Bretar skildu Íslendinga eftir úti í kuldanum

Hannes flytur fyrirlestur sinn í IEA. Ljósm. Andrés Magnússon.

Bankahrunið íslenska 2008 var Íslendingum að kenna í þeim skilningi, að hér hafði skapast mjög viðkvæmt ástand vegna örrar útþenslu bankanna. En gler brotnar ekki, af því að það sé brothætt, og viðkvæmt ástand breytist ekki í hrun, nema eitthvað gerist. Þetta sagði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og forstöðumaður rannsókna í RNH, í fyrirlestri hjá hugveitunni Institute of Economic Affairs í Lundúnum fimmtudaginn 27. nóvember að viðstöddu fjölmenni. Hannes sagði, að þrjár ákvarðanir hefðu ráðið úrslitum um, að fyrirsjáanlegir erfiðleikar og jafnvel snörp kreppa á Íslandi hefði breyst í hrun: Bandaríski seðlabankinn hefði neitað hinum íslenska um gjaldeyrisskiptasamninga, á sama tíma og hann gerði slíka samninga við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs og jafnvel Sviss. Breska Verkamannaflokksstjórnin hefði í öðru lagi neitað breskum bönkum í eigum íslenskra banka um sömu lausafjárfyrirgreiðslu og hún veitti öllum öðrum bönkum í Bretlandi í annarri viku október 2008. Og með því að setja hryðjuverkalög á Íslendinga hefði breska Verkamannaflokksstjórnin gert að engu allar tilraunir til að bjarga einhverju úr bankakerfinu. Sú aðgerð gagnvart gamalli vinaþjóð, sem hefði ekki einu sinni her á að skipa, ætti aðild að Atlantshafsbandalaginu ásamt Bretum og hefði stutt Breta og Bandaríkjamenn í Írak, væri óskiljanleg.

Hannes vísaði því á bug, að íslensku bankarnir hefðu verið of stórir. Íslenska bankakerfið hefði verið svipað hlutfallslega að stærð og svissneska bankakerfið, og skoska bankakerfið hefði verið stærra hlutfallslega miðað við Skotland. Hvað olli því þá, að svissneski bankinn UBS og skoski bankinn RBS féllu ekki eins og íslensku bankarnir? Að þeim var bjargað, ekki síst með gjaldeyrisskiptasamningum, en RBS líka með framlögum skattgreiðenda í Englandi, Wales og Norður-Írlandi.

Alistair Darling

Hannes kvað það auðvitað rétt, sem segði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að falin kerfisáhætta hefði verið í íslenska bankakerfinu. Þessa áhættu mætti að mestu leyti rekja til Baugshópsins, eins og kæmi fram í skýrslunni. Bankarnir hefðu nýtt sér hið góða orðspor Íslands frá árunum 1991–2004, þegar stjórnarfar var til fyrirmyndar, og tekið erlend lán til að endurlána Baugshópnum og öðrum aðilum. Sumar fjárfestingar hópsins hefðu verið skynsamlegar, en aðrar ekki. Til dæmis hefði leiðtogi Baugshópsins, Jón Ásgeir Jóhannesson, keypt sér lystisnekkju af gerðinni Heesen 4400, einkaþotu af gerðinni Dassault Falcon-2000, skíðaskála í Courchevel í Frakklandi og skrauthýsi við Gramercy Park á Manhattan fyrir marga milljarða króna. Með eyðslusemi sinni og ágengni hefðu hann og viðskiptafélagar hans árin 2004–2008 breytt hinu góða orðspori Íslands til hins verra og þannig gert íslenskum stjórnvöldum erfiðara fyrir um að fá fyrirgreiðslu, þegar á þurfti að halda. En breska Verkamannaflokksstjórnin hefði einnig beinlínis verið fjandsamleg Íslendingum, eins og kæmi fram í bók Alistairs Darlings, fjármálaráðherra Breta á dögum bankahrunsins, Back from the Brink, sem kom út 2011. Erfitt væri að skýra þann fjandskap, en ef til vill skipti einhverju máli, að Darling og Gordon Brown, sem báðir væru frá Skotlandi, hefðu viljað sýna Skotum, hvað það kostaði að vera sjálfstæður.

Eftir fyrirlestur Hannesar voru umræður. Einn fundarmanna kvað erfitt að skilja úrskurð EFTA-dómstólsins í Icesave-deilunni, því að Íslendingar hefðu mismunað íslenskum og erlendum innstæðueigendum. Hannes kvað þetta fullkominn misskilning, sem raunar breskir ráðamenn og jafnvel dómarar hefðu tekið undir. Með neyðarlögunum 6. október 2008 hefðu allir innstæðueigendur í íslensku bönkunum fengið forgang, líka breskir innstæðueigendur. Hins vegar hefðu íslenskir ráðamenn um sama leyti gefið munnlegar yfirlýsingar um það, að innstæður í útbúum bankanna á Íslandi væru allar tryggðar. Þær yfirlýsingar hefðu ekki haft neitt lagagildi og verið hliðstæðar svipuðum yfirlýsingum ráðamanna í öðrum evrópskum löndum og settar fram í því skyni að róa sparifjáreigendur. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.