Til varnar íslenskum jafnaðarmönnum

eftir Hannes H. Gissurarson

[Grein í tímaritinu Herðubreið 3 (2) 2012.]

Einar Olgeirsson: Aðeins herbragð

Sumarið 2012 hefði leiðtogum gamla kommúnistaflokksins verið skemmt, hefðu þeir getað lesið nýjustu hefti Tímarits Máls og menningar annars vegar og Herðubreiðar hins vegar. Þar eru langar greinar um bók mína, Íslenska kommúnista 1918–1998. Höfundar, Árni Björnsson þjóðháttafræðingur og Pétur Tyrfingsson sálfræðingur, taka báðir eindregna afstöðu með gömlu kommúnistunum í deilunum við jafnaðarmenn innan vinstri hreyfingarinnar íslensku á tuttugustu öld. Þessar deilur hófust eftir valdarán bolsévíka í Rússlandi haustið 1917. Þær snerust um það, hvort róttækir Íslendingar ættu að virða lýðræði, eins og jafnaðarmenn töldu, eða beita ofbeldi, þegar þess þyrfti með, eins og kommúnistar vildu. Báðir hópar störfuðu innan Alþýðuflokksins til 1930, en þá klufu kommúnistar flokkinn samkvæmt fyrirmælum frá Moskvu.

Ýmsir úr róttækari armi þess Alþýðuflokks, sem eftir varð, gengu síðan 1938 til samstarfs við kommúnista ólíkt skoðanasystkinum annars staðar í Norðurálfunni. Forystumenn þessa arms komust þó fljótlega að því, að kommúnistarnir höfðu við stofnun Sósíalistaflokksins aðeins skipt um nafn, ekki skoðun, enda hafði einn kommúnistinn, Einar Olgeirsson, sagt við ungan samherja í ársbyrjun 1937 (eins og minnst er á í bók minni): „Við leggjum kommúnistaflokkinn aldrei niður öðru vísi en sem herbragð.“ Kommúnistarnir í Sósíalistaflokknum harðneituðu að taka afstöðu gegn Ráðstjórnarríkjunum, eftir að Stalín gerði í ágúst 1939 griðasáttmála við Hitler, lagði undir sig austurhluta Póllands og réðst á Finnland. Lauk átökum innan Sósíalistaflokksins með klofningi hans og fullum sigri kommúnista. Frá 1942 var flokkur þeirra löngum stærri en Alþýðuflokkurinn.

Bók handa jafnaðarmönnum

Stefán Jóhann Stefánsson. Studdi lýðræði

Ósviknir jafnaðarmenn hljóta á hinn bóginn að fagna bók minni, því að þar birtast fjölmargar heimildir, sem staðfesta málflutning þeirra, allt frá því að kommúnistar hófu klofningsstarfsemi í Alþýðuflokknum upp úr 1920 og þangað til Alþýðuflokkurinn bauð síðast fram 1995. Eins og íslenskir jafnaðarmenn höfðu fullyrt, reyndust tengsl íslenskra kommúnista við ráðstjórnina í Moskvu miklu meiri og nánari en gengist var við opinberlega. Þeir tóku ekki aðeins við fyrirmælum, heldur líka ríflegum fjárstyrkjum frá Moskvu, Sósíalistaflokkurinn jafnt og kommúnistaflokkurinn. Nokkrir erindrekar Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, komu til Íslands árin 1924–1932 í því skyni að leggja á ráðin um klofning Alþýðuflokksins og baráttu gegn honum, og hátt í þrjátíu íslenskir kommúnistar hlutu byltingarþjálfun í leyniskólum í Moskvu, þar sem ekki voru aðeins kennd marxísk fræði, heldur líka undirróður, hernaðarlist og vopnaburður. Eftir stríð voru leiðtogar Sósíalistaflokksins tíðir gestir í Moskvu og höfuðborgum annarra kommúnistaríkja og fylgdu í utanríkismálum línunni frá Moskvu í öllum aðalatriðum.

Stefán Pjetursson var í lífshættu í Moskvu, því að hann beygði sig ekki undir aga Kominterns.

