Guðlaugur Þór varaformaður AECR

Frá v.: Guðlaugur Þór, Hannan, Zahradil, Anne Fotyga, Póllandi, Geoffrey Clifton-Brown, Bretlandi, og Zafer Sirakaya, Tyrklandi.

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður var kjörinn einn af varaformönnum AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, á aðalfundi samtakanna í Winchester á Englandi 22. maí 2015. RNH er í samstarfi við AECR um tvö verkefni, Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans og Evrópu fórnarlambanna. Formaður samtakanna er tékkneski Evrópuþingmaðurinn Jan Zahradil frá Borgaralega lýðræðisflokknum ODS, en hann var lengi samstarfsmaður Vaclavs Klaus, fyrrverandi forseta Tékklands. Ritari samtakanna er Íslandsvinurinn Daniel Hannan, Evrópuþingmaður frá Breska íhaldsflokknum. Hannan kom Íslandi til varnar í Lundúnablaðinu The Times, þegar Verkamannaflokksstjórnin breska setti haustið 2008 hryðjuverkalög á íslensk fyrirtæki og stofnanir (þar á meðal Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið). Tveir nýir flokkar gengu í AECR á aðalfundinum, íhaldsflokkur frá Króatíu og umbótaflokkur frá Svartfjallalandi (Montenegro). Skrifuðu þeir undir Reykjavíkuryfirlýsinguna, sem samþykkt var 21. mars 2014.

Á aðalfundinum var meðal annars rætt um möguleikana á fjárfestingum og viðskiptum yfir Atlantsála og um hættur, sem vofa yfir í varnarsamstarfi þjóðanna beggja vegna Atlantshafsins, en AECR leitast við að efla samstarf og vináttu milli ríkja Norður-Ameríku og Evrópu. Forstöðumaður hugveitunnar Heritage Foundation í Washington-borg í Bandaríkjunum, Jim DeMint, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður, sótti fundinn og tók við Edmund Burke-verðlaunum samtakanna. RNH hefur verið í góðum tengslum við Heritage Foundation, sem er ein öflugasta hugveita Bandaríkjanna.

Daniel Hannan var aðalræðumaður á árlegri ráðstefnu Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta, ESFL, í Berlín 10.–12. apríl 2015. Reifaði hann rökin fyrir því, að frjálshyggjufólk ætti að taka afstöðu gegn Evrópusamrunanum. Forstöðumaður rannsókna RNH, Hannes H. Gissurarson prófessor, flutti einnig ræðu á ráðstefnunni. Daniel Hannan heldur úti heimasíðu, þar sem hann birtir greinar sínar og ræður. Hann hefur skrifað bók um stjórnmálaarfleifð Engilsaxa, Frelsið uppgötvað (Inventing Freedom), sem verður umræðuefni á ráðstefnu RNH á Íslandi vorið 2016, en þar verður þessi arfleifð borin saman við hina norrænu, eins og hún birtist í íslenska þjóðveldinu og í norrænni frjálshyggju 19. og 20. aldar. Skömmu eftir að Guðlaugur Þór Þórðarson var kjörinn varaformaður AECR, birti hann ásamt svissneska þingmanninum Thomas Aeschi 10. júlí 2015 grein í Lundúnablaðinu Telegraph um það, að til væri líf utan Evrópusambandsins, eins og Sviss, Ísland og Noregur sýndu vel, en þessi lönd nytu Evrópumarkaðarins án þess að þurfa að bera byrðar Evrópusambandsins.

Comments are closed.