Frjálshyggja, trú og trúleysi

Yaron Brook í ræðustól. Frá v. á palli sitja faðir Sirico, dr. Gregg og Hannes.

Frjálshyggjumenn geta verið hvort tveggja, trúaðir og trúlausir, sagði prófessor Hannes H. Gissurarson á málstofu um siðferðilegar forsendur frjálshyggjunnar á þingi Mont Pèlerin-samtakanna í Miami 18.–23. september 2016. Hann var umsegjandi (commentator), en erindi fluttu dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar, sem taldi alla skynsama menn hljóta að vera trúlausa, og dr. Samuel Gregg frá Acton-stofnuninni, sem taldi frjálshyggju fara vel saman við kristna trú. Faðir Robert Sirico stjórnaði málstofunni.

Stofnandi MPS, F. A. Hayek

Hannes benti á, að sumar menningarheildir hefðu búið við tiltölulega fastmótað siðferði án þess að vera trúaðar, til dæmis Rómverjar hinir fornu og Japanir. Ekki mætti þó gleyma hinu, að kristnir söfnuðir og hópar hefðu á tuttugustu öld verið nánast eina aflið til að veita alræðisherrunum í Norðurálfunni mótspyrnu. Kristinn siður gerði ráð fyrir því, að allir væru settir undir lögmál, líka valdsmennirnir. Hann næði til allra, ríkra og fátækra, karla og kvenna, hvítra og svartra. Alræðisstefnan væri á hinn bóginn skynsemistrú, sem komin væri út í öfgar. Hún væri tilraun dauðlegra manna til að leika guði. Ólíkt ýmsum öðrum trúflokkum teldu kristnir menn, að gjalda ætti keisaranum það, sem keisarans væri, en Guði það, sem Guðs væri. Kristni fæli með öðrum orðum í sér aðskilnað andlegs og veraldlegs valds. Kristur hefði ekki verið hermaður, sem sveiflað hefði sverði af hestbaki, eins og Múhameð. Boðorðin tíu hefðu (þrátt fyrir nafnið) verið bönn frekar en boð og fallið betur að hugmyndum frjálslyndra manna um reglur en bein fyrirmæli.

Hannes varpaði fram eigin skilningi eða skýringum á tveimur kristilegum dæmisögum. Hann benti á, að frásögnin um miskunnsama Samverjann væri um það, 1) að hættur væru af stigamönnum í fjöllunum, svo að löggæsla væri nauðsynleg, 2) að presturinn og levítinn gengu fram hjá særða manninum, og væri það ádeila á menntamenn með hart hjarta, 3) að Samverjinn hefði verið aflögufær, og 4) að hann hefði gert góðverk sitt á eigin kostnað, ekki annarra. Kvað Hannes ellefta boðorðið eiga að vera: Þú skalt ekki gera góðverk þín á kostnað annarra. Þegar Jóhannes skírari hefði sagt, að sá, sem ætti tvo kyrtla, ætti að gefa náunga sínum annan, hefði hann ekki verið að mæla með valdboðinni endurdreifingu tekna, heldur benda á þann vanda, sem hlytist af fátækt. Þann vanda mætti leysa til langs tíma með því að auðvelda fólki að sauma sér kyrtla, fjölga tækifærum. Aðalatriðið væri saumastofa í fullum gangi.

Hannes sagði, að Ayn Rand verið merkur hugsuður, þótt hann tæki ekki undir fjandskap hennar við kristna trú. Greinarmunur hennar á sköpun og sníkjulífi væri enn í fullu gildi. Auðmenn ættu ekki að skammast sín fyrir auð sinn, væri hann vel fenginn, heldur vera stoltir af honum. Stolt þyrfti ekki að vera hroki. Framkvæmdamenn og fjármagnseigendur hefðu nauðsynlegu hlutverki að gegna í gróandi atvinnulífi. Jafnt trúaðir menn og trúleysingjar ættu erindi í Mont Pèlerin-samtökin. Þátttaka Hannesar í þinginu var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans.“

Sir Roger Douglas og Hannes.

Á meðal fyrirlesara á þingi samtakanna voru sagnfræðingurinn Niall Ferguson frá Bretlandi, félagsfræðingurinn Charles Murray frá Bandaríkjunum, hagfræðingurinn José Piñera frá Síle og þrír kunnir bandarískir hagfræðingar, Nóbelsverðlaunahafinn Edward C. Prescott, John Taylor og Diana Furchgott-Roth. Prófessor Pedro Schwartz frá Spáni vék sem forseti samtakanna fyrir prófessor Peter Boettke frá Bandaríkjunum. Þingið var fjölsótt og fundarmenn hinir ánægðustu. Næstu þing samtakanna verða í Seoul 7.–10. maí 2017 og á Gran Canaria 30. september–6. október 2018. Eftir þingið sótti Hannes frelsismót Atlas Network, Liberty Forum, 24.–25. september í Miami. Atlas Network eru regnhlífarsamtök rannsóknarstofnana, sem leita sjálfsprottinna lausna á málum í stað valdboðinna, vilja verðleggja í stað þess að skattleggja. Þau Sir Roger Douglas, fjármálaráðherra Nýja Sjálands 1984–1988, og Ruth Richardson, fjármálaráðherra 1990–1993, lýstu þar hinum róttæku efnahagsumbótum í landi sínu. Bandaríski sjónvarpsmaðurinn John Stossel stjórnaði umræður um, hvernig kynna mætti frelsið á fleiri miðlum en bókinni, til dæmis í sögum og myndum. Linda Whetstone frá Bretlandi tók á þinginu við stjórnarformennsku Atlas Network af Daniel Grossman frá Bandaríkjunum. Linda er dóttir stofnanda Atlas Network, Sir Antonys Fishers.

Comments are closed.