Eystrasaltsríkin og íslenskir kommúnistar

Hannes flytur erindi sitt í ráðstefnusal eistneska þingsins. Glæran er af „Rúblunni“, húsi Máls og menningar, en Kremlverjar studdu smíði þess rausnarlega.

Dagana 24.–26. apríl 2015 sótti Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, árlega ráðstefnu í Tallinn í Eistlandi um alþjóðamál, og er hún kennd við Lennart Meri, forseta Eistlands 1992–2001. Á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru Toomas H. Ilves, forseti Eistlands, Radek Sikorski, fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands og nú forseti pólska þingsins, Ana de Palacio, fyrrverandi utanríkisráðherra Spánar, Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, sænski rithöfundurinn Anders Aslund og margir ráðherrar frá Eystrasaltsríkjunum. Nokkrir fyrirlesaranna hafa komið til Íslands á vegum RNH eða skyldra samtaka, þar á meðal François Heisbourg og Andrei Ilarionov. Helsta umræðuefnið á ráðstefnunni var ástandið í grannríkjum Rússa, jafnt í Úkraínu og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Að kvöldi 24. apríl sat Hannes kvöldverðarboð Ilves Eistlandsforseta ásamt nokkrum öðrum ráðstefnugestum. Einnig heimsótti Hannes dr. Mart Laar, fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands og núverandi formann bankaráðs eistneska seðlabankans, á heimili hans.

Hannes flutti síðan fyrirlestur um íslensku kommúnistahreyfinguna og Eystrasaltsríkin í eistneska þinginu 29. apríl, og sóttu hann margir eistneskir áhrifamenn, en sagnfræðingurinn og þingmaðurinn dr. Mart Nutt sá um skipulagningu hans. Í fyrirlestrinum rakti Hannes sögu hreyfingar íslenskra kommúnista og sósíalista, allt frá því að Brynjólfur Bjarnason snerist til kommúnisma í götuóeirðum í Kaupmannahöfn haustið 1918 og fram að því að Svavar Gestsson, Margrét Frímannsdóttir og fleiri í forystusveit Alþýðubandalagsins létu það verða sitt síðasta verk, áður en sá flokkur var lagður niður, að fara í boðsferð kúbverska kommúnistaflokksins haustið 1998. Hannes kvað kommúnistaflokkinn, sem starfaði 1930-1938, og Sósíalistaflokkinn, sem bauð síðast fram í þingkosningum í eigin nafni 1953, en starfaði sem stjórnmálaflokkur til 1968, hafa verið holla Kremlverjum, eins og haldið hefði verið fram frá öndverðu og skjöl í Moskvu staðfest. Þessir flokkar þáðu verulegt fé úr sjóðum Kremlverja, enda tókst þeim að koma upp fjórum stórhýsum í Reykjavík og hafa fjölda manns á launum. Þetta hefði breytt miklu í fámennu landi, en á þeirri tíð voru Íslendingar ekki nema rösklega 100 þúsund talsins. Ekki væri til nema eitt dæmi um, að Sósíalistaflokkurinn hefði óhlýðnast Kremlverjum, en það væri, að hann hefði ekki viljað fordæma kommúnistaflokka Júgóslavíu og Albaníu, þegar þessir flokkar féllu úr náðinni í kastalanum í Kreml.

26. ágúst 1991. Frá v.: Davíð Oddsson, Jón B. Hannibalsson, A. Saudargas, Litháen, J. Jurkans, Lettlandi, og Lennart Meri, Eistlandi.

