Tvær úthlutunarreglur: Aflareynsla eða uppboð?

RNH stendur ásamt öðrum að ráðstefnu í fundarsal Þjóðminjasafnsins mánudaginn 29. ágúst kl. 14 til 17 um efni, sem mjög er rætt um á Íslandi þessa dagana: Tvær ólíkar leiðir til að úthluta aflaheimildum, aflareynslu (og síðan frjálsum viðskiptum með aflaheimildirnar) annars vegar og uppboði á vegum ríkisins hins vegar. Gary Libecap, prófessor í hagfræði í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, flytur fyrirlestur um „Úthlutun aflaheimilda“. Þar leitast hann við að svara þeirri spurningu, hvers konar fyrirkomulag fiskveiða sé þjóðhagslega hagkvæmast, þegar til langs tíma sé litið. Hann ber saman úthlutun eftir aflareynslu (grandfathering), sem hefur verið langalgengasta aðferðin, og úthlutun á reglubundnu opinberu uppboði, sem talsvert hefur verið rætt um á Íslandi og fáeinar tilraunir hafa verið gerðar með annars staðar. Í því sambandi ræðir hann líka um reynsluna af nýtingu annarra auðlinda en fiskistofna, til dæmis olíulinda og bújarða. Libecap er einn þekktasti auðlindahagfræðingur heims og hefur gefið út fjölda bóka um auðlindanýtingu og birt ritgerðir í American Economic Review, Journal of Political Economy og öðrum vísindatímaritum. Hann hefur verið forseti Economic History Association, Western Economics Association International og International Society for the New Institutional Economics.

Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði í Háskóla Íslands, flytur fyrirlestur um „Skattlagningu sjávarútvegs og skilvirkni“. Hann andmælir þremur villum, sem oft eru á kreiki í umræðum um fiskveiðimál: 1) að auðlindarentan þar fáist aðeins af auðlindinni einni saman, en sé ekki sköpuð að neinu leyti af útgerðarfyrirtækjunum; 2) að handhafar aflaheimilda njóti einir auðlindarentunnar í sjávarútvegi; og 3) að auðlindaskattur, hvort sem hann sé innheimtur beint eða á reglubundnum opinberum uppboðum á aflaheimildum, hafi engin áhrif á stærð auðlindarentunnar. Ragnar hefur birt fjölda bóka og ritgerða um auðlindahagfræði og hefur sinnt sérfræðilegri ráðgjöf um víða veröld á sviði fiskveiðimála fyrir Alþjóðabankann og aðrar alþjóðastofnanir.

Að loknum fyrirlestrunum verða pallborðsumræður, sem dr. Birgir Þór Runólfsson, dósent í hagfræði, stjórnar. Í þeim taka þátt fjórir menn: Dr. Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunar og fyrrverandi alþingismaður, hefur sinnt stefnumörkun og rannsóknum á sviði sjávarútvegs. Helgi Áss Grétarsson, dósent í lögfræði, hefur að sérgrein auðlindarétt og hefur birt fjölda bóka og ritgerða um fiskveiðimál, meðal annars Þjóðina og kvótann hjá Bókaútgáfunni Codex 2011. Charles Plott, prófessor í California Institute of Technology, er heimskunnur hagfræðingur, sérfræðingur í tilraunahagfræði og hefur sérstaklega skoðað ýmiss konar uppboð. Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur skrifað um siðferðileg sjónarmið við úthlutun afnotaréttinda af auðlindum, síðast í bókinni The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni í árslok 2015 og er líka aðgengileg á Netinu. Þátttaka RNH í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.