Mesta áfall íslenskra kommúnista: Febrúar 1956

Íslenskir stalínistar urðu fyrir einhverju mesta áfalli í sögu sinni, þegar fréttist um ræðu, sem Níkíta Khrústsjov, aðalritari kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, hélt á lokuðum fundi í Kreml aðfaranótt 25. febrúar 1956. Þar viðurkenndi hann margvísleg ódæði Stalíns. Hann hefði látið handtaka fólk og pynda til tilhæfulausra játninga, brugðist hrapallega í innrás Þjóðverja 22. júní 1941 og flutt heilu þjóðflokkana nauðungarflutningum um öll Ráðstjórnarríkin. Ræðan vakti athygli um allan heim, ekki síst hér á Íslandi, þar sem hafði starfað vel skipulagður kommúnistaflokkur og síðar Sósíalistaflokkur allt frá 1930. Mynduðu stalínistar, Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson, valdakjarnann í honum, en rithöfundarnir Halldór Kiljan Laxness, Jóhannes úr Kötlum og Þórbergur Þórðarson vörðu Stalín af mikilli mælsku. Ortu Laxness og Jóhannes jafnvel lofkvæði um Stalín. Sósíalistaflokkurinn fór alla tíð dyggilega eftir línunni frá Moskvu og þáði þaðan stórfé til starfsemi sinnar, eins og skjöl í Moskvu áttu eftir að sýna.

Almenna bókafélagið gaf 25. febrúar 2016 út leyniræðu Khrústsjovs með formála og skýringar aftanmáls eftir dr. Hannes H. Gissurarson prófessor og Inngangi eftir Áka Jakobsson, sem hafði verið eindreginn kommúnisti og ráðherra fyrir Sósíalistaflokkinn í Nýsköpunarstjórninni 1944–1947, en síðan skipt um skoðun. Stefán Pjetursson skjalavörður þýddi ræðuna. Hann hafði líka verið eindreginn kommúnisti, en leyft sér að gera athugasemdir við ýmsar fyrirskipanir frá Moskvu. Þá var hann sendur þangað í þjálfun, en hélt áfram að vera óþægur. Átti þá að senda hann í vinnubúðir, en hann slapp naumlega með aðstoð danska sendiráðsins í Moskvu úr landi og gerðist ötull andstæðingur kommúnista. Var hann lengi ritstjóri Alþýðublaðsins. Í bókarlok er einnig svokölluð Erfðaskrá Leníns, sem íslenskir stalínistar sögðu falsaða, en Khrústsjov lét birta í fyrsta skipti 1956. Varaði Lenín þar við Stalín. Þýðinguna gerði Franz Gíslason. Þessi bók er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna: Minninguna um kommúnismann“. Hún er í ritröðinni „Safn til sögu kommúnismans“ og kom út í senn á Netinu, þar sem hún er aðgengileg ókeypis, og á pappír.  Útkoma bókarinnar vakti verulega athygli, eins og þessi frétt í Morgunblaðinu 25. febrúar 2016 sýnir:

Comments are closed.