Bankahrunið — nýjar heimildir: Miðvikudag 14. jan. kl. 12–13

Dr. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðidósent og dr. Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor verða frummælendur á fundi RNH og Félags stjórnmálafræðinga miðvikudaginn 14. janúar 2015 á Háskólatorgi, stofu HT-101, kl. 12–13. Þeir ræða þar um nýjar heimildir um bankahrunið. Guðni hefur unnið úr hinum leynilegu Wikileaks-skjölum um umsvif bandaríska sendiráðsins á Íslandi og nýlega aflað sér ýmissa trúnaðarskjala úr breskum ráðuneytum með skírskotun til breskra upplýsingalaga. Hann leiðir rök að því í ritgerð í hausthefti tímaritsins Sögu 2014, að þessi skjöl varpi nýju ljósi á ýmislegt, meðal annars Rússalánið svokallaða og á hið fræga Kastljósviðtal við Davíð Oddsson að kvöldi 7. október 2008.

Hannes hefur unnið að rannsóknarverkefni fyrir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands með stuðningi fjármálaráðuneytisins um erlenda áhrifaþætti íslenska bankahrunsins, ekki síst synjun seðlabanka í Bandaríkjunum, Bretlandi og Evrópu við að gera gjaldeyrisskiptasamninga við íslenska seðlabankann, lokun breskra banka í eigu Íslendinga og beitingu hryðjuverkalaganna gegn Íslandi. Hefur hann í því sambandi rætt við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta í bankahruninu, og fleiri ráðamenn í stjórnsýslu og bönkum. Dr. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur, höfundur nýrrar bókar á ensku um bankahrunið íslenska, verður umsegjandi að loknum fyrirlestrum þeirra Guðna og Hannesar, en að því lokna verða frjálsar umræður.

Fundarstjóri verður Eva Heiða Önnudóttir, formaður Félags stjórnmálafræðinga. Fundurinn er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Comments are closed.