Safn til sögu kommúnismans

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, sækir ársþing Evrópuvettvangs minningar og samvisku, European Platform of Memory and Conscience, sem haldið er í Wroclaw í Póllandi 17.–19. nóvember 2015. Þar skýrir hann frá samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“ og segir frá nýrri ritröð, sem RNH stendur að ásamt Almenna bókafélaginu, Safni til sögu kommúnismans. Þar eru rit, sem komu út í baráttu íslenskra lýðræðissinna við alræðissinna, endurútgefin á Netinu (jafnt í Google Books og Kindle) og í takmörkuðu upplagi á pappír. Tilgangurinn með endurútgáfunni er að gera þessi rit aðgengileg ungu fólki, sem þarf að skrifa ritgerðir eða leysa verkefni í skóla, og áhugafólki um sögu tuttugustu aldar, ekki síst Kalda stríðsins, þegar lýðræði og alræði laust saman.

Fyrsta ritið í röðinni kom út 17. júní 2015, þegar sextíu ár voru frá stofnun Almenna bókafélagsins. Það var Greinar um kommúnisma eftir hinn kunna breska heimspeking Bertrand Russell, sem hlaut einnig Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, en þessar greinar birtust í íslenskum blöðum árin 1937–1956. Ritið er með formála og skýringum eftir Hannes H. Gissurarson.

Annað ritið í röðinni kom út 19. júní 2015, þegar hundrað ár voru liðin frá því, að konur fengu kosningarrétt á Íslandi. Það var Konur í þrælakistum Stalíns og hefur að geyma minningar tveggja kvenna, sem voru saklausar sendar í vinnubúðir Stalíns, en útdráttur úr minningum þeirra birtust í íslenskum blöðum 1951, 1953 og 1975. Þær voru Elinor Lipper frá Sviss og Aino Kuusinen frá Finnlandi. Ritið er með formála og skýringum eftir Hannes H. Gissurarson.

Þriðja ritið í röðinni kom út 23. ágúst, sem Evrópuþingið hefur valið minningardaga fórnarlamba alræðisstefnunnar. Það er Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, öðru nafni Richard Krebs, sem hafði verið flugumaður Gestapo, en um leið gagnnjósnari Kominterns, Alþjóðasambands kommúnista. Þessi læsilega og reyfarakennda sjálfsævisaga varð metsölubók í Bandaríkjunum 1941. Þegar Menningar- og fræðslusamband alþýðu gaf fyrri hlutann út sumarið 1941, hófu íslenskir kommúnistar mikla herferð gegn bókinni svo að seinni hlutinn kom ekki út fyrr en 1944 og þá á vegum „Nokkurra félaga“. Þeir Halldór K. Laxness og Benjamín H. J. Eiríksson háðu snarpa ritdeilu um bókina og boðskap hennar. Ritið er með formála og skýringum eftir Hannes H. Gissurarson.

Hannes H. Gissurarson er ritstjóri ritraðarinnar. Sigurgeir Orri Sigurgeirsson hannar kápur, Kristinn Ingi Jónsson les prófarkir, Friðbjörn Orri Ketilsson annast skönnun bóka, og Hafsteinn Árnason sér um netútgáfu bókanna. Sérstök áhersla verður líka lögð á að heiðra minningu þeirra Íslendinga, sem beittu sér í baráttunni við alræðisstefnurnar, til dæmis þeirra Lárusar Jóhannessonar, Geirs Hallgrímssonar og Eyjólfs Konráðs Jónssonar.

Árið 2016 er fyrirhugað, að út komi: 1) Leyniræða Khrústsjovs um Stalín, 24. febrúar, sextíu árum eftir að hún var flutt, en hún var eitthvert mesta áfall, sem íslenskir kommúnistar höfðu orðið fyrir; 2) El campesino: Líf og dauði í Ráðstjórnarríkjunum eftir Valentín Gonzalez og Julián Gorkin, 17. júlí, þegar áttatíu ár eru frá upphafi spænska borgarastríðsins, en höfundur barðist þar og flúði til Rússlands; 3) og 4) Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Anders Küng, 26. ágúst, þegar tuttugu og fimm ár verða frá því, að Ísland viðurkenndi Eystrasaltsríkin, en Davíð Oddsson hafði þýtt bókina um Eistland 1973, þegar hann var laganemi; 5) Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti, 25. desember, þegar aldarfjórðungur verður liðinn frá endalokum Ráðstjórnarríkjanna. Í nokkrum tilvikum verða viðburðir, svo sem fyrirlestrar eða ráðstefnur, tengdir endurútgáfu bókanna.

Á meðal annarra bóka í ritröðinni verða Svartbók kommúnismans, sem Stéphane Courtois ritstýrði, Þjóðbyltingin í Ungverjalandi eftir Erik Rostbøll, greinar séra Jóhanns Hannessonar um byltinguna í Kína 1949, ræður íslenskra menntamanna (Tómasar Guðmundssonar, Gunnars Gunnarssonar, Guðmundar G. Hagalíns, Kristmanns Guðmundssonar og fleiri) gegn kommúnisma, greinar Max Eastmans um kommúnismann, Myrkur um miðjan dag eftir Arthur Koestler, Guðinn sem brást eftir Arthur Koestler, André Gide og fleiri, Trúin á ráðstjórnina eftir Arthur Koestler (en hún varð mjög umdeild í baráttunni fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík 1946), Nítján hundruð áttatíu og fjórir eftir George Orwell, Konur í einræðisklóm eftir Margarete Buber-Neumann, Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko og Hin nýja stétt eftir Milovan Djilas. Einhver þessara rita verða gefin út 7. nóvember 2017, þegar hundrað ár verða liðin frá bolsévíkabyltingunni í Rússlandi.

Glærur Hannesar í Wroclaw

Comments are closed.