Ridley: Heimur batnandi fer!

Gísli Hauksson, stjórnarformaður RNH, og Ridley. Ljósm. FOK.

Heimurinn fer ört batnandi, hvort sem litið er á lífskjör, heilsu og læsi eða margvíslegt minnkandi böl eins og ofbeldisglæpi, stríðsrekstur og drepsóttir. Jörðin fer líka grænkandi, minna land þarf til matvælaframleiðslu, jafnframt því sem umhverfi manna hefur víðast verið að batna (með undantekningum eins og Kína). Einhver hlýnun jarðar hefur átt sér stað, og hún er að einhverju leyti af manna völdum, en óvíst er, að hafi þurfi þungar áhyggjur af henni. Vandinn hefur verið stórlega ýktur. Þetta sagði breski vísindarithöfundurinn Matt Ridley, sem kom til landsins 30. október og hélt erindi fyrir fullu húsi á málstofu RNH, Almenna bókafélagsins og fjármálafyrirtækisins Gamma í tilefni þess, að Almenna bókafélagið hefur gefið út bók hans, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist). Þar lýsir Ridley þróun mannkynsins síðustu hundrað þúsund árin og því skipulagi skipta, sem Friedrich A. Hayek kallaði „catallaxy“ og gert hefur fólki kleift að nýta sér þekkingu hvers annars og skapa nýja þekkingu.

Einn virtasti vísindamaður Íslendinga, Þráinn Eggertsson hagfræðiprófessor, sem flutti einnig erindi á málstofunni, segir um bók Ridleys: „Matt Ridley, rithöfundur, vísindamaður og fyrrum ritstjóri hjá tímaritinu Economist, hefur í þessari bók endurraðað hugmyndum frá Adam Smith og Charles Darwin til að útskýra hvers vegna mannfólkið hefur náð lengra en önnur dýr á jörðinni. Hvernig sérhæfing og skipti milli óskyldra aðila samnýtir þekkingu milljóna manna og skapar gæði, svo sem bifreiðar, tölvur og lyf, sem enginn einn okkar gæti fundið upp og búið til. Ridley fjallar einnig um dómsdagsáráttu mannskepnunnar og tískustrauma í heimsendaspám, sem áður tengdust hefðbundnum trúarbrögðum en nú einnig raunvísindum. Höfundurinn leitar víða fanga, er afburðasnjall stílisti með ríkt skopskyn og ótrúlega fróður um þróun lífsins á jörðinni, mannkynssögu og nýjar rannsóknir í félags- og raunvísindum.“

Á málstofunni flutti Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent einnig erindi um eitt dæmi, sem Matt Ridley tekur í bók sinni af því, hvernig sjálfbærni og arðbærni geta farið saman: íslenska kvótakerfið. Kerfi framseljanlegra, varanlegra aflakvóta felur í sér hvatningu og möguleika fyrir útgerðarmenn til að lækka tilkostnað og gæta þess að ganga ekki á gæðin. Þótt það sé ekki kerfi fullra eignaréttinda, hefur það suma eiginleika þess, og hefur það skilað furðugóðum árangri. Víðast hvar í heiminum eru fiskveiðar reknar með stórtapi, en hér með gróða, sem hefur orðið sumum umkvörtunarefni. Málstofan var haldin í fundarsal Gamma við Garðastræti, og að hennni lokinni var móttaka. Málstofan var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.