Rögnvaldur: Umhverfisvernd sé skynsamleg

Ljósm. Kristinn Einarsson.

Umhverfisvernd verður að vera skynsamleg, en kröfur um hana hafa oft einkennst af ofstæki og hugsunarleysi, sagði Rögnvaldur Hannesson, prófessor emeritus, í fyrirlestri, sem hann hélt á ráðstefnu félagsvísindasviðs og hagfræðideildar Háskóla Íslands og RNH fimmtudaginn 8. október 1015. Rögnvaldur sagði frá nokkrum helstu atriðunum, sem koma fram í nýlegri bók hans, Umhverfisverndarofstæki (Ecofundamentalism). Þar gerir hann greinarmun á þeirri umhverfisvernd, sem menn ráðast í sjálfra sín vegna og sé skynsamleg, og hinni, sem talin sé nauðsynleg, vegna þess að „Náttúran“ njóti sérstaks réttar gegn mönnunum. Rögnvaldur telur síðari skoðunina trúarlegs eðlis. Hann bendir á, að hrakspárnar í Endimörkum vaxtarins (Limits to Growth), sem kom út í íslenskri þýðingu 1974, hafi ekki ræst; varúðarreglan svokallaða um það, að „Náttúran“ skuli njóta vafans í málum, sé aðeins til þess fallin að koma í veg fyrir tilraunir og með því framfarir; óvíst sé, að  hlýnun jarðar sé óæskileg, enda erfitt að sýna fram á, að núverandi loftslag sé hið besta hugsanlega; jarðefnaeldsneyti (úr olíu eða kolum) sé ódýrt og auðvelt í nýtingu; dregið hafi úr fólksfjölgun síðustu áratugi, jafnframt því sem matvælaframleiðsla hafi stóraukist.

Rögnvaldur Hannesson er einn kunnasti og virtasti hagfræðingur Íslendinga, en hefur alla sína tíð starfað erlendis, lengst af við Viðskiptaháskólann í Björgvin í Noregi. Hann hefur birt hátt í hundrað ritgerðir í fræðitímaritum og sex bækur. Bengt Kriström, prófessor í auðlindahagfræði í Umeå-háskóla í Svíþjóð, og Julian Morris, forstöðumaður rannsókna í Reason-stofnuninni í Bandaríkjunum, brugðust við erindi Rögnvalds. Dr. Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs, kynnti Rögnvald í upphafi ráðstefnunnar, en Tór Einarsson prófessor stjórnaði ráðstefnunni. Gerðu áheyrendur, sem voru um sjötíu, góðan róm að máli fyrirlesara. Í hópi þeirra voru ýmis skólasystkin Rögnvalds frá Menntaskólanum á Akureyri. Sama dag og ráðstefnan var haldin, birti Hannes H. Gissurarson prófessor grein í Morgunblaðinu, þar sem hann lýsti nokkrum helstu efnisatriðunum í bók Rögnvalds. Kvað hann Rögnvald taka svipaða afstöðu í umhverfismálum og Bjørn Lomborg í bókinni Hið sanna ástand heimsins, sem kom út á íslensku 2000, og Matt Ridley í bókinni Heimur batnandi fer, sem kom út á íslensku 2014. Um kvöldið hafði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra boð inni fyrir Rögnvald og nokkra aðra gesti. Þátttaka RNH í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni með AECR, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.