Svæðisþing MPS í Lima í mars 2015

Vargas Llosa flytur ávarp á þinginu.

Einn fulltrúi RNH sótti svæðisþing Mont Pelerin samtakanna í Lima í Perú 22.–25. mars 2015, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, en hann hefur verið félagi í samtökunum frá 1984 og skipulagði ásamt prófessor Harold Demsetz svæðisþing þeirra á Íslandi 2005. Þingið í Lima var helgað „frelsi í orði og verki“. Perúski rithöfundurinn Mario Vargas Llosa, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 2010, flutti aðalræðuna við setningu þingsins, en hann er félagi í samtökunum. Kvað hann þá frjálshyggju, sem hann aðhylltist, umfram allt reista á umburðarlyndi og vitund um mannlegan skeikulleika. Forseti samtakanna, prófessor Pedro Schwartz frá Spáni, sagði í ávarpi við setninguna, að stefna ætti að frelsi til tækifæra frekar en jöfnun tækifæra. Á meðal fyrirlesara á þinginu voru prófessor Arnold Harberger frá Bandaríkjunum og prófessor Rolf Lüders frá Síle, sem töluðu báðir um hinn mikla árangur Sílemanna í efnahagsmálum. Margir aðrir víðkunnir andans menn héldu ræður á þinginu. Síleski rithöfundurinn og heimspekingurinn Arturo Fontaine ræddi um horfur í landi sínu og viðhorf og verkefni menntamanna í Rómönsku Ameríku. Flemming Rose, ritstjóri danska dagblaðsins Jyllandsposten, reifaði rökin fyrir prentfrelsi, en hann hefur sætt líflátshótunum öfgamúslima vegna skopteikninga, sem hann birti í blaði sínu. Hannes H. Gissurarson tók þátt í umræðuhópi um auðlindir og eignarrétt á þinginu og útskýrði þar gangverk kvótakerfisins íslenska í fiskveiðum. Þingið var skipulagt með miklum ágætum af perúska lögfræðingnum og rithöfundinum Enrique Ghersi. Næsta þing Mont Pelerin samtakanna verður í Miami í Florida í September 2016.

Comments are closed.