Kenningar Pikettys: Villandi tölur um tekjudreifingu

Þátttakendur á ráðstefnunni í Björgvin. Hannes H. Gissurarson (í bláum jakka og rauðum bol) stendur fyrir aftan stúlku, sem heldur á borða með merki ESL. Yaron Brook stendur fyrir miðju fyrir aftan borðann.

Kenningar franska hagfræðingsins Tómasar Pikettys, sem vakið hafa mikla athygli, eru lítt ígrundaðar, þegar að er gáð, sagði prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður fræðilegra rannsókna í RNH, á ráðstefnu European Students for Liberty in Björgvin 10. október 2014. Bar Hannes Piketty saman við John Rawls, sem verið hefur helsti hugsuður vinstri manna. Rawls hafði áhyggjur af fátæku fólki, en Piketty aðallega af ríku fólki. Allir geta tekið undir það, að fátækt sé brýnt úrlausnarefni. En er auður eða velmegun á sama hátt eitthvert sérstakt úrlausnarefni? Þótt talnameðferð Pikettys væri gölluð að sögn Hannesar, gæti þó vel verið, að bilið milli ríkustu og fátækustu tekjuhópanna á Vesturlöndum hefði aukist síðustu áratugina, en bilið hefur hins vegar minnkað í heiminum sem heild. Tekjudreifingin væri samkvæmt því orðin ójafnari á Vesturlöndum (aðallega vegna þess að hinir ríku hafa orðið talsvert ríkari, bilið lengst upp á við), en hún væri orðin jafnari í heiminum í heild (aðallega vegna þess að margir fátækir menn í Kína og Indlandi hafa komist í álnir: samkvæmt tölum Pikettys sjálfs hafa rauntekjur 90% tekjulægstu Kínverjanna þrefaldast frá því um miðjan níunda áratug síðustu aldar).

Þrír ræðumenn: Hannes, Brook og Rögnvaldur. Ljósm. Eszter Nova.

Hannes spurði: Er það eitthvað til að hafa áhyggjur af? Er ekki fagnaðarefni, ef hundruð milljóna manna í Kína og á Indlandi hafa brotist úr fátækt í bjargálnir? Það væri hins vegar rétt, að hópur Vesturlandabúa, sem býr yfir seljanlegum, en einstæðum og því ekki framleiðanlegum eða eftirlíkjanlegum hæfileikum, svo sem kvikmyndastjörnur, skemmtikraftar, íþróttahetjur, hugvitsmenn og framkvæmdamenn, gæti nú náð til miklu fjölmennari markaðar en áður, líklega þriggja til fjögurra milljarða í stað 300–400 milljóna áður, og nyti hann góðs af í miklu hærri tekjum (sem sambærilegur er við rentu, eins og hagfræðingar skilgreina hana). En Hannes benti líka á, að ekkert væri siðferðilega rangt við tekjudreifingu samkvæmt frjálsu vali. Tók hann dæmi: Milton Friedman kemur til Íslands og heldur fyrirlestur. Þúsund manns sækja fyrirlesturinn og greiða $50 dali hver. Eftir hann verður Friedman ríkari um $50 þúsund (sex milljónir íslenskra króna), en 1.000 manns fátækari hver um $50 dali. En hvar er óréttlætið? Allir eru ánægðir. Einnig benti Hannes á, að auður væri ekki þéttur og ósundranlegur og Piketty vildi vera láta. Piketty vitnaði oft í skáldsögur Balzacs, en sannleikurinn væri sá, að þessar sögur væru aðallega um það, hversu fallvaltur vinur auðurinn væri. Í frægustu sögu Balzacs, Père Goriot (Gamla Goriot), sem Piketty yrði tíðrætt um, hafði Goriot sjálfur tapað öllu sínu fé, jafnframt því sem önnur dóttir hans væri févana, af því að hún þyrfti að greiða spilaskuldir fátæks elskhuga síns, en hin gift manni, sem tapað hefði heimanmundi hennar á áhættusömu braski.

Fimm íslenskir námsmenn voru á þinginu. Aðrir fyrirlesarar voru Rasmus Brygge frá Danmörku, dr. Yaron Brook frá Ayn Rand Institute í Kaliforníu og prófessor emeritus Rögnvaldur Hannesson frá Norska viðskiptaháskólanum í Björgvin, NHH, en ráðstefnan fór fram í húsakynnum hans. Rögnvaldur nam í Svíþjóð, en hefur starfað í Noregi, frá því að hann lauk doktorsprófi. Hann er gistiprófessor í Háskóla Íslands. Þeir Eirik Aaserod frá Noregi og Lukas Schweiger, formaður ESL, höfðu veg og vanda af skipulagningunni. Fyrirlestur Hannesar á ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar í Björgvin

Comments are closed.