Þjónusta, þrælkun, flótti

Aatami Kuortti

Hinn 25. desember 2016 var réttur aldarfjórðungur liðinn frá því, að Ráðstjórnarríkin geispuðu golunni. Þann dag vék Míkhaíl Gorbatsjov úr stöðu sinni, og daginn eftir var hinn rauði fáni með hamar og sigð í horni dreginn í síðasta sinn niður í Kremlkastala. Af því tilefni endurútgaf Almenna bókafélagið nú merka heimild um Ráðstjórnarríkin sálugu, bókina Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti. Hún kom fyrst út á vegum Kristilegs bókmenntafélags haustið 1938 í þýðingu séra Gunnars Jóhannessonar. Höfundur var prestur, finnskumælandi Ingríumaður, en Ingría eða Ingermanland er svæðið við Kirjálabotn milli Finnlands og Eistlands. Þjónaði séra Aatami þremur lúterskum söfnuðum í Ingríu 1927-1930. Hann var handtekinn fyrir að neita að veita leynilögreglu ráðstjórnarinnar upplýsingar um sóknarbörn sín og sendur í tíu ára þrælkunarvinnu í Kirjálalandi, Karelíu.

Eftir nokkurra mánaða vist í vinnubúðum tókst Kuortti að flýja, og gekk hann dag og nótt í átt til Finnlands, var tekinn höndum einu sinnum en slapp úr klóm leynilögreglunnar, og eftir tólf sólarhringa ferð um skóga og vötn Kirjálalands komst hann til Finnlands. Þar setti hann saman lýsingu á lífinu undir ráðstjórn, fangavist sinni og flótta í einföldu og látlausu máli og því áhrifamiklu. Kom bók hans út á finnsku 1934, sænsku 1935, dönsku 1937 og hollensku 1940. Hún var fyrsta bókin á íslensku eftir fanga í þrælkunarbúðum ráðstjórnarinnar, Gúlaginu. Svo vill til, að haustið 1938 komu út í Reykjavík tvær bækur um Ráðstjórnarríkin, bók Kuorttis og Gerska æfintýrið eftir Halldór Kiljan Laxness. Höfundarnir voru nálægt því að vera samtímamenn. Kuortti fæddist 1903, ári á eftir Laxness, og lést 1997, ári á undan skáldinu. Er fróðlegt að bera bækurnar tvær og efnistök höfunda saman í ljósi reynslunnar.

Bók Kuorttis er hin áttunda í röð endurútgefinna verka um alræðisstefnuna, en sú ritröð er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Samtaka íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um „Evrópu fórnarlambanna“. Áður hafa komið út Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum eftir Jan Valtin (Richard Krebs), Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov (ásamt Erfðaskrá Leníns), El campesino — Bóndinn eftir Valentín González og Julián Gorkin, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng. Dr. Hannes H. Gissurarson prófessor skrifar formála og skýringar aftanmáls í allar bækurnar.

Comments are closed.