Hannes vék sérstaklega að Eystrasaltsþjóðunum í fyrirlestri sínum. Kona frá Lettlandi, Liba Fridland, hefði flutt fyrirlestra á Íslandi 1923 um rússnesku byltinguna og kúgun kommúnista, en sætt fyrir það árásum íslenskra kommúnista. Flóttamaður frá Litháen, Teodoras Bieliackinas, hefði birt greinaflokk í Morgunblaðinu 1946 um undirokun Eystrasaltslanda, en skriffinnar Þjóðviljans hefðu þá kallað hann „litúvískan fasista“ og hvergi skeytt um, að hann var af gyðingaættum. Fyrsta ritið, sem hið nýstofnaða Almenna bókafélagið hefði gefið út 1955, hefði verið Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir eistneska bókmenntaprófessorinn Ants Oras, en Almenna bókafélagið hefði einmitt verið stofnað til að mynda mótvægi gegn áhrifum kommúnista í íslensku menningarlífi. Forseti Íslands og utanríkisráðherra, Ásgeir Ásgeirsson og Guðmundur Í. Guðmundsson, sem báðir hefðu verið andvígir kommúnisma, hefðu tekið á móti dr. August Rei, forsætisráðherra útlagastjórnar Eistlands, árið 1957 þrátt fyrir mótmæli sendiherra Ráðstjórnarríkjanna. Almenna bókafélagið hefði 1973 gefið út bókina Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Anders Küng. Þýðandi þeirrar bókar hefði verið ungur laganemi, Davíð Oddsson, sem hefði látið það verða eitt sitt fyrsta verk, eftir að hann varð forsætisráðherra 1991, að endurnýja viðurkenningu Íslands á sjálfstæði og fullveldi Eystrasaltsríkjanna, en árin 1940–1991 hefðu Íslendingar eins og flestar aðrar vestrænar þjóðir litið á Eystrasaltslöndin sem hernumin svæði.

Hannes gagnrýndi einnig í erindi sínu hinar köldu kveðjur, sem Eystrasaltsþjóðirnar hefðu fengið í kennslubók í mannkynssögu, Nýjum tímum, sem kom út 2006. Hún var eftir tvo sósíalista, Gunnar Karlsson og Sigurð Ragnarsson, og víða notuð í íslenskum skólum. Þeir segðu (bls. 246): „Árið 1940 voru Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, innlimuð í Sovétríkin.“ Hannes benti á, að þetta ár voru Eystrasaltsríkin þrjú ekki „innlimuð“, heldur hernumin, eins og þau hafa jafnan sjálf haldið fram. Þeir Gunnar og Sigurður segðu (bls. 263): „Í Jalta viðurkenndu Vesturveldin í reynd að Eystrasaltslöndin og austurhluti Póllands yrðu áfram hluti Sovétríkjanna og Austur-Evrópa á sovésku áhrifasvæði.“ Hannes kvað þá ekki skýra út, að Stalín lagði allt aðra merkingu í „áhrifasvæði“ en þeir Roosevelt og Churchill, sem aldrei samþykktu hernám Eystrasaltsríkjanna (viðurkenndu til dæmis aldrei inngöngu þeirra í Ráðstjórnarríkin) og því síður kúgunina þar. Þeir Gunnar og Sigurður segðu síðan um afleiðingarnar af auknu málfrelsi í Rússlandi í tíð Míkhaíls Gorbatsjovs (bls. 292): „Hin opna umræða varð hins vegar til að vekja upp gamla þjóðernishyggju í ýmsum lýðveldum. Sterkust varð þessi þjóðernishreyfing í Eystrasaltsríkjunum þremur, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, en hennar gætti einnig annars staðar. Þar kom að Eystrasaltsríkin lýstu yfir sjálfstæði og úrsögn sinni úr Sovétríkjunum eins og þau höfðu raunar heimild til samkvæmt stjórnarskrá ríkisins. Síðan fetaði hvert lýðveldið á fætur öðru í fótspor þeirra.“ En ekki þurfti að vekja upp neina þjóðerniskennd þessara þjóða að sögn Hannesar. Þær hefðu aldrei sætt sig við hernám Kremlverja. Og fráleitt væri að tala um, að þær hefðu haft raunverulega heimild til að segja sig úr Ráðstjórnarríkjunum, sem þær hefðu síðan nýtt. Þær hefðu aldrei ákveðið að ganga í Ráðstjórnarríkin eða að segja sig úr þeim. Þetta væri söguskoðun Kremlverja, en ekki Eystrasaltsþjóðanna sjálfra. Fyrirlestur Hannesar í eistneska þinginu var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Glærur Hannesar í eistneska þinginu 29. apríl 2015

Comments are closed.