Auðlindaskattur og auðlegðarskattur óskynsamlegir

Ragnar, Grainger og Hannes. Ljósm. Mbl. Kristinn Ingvarsson.

Auðlindaskattur í sjávarútvegi er óheppilegur, ef setja á hann á til að tryggja skynsamlega nýtingu fiskistofna, því að það mun aldrei takast. Hagsmunaaðilar munu aldrei samþykkja hann. Horfur á samkomulagi við hagsmunaaðila væru miklu vænlegri, þegar aflaheimildum væri í upphafi úthlutað ókeypis í samræmi við aflareynslu. Og auðlindaskattur er líka óheppilegur, ef setja á hann á til að gera hugsanlegan fiskveiðiarð upptækan, því að hagsmunaaðilarnir skapa þennan arð, og hann myndi minnka við auðlindaskatt. Kerfi framseljanlegra og einstaklingsbundinna aflakvóta hvetti til fjárfestinga og nýsköpunar. Hins vegar er allt í lagi að leggja á veiðigjald til að standa undir kostnaði við stjórnun og eftirlit með fiskveiðum. Prófessor Corbett Grainger frá Háskólanum í Wisconsin-ríki kynnti þessar niðurstöður úr rannsóknum sínum á fjölmennri málstofu RNH og Samtaka skattgreiðenda 24. október 2014, þar sem Skafti Harðarson var fundarstjóri og dr. Birgir Þór Runólfsson umsegjandi.

Ragnar Árnason, prófessor í Háskóla Íslands, ræddi um mælingar á tekjudreifingu. Hann kvað þær ósjaldan svo ófullkomnar, að fráleitt væri að reisa kröfur um stórkostlegar skattabreytingar — til dæmis sérstakan skatt á stóreignamenn eða hátekjufólk — á þeim. Gini-stuðullinn, sem oft væri notaður, vegna þess að hann væri einfaldur í notkun, veitti svipaðar upplýsingar um tekjudreifingu og sú lýsing á hesti um hann, að hesturinn væri brúnn á litinn. Einn Gini-stuðull væri til fyrir margar ólíkar og misjafnar tekjudreifingar. Ragnar sýndi fram á, að Gini-stuðull fyrir tiltekið land myndi hækka, ef háskólanemum og ellilífeyrisþegar fjölgar hlutfallslega vegna aukinnar háskólamenntunar og lengri meðalaldurs, en hvort tveggja væri jafnan talið æskilegt. Einsársmælikvarðar eins og Gini-stuðullinn væru ófullkomnir, því að miða þyrfti við ævitekjur hvers manns, sem væri breytilegar, stundum lágar (á meðan hann væri námsmaður og lífeyrisþegi), en stundum háar (þegar hann væri á hátindi orku og aflagetu um miðjan aldur). Vísaði Ragnar til ritgerða um þetta í bókinni Tekjudreifingu og sköttum, sem nýútkomin er hjá Almenna bókafélaginu.

Balzac: Auður er valtastur vina

Hannes H. Gissurarson, prófessor í Háskóla Íslands, taldi ýmsar veilur vera í umtöluðu verki Thomasar Pikettys, Fjármagni á 21. öld. Tölur Pikettys um eignadreifingu hefðu sumar reynst rangar, en ef til vill væri rétt, að tölur um tekjudreifingu á Vesturlöndum sýndu, að úr henni hefði teygst upp á við, ríku fólki hefði fjölgað og það orðið ríkara. En tekjudreifing í heiminum í heild væri orðin jafnari. Skýringin á þessari þróun væri hnattvæðingin: Kínverskir og indverskir verkamenn veittu starfsbræðrum sínum harða samkeppni, en jafnframt hefði fólk með einstæða og ófjölfaldanlega hæfileika (afburðastjórnendur, kvikmyndastjörnur, íþróttahetjur, uppfinningamenn) eignast miklu stærri markað fyrir þjónustu sína og öðlast ofurtekjur. Ekkert væri heldur að ójafnri tekjudreifingu, væri hún tekjudreifing samkvæmt frjálsu vali. Það væri síðan ekki eins víst og Piketty héldi, að fjármagn ávaxtaðist ætíð hraðar en hagvöxtur. Fjármagn hlæðist ekki upp, heldur dreifðist með tímanum (eins og skáldsögur Balzacs, sem Piketty vitnaði óspart í, sýndu), og hagvöxtur gæti haldið áfram að vera ör, væri sköpunarmáttur kapítalismans nýttur.

Málstofan var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Vakti hún mikla athygli fjölmiðla. Viðskiptablaðið og Morgunblaðið birtu bæði fréttir um, að hún stæði fyrir dyrum, og Morgunblaðið birti frásögn af henni og viðtöl við frummælendur 25. október og 1. nóvember.

 

Glærur Ragnars Árnasonar

Glærur Corbetts Graingers

Glærur Hannesar um verk Pikettys

Comments are closed.