Smith: Peningar bæta lífið og lengja

Prófessor Tara Smith frá Háskólanum í Texas í Austin flutti erindi um siðferðisboðskap rússnesk-bandarísku skáldkonunnar og heimspekingsins Ayns Rands á vegum RNH mánudaginn 24. nóvember. Rand var áhrifamesti kvenheimspekingur, sem uppi hefur verið, og hafa verk hennar selst í þrjátíu milljónum eintaka. Hún notaði skáldsögur sínar til að koma á framfæri einstaklingshyggju sinni og stuðningi við kapítalismann, og hefur Almenna bókafélagið nýlega gefið þrjár þeirra út á íslensku, Uppsprettuna (The Fountainhead), Undirstöðuna (Atlas Shrugged) og Kíru Argúnovu (We the Living). Gerði Smith sérstaklega að umtalsefni tvo kafla um peninga í Undirstöðunni. Francisco d’Anconia flytur á einum stað ræðu gegn þeirri algengu skoðun, að peningar séu rót alls ills. Hann bendir á, að peningar séu umfram allt miðill, sem geri fólki kleift að fullnægja þörfum hvers annars í frjálsum viðskiptum. Í stað þess að ræna þeim gæðum, sem menn girnast, greiða þeir fyrir þau. Síðar í bókinni er sú skoðun sett fram, að peningar lengi líka lífið í þeim skilningi, að með þeim geta menn keypt sér tíma, fullnægt fleiri þörfum sínum en ella. Í skipulagi peninga og frjálsra viðskipta þurfa menn að vinna sífellt færri stundir til að fullnægja frumþörfum sínum og geta því notað aukalegan afrakstur til að fullnægja öðrum þörfum sínum, löngunum eða hugsjónum. Erindi prófessors Smiths var fjölsótt, og svaraði hún spurningum á eftir, en síðan var móttaka á vegum RNH. Erindið var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Hér er fyrirlestur, sem prófessor Smith hélt um Ayn Rand í Stokkhólmi 2014:

Comments are closed.