Aldarfjórðungur frá viðurkenningu Slóveníu

Zver flytur erindi sitt 2013. Fundarstjóri er Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. Ljósm.: Ólafur Engilbertsson.

Ísland varð 19. desember 1991 fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna Slóveníu, sem lýst hafði yfir sjálfstæði sínu og sagt sig úr Júgóslavíu 25. júní það ár. Áður höfðu Úkraína og Litáen viðurkennt hið nýja ríki. Af því tilefni birti rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, grein í Morgunblaðinu, þar sem hann ræddi um smáríki og þjóðríki. Tók hann undir skilgreiningu Ernests Renans á þjóð, að hún væri heild, sem vildi vera saman þjóð, og falla þá Íslendingar og Slóvenar hvorir tveggja undir skilgreininguna. Benti hann einnig á, að samrunaþróun á mörkuðum auðveldaði stofnun smáríkja, því að þau gætu nýtt sér kosti alþjóðlegrar verkaskiptingar og viðskipta. Því stærri sem einingarnar væru í viðskiptum, því smærri gætu þær orðið í stjórnmálum. Stór markaður og lítið ríki væru því ekki andstæður, heldur hliðstæður.

Slóvenski sagnfræðingurinn Dr. Andreja Zver hélt fyrirlestur á Íslandi 16. september 2013 um reynslu Slóvena af alræðisstefnunni, en um skeið stjórnuðu landinu á víxl fasistar, nasistar og kommúnistar. Eru enn að finnast fjöldagrafir í landinu frá þeim tíma. Zver er gift einum kunnasta stjórnmálamanni Slóveníu, Milan Zver, fyrrverandi menntamálaráðherra, sem situr á Evrópuþinginu. Grein Hannesar er liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments are closed.