Svíum fórst best við Íslendinga

Hannes heldur erindi sitt. Ljósm. Ann-Kari Edenius.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti erindi á málstofu að morgni fimmtudagsins 9. apríl hjá Ratio-stofnuninni í Stokkhólmi. Var erindið um samskipti Svía og Íslendinga frá öndverðu, en sérstaklega í bankahruninu 2008. Hannes rifjaði upp, að Ísland var í konungssambandi við Svíþjóð, en hvorki Noreg eða Danmörku, árin 1355–1364, í tíð Magnúsar smeks, sem hrakinn hafði verið frá Noregi, en hafði haldið konungstign í Svíþjóð. Þegar Svíþjóð fékk Noreg eftir Napóleonsstríðin í sárabætur fyrir missi Finnlands, höfðu sænskir ráðamenn ekki áhuga á að eignast um leið hin fornu norsku skattlönd í Norður-Atlantshafi, Færeyjar, Ísland og Grænland. Hannes benti á, að fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, Jón Þorláksson, var undir áhrifum frá sænska hagfræðingnum Gustav Cassel. Kvað Hannes sögu norrænnar frjálshyggju um margt ósagða. Velgengni Norðurlanda væri miklu frekar að þakka víðtæku atvinnufrelsi í lok 19. aldar og á öndverðri 20. öld og traustum arfi réttarríkisins en þeirri endurdreifingu tekna, sem jafnaðarmenn hefðu síðan beitt sér fyrir.

Hannes ræddi líka um bankahrunið 2008, þegar Svíar komu miklu betur fram við Íslendinga en aðrar Norðurlandaþjóðir. Sænski seðlabankinn veitti sænskum fyrirtækjum í eigu Íslendinga sömu lausafjárfyrirgreiðslu og öðrum sænskum fyrirtækjum, en norsk og finnsk yfirvöld neyddu hins vegar fyrirtæki í eigu Íslendinga til skyndisölu eigna, sem innlendir kaupsýslumenn hefðu hagnast drjúgum á. Svíar hefðu hins vegar því miður stutt Breta í Icesave-deilunni 2008–2013. Þetta sýndi líklega, að smærri ríki Evrópusambandsins eins og Svíþjóð hefðu ekki verulegt svigrúm til sjálfstæðrar stefnumörkunar. Þau yrðu að fylgja stærri ríkjum sambandsins, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi.

Því mætti halda fram, sagði Hannes, að Svíar hefðu komist að skynsamlegri niðurstöðu 1814, þegar þeir hefðu litið svo á, að Ísland ætti ekki heima með löndum meginlandsins. Þótt Íslendingar ættu að rækta vináttu sína við Svía, Þjóðverja og aðrar þjóðir meginlandsins, ættu þeir aðallega að styrkja sambandið við grannana á Norður-Atlantshafi, Noreg, Stóra-Bretland, Kanada og Bandaríkin. Fyrirlestur Hannesar var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar í Stokkhólmi 2015

Comments are closed.