Fjórir fyrirlestrar á Norðurlöndum

Prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson, umsjónarmaður rannsókna RNH, flytur fjóra fyrirlestra á ráðstefnum á Norðurlöndum í ágúst. Á árlegri ráðstefnu norrænu stjórnmálafræðingasamtakanna, Nordic Political Science Association, í Gautaborg í Svíþjóð 12.–15. ágúst heldur hann þrjú erindi. Eitt er á málstofu um „International Courts and Domestic Politics“, sem Johan Karlsson Schaffer leiðir, miðvikudaginn 13. ágúst kl. 13.30–14.30. Þar ræðir Hannes um Icesave-deiluna milli Íslendinga annars vegar og Breta og Hollendinga hins vegar, afstöðu Norðurlandaþjóðanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, tilraunir til samninga, úrskurð EFTA-dómstólsins og áhrif málsins á íslensk stjórnmál. Andmælandi er Matthew Saul, sem stundar rannsóknir í laga- og mannréttindastofnun Oslóarháskóla. Hannes er einnig andmælandi Schaffers og fleiri höfunda á sömu málstofu þriðjudaginn 12. ágúst kl. 13.30–14.30.

Annað erindið er á málstofu um „International Political Theory“, sem Göran Duus-Otterström leiðir, fimmtudaginn 14. ágúst kl. 8.45–9.45. Erindi Hannesar þar nefnist: „Why Was Iceland Left Out in the Cold?“ Hann lýsir því, hvernig smáþjóðir hafa jafnan orðið að sætta sig við forræði stærri þjóða, sem komið hafi misjafnlega fram við þær. Ísland hafi á 20. öld aðallega hallað sér að Bretum og Bandaríkjunum. Landið hafi hins vegar reynst vera vinalaust haustið 2008. Bandaríski seðlabankinn hafi gert gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur, en neitað seðlabanka Íslands um slíkan samning. Bretar hafi neitað íslenskum bönkum í Bretlandi um aðild að aðstoð við banka í lausafjárvanda, sem veitt var í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, og jafnvel beitt hryðjuverkalögum á einn bankann og um skeið á seðlabankann íslenska og fjármálaráðuneytið. Andmælandi er Aaron Maltais, sem stundar rannsóknir í stjórnmálafræðideild Stokkhólmsháskóla. Hannes er einnig andmælandi Fredriks Dybfests Hjorthens á sömu málstofu kl. 9.45–10.45.

Þriðja erindið er á málstofu, sem Anders Lindbom leiðir, fimmtudaginn 14. ágúst kl. 13.00–15.00 um „The Nordic Welfare Model in Transition“ og nefnist: „The Icelandic Welfare State: Nordic or Anglo-Saxon?“ Þar ræðir Hannes um þróun áranna 1991–2004, þegar miklar breytingar urðu á íslenska hagkerfinu, sérstaklega áhrifin á tekjuskiptingu og lífskjör. Hann leiðir rök að því, að þá hafi Íslendingar ekki vikið af hinni norrænu leið á hina engilsaxnesku, eins og oft hafi verið haldið fram, heldur markað sér séríslenska leið. Fátækt og útskúfun hafi verið minni á Íslandi en víðast annars staðar. Lífskjör allra hópa hafi hins vegar versnað eftir fall bankanna, sérstaklega þó tekjuhærri hópanna. Andmælandi er Stephan Köppe, sem stundar rannsóknir á norrænum velferðarríkjum í Háskólanum í Dundee. Hannes er einnig andmælandi Christians Albrekts Larsens í sömu málstofu miðvikudaginn 13. ágúst kl. 8.30–10 og Joakims Palmes föstudaginn 15. ágúst kl. 9–10. Einn íslenskur fræðimaður er annar á ráðstefnunni í Gautaborg, prófessor Grétar Þór Eyþórsson frá Háskólanum á Akureyri. Fyrirlestrar Hannesar eru þættir í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Henny Goldstein-Ottósson.

Á 28. norræna sagnfræðingamótinu í Joensuu í Finnlandi 14.–17. ágúst flytur Hannes fyrirlestur á sérstakri málstofu um meginstef mótsins, „Crossovers – Borders and Encounters in the Nordic Space“. Málstofan er kl. 8–11 laugardaginn 16. ágúst í Metria House í Háskólanum í Joensuu, og stjórnar henni finnski sagnfræðingurinn Jouko Nurmiainen. Erindi Hannesar nefnist „Two Germans in pre-war Iceland, and their later strange encounter“. Er það um einkennileg örlög tvegga Þjóðverja, sem dvöldust á Íslandi fyrir stríð. Annar var nasisti, dr. Bruno Kress, sem kenndi þýsku og stundaði rannsóknir á íslensku máli á vegum Ahnenerbe, rannsóknarstofnunar SS-sveita Heinrichs Himmlers. Hinn var flóttamaður af gyðingaættum, Henný Goldstein, sem kom hingað með son sinn og móður. Öðrum bróður Hennýar tókst líka að komast til Íslands fyrir stríð, en hinn lét lífið í rannsókn, sem Ahnenerbe, rannsóknarstofnun SS-sveitanna, gerði á höfuðlagi og hauskúpum gyðinga í Natzweiler-fangabúðunum nálægt Strassborg. Þegar Bretar hernámu Ísland, handtóku þeir Kress og vistuðu á eynni Mön, uns hann var sendur til Þýskalands í fangaskiptum. Henný giftist hins vegar íslenskum manni og gerðist íslenskur ríkisborgari. Vorið 1958 bar fundum þeirra Kress og Hennýar aftur saman í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar. Kress var þá orðinn kommúnisti og forstöðumaður norrænu stofnunarinnar í Greifswald í Austur-Þýskalandi, en eiginmaður Hennýar var frammámaður í Sósíalistaflokknum. Varð nokkurt uppnám í veislunni, þegar þau Kress og Henný hittust, og hlutust af blaðaskrif og bréfaskipti milli Kress og Einars Olgeirssonar. Hannes hefur skrifað ritgerð á íslensku um þessa einkennilegu endurfundi. Á meðal annarra íslenskra fyrirlesara eru Hrefna Róbertsdóttir, prófessor Anna Agnarsdóttir, Ólafur Rastrick, Margrét Gunnarsdóttir, Sverrir Jakobsson, prófessor Guðmundur Jónsson, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Sumarliði Ísleifsson. Erindi Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Glærur Hannesar í Gautaborg 13. ágúst 2014

Gærur Hannesar að morgni 14. ágúst 2014

Glærur Hannesar í Gautaborg 14. júlí eftir hádegi 2014

Glærur Hannesar í Joensuu 16. ágúst 2014

Comments are closed.