Frelsisneistinn varð að báli

Davíð flytur ávarp sitt.

Helsta hlutverk Íslands og annarra vestrænna lýðræðisríkja gagnvart Eystrasaltsríkjunum, á meðan þau voru hernumin af rússnesku ráðstjórninni, var að reyna að hlúa að þeim neista frelsisins, sem síðan blossaði sem betur fer upp, sagði Davíð Oddsson ritstjóri á samkomu, sem Almenna bókafélagið hélt í Háskóla Íslands ásamt ræðismönnum Eystrasaltsríkjanna 26. ágúst 2016. Þá var réttur aldarfjórðungur liðinn frá því, að Ísland tók fyrst ríkja aftur upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin, þegar Ráðstjórnarríkin voru að gliðna í sundur. Davíð var þá forsætisráðherra. Almenna bókafélagið hafði af þessu tilefni endurútgefið tvær bækur, sem komu út á sínum tíma um frelsisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum 1955 eftir eistneska bókmenntafræðiprófessorinn Ants Oras, sem séra Sigurður Einarsson í Holti snaraði, og Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds 1973 eftir eistnesk-sænska rithöfundinn Andres Küng, en Davíð Oddsson þýddi hana, þá ungur laganemi. Prófessor Hannes H. Gissurarson skrifar formála og skýringar að báðum bókunum, sem einnig eru aðgengilegar á Netinu.

Kelam talar við blaðamann Morgunblaðsins, Stefán Gunnar Sveinsson.

Tunne Kelam, einn af leiðtogum frelsisbaráttu Eistlands og þingmaður á Evrópuþinginu, flutti einnig ávarp á samkomunni. Hann kvað siðferðilegan stuðning Vesturveldanna hafa verið Eystrasaltsþjóðunum ómetanlegan hinn langa hernámstíma. Óhjákvæmilegt væri líka að gera upp hina dapurlegu sögu Ráðstjórnarríkjanna. Húsfyllir var á samkomunni, og gerðu gestir góðan róm að. Morgunblaðið sagði frá samkomunni 27. ágúst og birti viðtal við Kelam 15. september. Þar rifjaði hann upp, að þeir Hitler og Stalín sömdu um það í griðasáttmála sínum í ágúst 1939, að Eystrasaltslöndin og austurhluti Póllands féllu Stalín í skaut, en Hitler fengi vesturhluta Póllands. Þegar Hitler réðst síðan inn í Pólland í septemberbyrjun, skall seinni heimsstyrjöld á. Kelam kvað Rússa undir stjórn Pútíns nú vera ágenga, og yrðu Vesturveldin yrðu að standa saman um að tryggja sjálfsákvörðunarrétt Eystrasaltsþjóðanna, sem ættu heima með öðrum vestrænum þjóðum.

AB hefur í samstarfi við RNH þegar endurútgefið sjö rit, jafnt á pappír og á Netinu, sem komu út á íslensku í baráttunni við alræðisöflin, auk bókanna tveggja um Eystrasaltsþjóðirnar Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin (öðru nafni Richard Krebs), Leyniræðuna um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov og Bóndann eftir Valentín González og Julián Gorkin. RNH er aðili að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, þar sem leitast er við að halda uppi minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar í Evrópu, en Kelam hefur tekið mikinn þátt í starfsemi vettvangsins. Þátttaka RNH í samkomunni og útgáfu bókanna gegn alræðisöflunum var liður í samstarfsverkefni við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri AB, sýnir Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis, nokkrar útgáfubækur AB.

Comments are closed.