Höfuðóvinur Pútíns flytur erindi

Bandaríski fjárfestirinn og rithöfundurinn Bill Browder flytur erindi í hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 20. nóvember 2015 kl. 12–13 á vegum RNH, Almenna bókafélagsins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Erindið nefnist „Rússland Pútíns“. Bók Browders, Eftirlýstur (Red Notice), er nýkomin út á íslensku, en þar lýsir hann ævintýralegu lífi sínu og uppgjörinu við Pútín. Browder er sonarsonur Earls Browders, sem var formaður kommúnistaflokks Bandaríkjanna, en snerist gegn vinstri stefnu fjölskyldunnar og nam fjármálafræði í Stanford-háskóla. Hann var einn auðsælasti fjárfestirinn í Rússlandi eftir hrun kommúnismans, og gekk þá á ýmsu. Hann studdi um skeið baráttu Pútíns gegn ólígörkunum, en síðan snerist Pútín gegn honum. Þegar rússneskur lögfræðingur Browders var handtekinn, pyndaður og myrtur, hét hann því að minnast hans með því að setja alla þá, sem að ódæðinu stóðu, á svartan lista í Bandaríkjunum og um heim allan. Browder tókst að fá Bandaríkjaþing til að setja sérstök lög um þetta, sem kennd eru við lögfræðinginn, Sergej Magnítskíj-lögin. Pútín telur Browder vera höfuðandstæðing sinn. Bók Browders kemur út á 22 tungumálum, en hún dregur nafn sitt af því, að rússnesk stjórnvöld fengu Alþjóðalögregluna Interpol til þess um skeið að lýsa eftir Browder vegna skattamála í Rússlandi, en Interpol hvarf strax frá því, er í ljós kom, að ákærurnar á hendur Browders voru tilhæfulausar. Fundurinn með Browder er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, er fundarstjóri, og ef tími leyfir, er gert ráð fyrir fyrirspurnum og umræðum. Hér er ræða, sem Browder flutti nýlega í Aspen Institute um það, hvernig hann varð sá maður, sem Pútín telur höfuðandstæðing sinn:

Comments are closed.