugir af heimaslóðum, saklaust fólk pyndað til fáránlegra játninga og sýndarréttarhöld haldin, fólk svipt málfrelsi, trúfrelsi og félagafrelsi og þeir, sem reyndu að flýja, umsvifalaust skotnir, ef til þeirra náðist. Er talið, að fórnarlömb kommúnismans á tuttugustu öld séu um 100 milljónir. RNH er aðili að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, sem leitast við að halda á lofti minningu fórnarlamba alræðisstefnunnar í Evrópu, jafnt nasista og kommúnista. Tengist eitt samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, þessu viðfangsefni, „Evrópa fórnarlambanna.“

Dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna á vegum RNH, sótti málstofu Evrópuvettvangsins 29. júlí 2014 í Prag um, hvernig fórnarlömb kommúnismans fái notið réttlætis. Enn eru margir illvirkjar á lífi og eiga jafnvel talsvert undir sér í löndum, sem voru áður undir kommúnistastjórn. Þeir reyna eftir megni að fela slóð sína, meðal annars með því að takmarka aðgang að skjölum og öðrum gögnum, þar sem þeir geta, og hrópa niður þá, sem dirfast að vekja athygli á flekkaðri fortíð þeirra. Í Slóveníu hafa til dæmis fundist margar fjöldagrafir þeirra, sem kommúnistar tóku af lífi án dóms og laga í lok seinni heimsstyrjaldar. Er giskað á, að um sé að ræða um 100 þúsund manns. Fórnarlömbin voru ekki aðeins fyrrverandi samstarfsmenn nasista, heldur líka ýmsir þeir, sem kommúnistar töldu ógna alræðisvaldi sínu eftir stríð. Í Tékklandi hafa fyrrverandi kommúnistar reynt að tefja og torvelda eftir megni, að skjöl frá tíð kommúnista þar séu færð í stafrænan búning og sett á Netið.

Á meðal annarra fundarmanna voru dr. Neela Winkelmann frá Prag, dr. Edvins Snore frá Riga, prófessor Albin Eser frá Freiburg og Dorieann Ansbro frá mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf. Einnig sóttu málstofuna nokkrir Tékkar, sem ofsóttir höfðu verið á dögum kommúnistastjórnarinnar þar, til dæmis František Šedivý, sem var fyrir andstöðu við kommúnistastjórnina sendur í tólf ár í þrælkunarbúðir, þar sem grafið var eftir geislavirkum efnum. Á meðal samstarfs- og styrktaraðilda málstofunnar var þýska stofnunin Konrad Adenauer Stiftung, og var hún haldin í húsakynnum hennar í Prag.

Comments are closed.