„Bankahrunið var angi af alþjóðlegri fjármálakreppu“

Hannes talar við Sirju Rank. Ljósm. Meeli Küttim.

Á meðan dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, forstöðumaður rannsókna RNH, dvaldist í Eistlandi í apríllok 2015, tók Sirja Rank frá eistneska viðskiptablaðinu Äripäev viðtal við hann. Birtist það 1. maí 2015. Rank spurði Hannes, hvort hann fyndi ekki til einhverrar ábyrgðar á bankahruninu, þar eð hann hefði setið í bankaráði Seðlabankans 2001–2009. „Seðlabankinn gat ekkert gert við þeirri kerfisvillu, sem kom í ljós í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu,“ svaraði Hannes. „Hún var, að rekstrarsvæði bankanna var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra. Þegar á hólminn kom, studdi enginn íslensku bankana, á  meðan velflestum eða jafnvel öllum öðrum bönkum í Evrópu var bjargað. Bandaríski seðlabankinn gerði til dæmis mjög háa gjaldeyrisskiptasamninga við Sviss, þar sem bankakerfið var nokkurn veginn jafnstórt hlutfallslega og á Íslandi. Ella hefðu svissnesku bankarnir fallið.“

Hannes var spurður, hvort bankahrunið hefði ekki verið sök frjálshyggjunnar, sem hann hefði beitt sér fyrir. „Síður en svo,“ svaraði hann. „Bankarnir lutu sömu lögum og reglum og bankar annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Hitt er annað mál, að hið góða orðspor, sem landið vann sér árin 1991–2004, olli ef til vill einhverju um það, að bankarnir gátu þanist hratt út. Þeir nutu lánstrausts. En gera þarf greinarmun á markaðskapítalismanum 1991–2004 og klíkukapítalismanum 2004–2008. Fámenn klíka auðjöfra var alráð á Íslandi 2004–2008. Hún átti flesta fjölmiðlana og hafði mikil áhrif á álitsgjafa, blaðamenn og jafnvel dómara. Ég er ekki reiðubúinn að verja allar gerðir þessarar klíku, sem var undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.“

Hannes var spurður, hvort bankahrunið hefði breytt skoðunum hans. „Aðalatriðið er, að bankahrunið var angi af hinni alþjóðlegu fjármálakreppu,“ svaraði hann, „og ein aðalorsök hennar var gáleysi banka, og þetta gáleysi banka var meðal annars vegna þess, að þeir trúðu því, að þeim yrði bjargað, ef þeir lentu í vandræðum, en þeir mættu hins vegar hirða allan gróðann, þegar þeim gengi vel. Sú regla er óskynsamleg. Bankar verða að lúta sömu reglu um ábyrgð og önnur fyrirtæki. Almenningur á ekki að þurfa að bera kostnaðinn af fífldirfsku einstakra bankamanna.“

Hannes var spurður, hvers vegna Ísland hefði jafnað sig svo fljótt. „Vegna þess að landið var ekki gjaldþrota, þótt Gordon Brown segði annað,“ svaraði hann. „Íslendingar eru mjög fáir og deila með sér verulegum auðlindum, gjöfulum fiskistofnum, orkugjöfum, stórbrotnu landi, sem ferðamenn sækjast eftir að heimsækja, og síðast, en ekki síst, miklum mannauði. Við vorum felld með einu hnefahöggi, og við vorum ringluð eftir það, en loks stóðum við á fætur aftur, og eftir það hefur okkur gengið bærilega.“

Comments are closed.