Hannes H. Gissurarson: Kapítalisminn getur verið grænn

Regnskógur. Ljósm. Ivo M. Vermeulen

RNH efndi í samstarfi við Reason Foundation í Bandaríkjunum til málstofu 19. júní 2012 í Rio de Janeiro í Brasilíu í tengslum við alþjóðlegu umhverfisráðstefnuna Rio+20, en hún var haldin í framhaldi af alþjóðlegu umhverfisráðstefnunni í Rio de Janeiro 1992. Á málstofunni töluðu dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og Julian Morris, forstöðumaður rannsókna í Reason Foundation. Hannes Hólmsteinn gerði í ræðu sinni greinarmun á fjórum tegundum umhverfisspjalla, mengun, sóun náttúruauðlinda, útrýmingu sjaldgæfra dýrategunda og raski af mannavöldum á útivistarsvæðum og í óbyggðum. Dæmi um fyrsta vandann væri peningalykt í íslenskum sjávarþorpum, um annan vandann ofveiði á Íslandsmiðum og ofbeit í afréttum, um hinn þriðja hvalveiðar á Norðurslóðum og dráp fíla og nashyrninga í Afríku og um hinn fjórða virkjanir til fjalla og ræktun á landi, sem regnskógar hefðu áður þakið. Lausnin væri oftast að skilgreina skýrar og nánar réttindi einstaklinga og skyldur, til dæmis með eignaréttindum. Umhverfisvernd krefðist umhverfisverndara. Taka yrði umhverfið með í reikninginn. Vitnaði Hannes Hólmsteinn meðal annars í rannsóknir Þráins Eggertssonar prófessors á ofbeit í almenningum og úrlausn hennar, ítölu, og Ragnars Árnasonar prófessors á ofveiði á úthöfum og úrlausn hennar, framseljanlegum aflakvótum.

Julian Morris

Julian Morris talaði um umhverfisvernd í anda atvinnufrelsis, en margir hagfræðingar fylgja þeirri rannsóknaráætlun: Hvernig er unnt að vernda umhverfið og jafnvel bæta það með því að nýta markaðsöflin, einkaeignarrétt og frjálsa verðmyndun? Á meðal gesta á málstofunni var Ronald Bailey, vísindablaðamaður tímaritsins Reason Magazine, en hann sótti upphaflegu umhverfisverndarráðstefnuna í Rio de Janeiro árið 1992.

Erindi Hannesar Hólmsteins var þáttur í rannsóknarverkefninu „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“, sem RNH vinnur að með AECR, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna. Hannes Hólmsteinn hefur einnig umsjón með sameiginlegu rannsóknarverkefni Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Instituto Millenium í Rio de Janeiro undir yfirskriftinni „Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting“. Nokkrir Íslendingar sóttu ráðstefnuna Rio+20, þar á meðal Árni Mathiesen, forstöðumaður fiskveiða- og fiskeldissviðs FAO í Róm, og efndi RNH til móttöku fyrir þá þjóðhátíðardaginn 17. júní 2012, og var þar líka ræðismaður Íslands í Rio de Janeiro, Kaare Ringseth. Var þar skálað fyrir Jóni Sigurðssyni, leiðtoga Íslands í sjálfstæðisbaráttunni.

Glærur Hannesar 19.06.2012

Comments are closed.