Stefán Pjetursson, sem hafði verið kommúnisti og lent í lífshættu í Moskvu 1934–1935 sökum óhlýðni við Kremlverja, var ritstjóri Alþýðublaðsins 1938–1952 og varaði hvað eftir annað við kommúnistum. Guðmundur G. Hagalín, rithöfundur og einn af leiðtogum Alþýðuflokksins um árabil, skrifaði gegn ofstæki kommúnista í bókinni Gróðri og sandfoki 1942. Stefán Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins og forsætisráðherra, var einbeittur andstæðingur kommúnista. Í greinunum í Tímariti Máls og menningar og Herðubreið er sjónarmiðum Stefánanna og Hagalíns enginn skilningur sýndur.

Engu er líkara en sögulegar rætur íslenskra vinstri manna liggi nú frekar í kommúnistaflokknum en Alþýðuflokknum. Kalda stríðið sé enn óútkljáð og illvirki bræðraflokka íslenskra kommúnista óupplýst. Innan vinstri hreyfingarinnar hafi Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson sigrað í átökunum við Stefán Pjetursson, Guðmund G. Hagalín og Stefán Jóhann Stefánsson. Í því ljósi kemur ekki á óvart, að allir ráðherrar vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur koma úr Alþýðubandalaginu nema forsætisráðherrann sjálfur. Og því síður þarf þá að furða sig á greinunum tveimur gegn bók minni. Höfundarnir eru sammála um, að í bók mína vanti „samfélagslegt samtíðarsamhengi og alþjóðapólitískan ramma“, eins og Pétur Tyrfingsson orðar það, eða „samfélagslegan skilning“, eins og Árni Björnsson segir. Hvað er átt við? Að stuðningur íslenskra kommúnista við kúgarana í kommúnistaríkjunum sé afsakaður með því, að þeir hafi sagst berjast fyrir bættum kjörum alþýðu heima fyrir? Að rekja eigi söguna frá sjónarmiði böðlanna í valdastólum, ekki fórnarlambanna í fjöldagröfum og fangabúðum KGB og Stasi?

Jafnmiklir kommúnistar og annars staðar

Svavar Gestsson: Nám í Austur-Berlín

Helsta rannsóknarspurningin í bók minni var, að hve miklu leyti íslenskir kommúnistar gætu talist eiginlegir kommúnistar. Niðurstaðan var sú, sem búast mátti við: Þeir voru jafnmiklir kommúnistar og annars staðar. Þeir studdu ofbeldi samherja sinna í valdastólum kommúnistaríkjanna og beittu sjálfir ofbeldi, þegar þeir þurftu þess með og treystu sér til. Þeir höfðu ekki sérstöðu í hinni alþjóðlegu kommúnistahreyfingu, heldur í íslenskum stjórnmálum: Enginn annar íslenskur stjórnmálaflokkur aðhylltist eða afsakaði einræði. Og þótt Alþýðubandalagið væri vissulega ekki kommúnistaflokkur, höfðu gömlu kommúnistarnir þar talsverð ítök. Lúðvík Jósepsson, formaður 1977–1980, neitaði ætíð að fordæma kúgunina í Ráðstjórnarríkjunum. Svavar Gestsson, formaður 1980–1987, gekk ungur á sérstakan úrvalsskóla miðstjórnar austur-þýska kommúnistaflokksins, sat sem fastast í ritnefnd Réttar 1982, þegar aðrir sögðu sig úr henni til að mótmæla fylgispekt ritstjórans við Kremlverja, og lét verða sitt síðasta verk í Alþýðubandalaginu að þiggja heimboð kúbverska kommúnistaflokksins haustið 1998.

Þeir Pétur Tyrfingsson og Árni Björnsson eru þó ekki sammála um efnistök mín í Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Pétri finnst ég fara of nákvæmlega í sakir, telja upp of margar staðreyndir. Verk mitt beri fyrir vikið keim af annál frekar en samfelldri sögu. Árni kvartar hins vegar undan því, að ég greini ekki nákvæmlega frá ýmsum smáatriðum, eins og hvor var fyrri framsögumaður á einum fundi sósíalista, hann eða annar maður, og hvenær Vilborg Harðardóttir var þáverandi og hvenær fyrrverandi eiginkona hans. Raunar eru allar tíu „leiðréttingar“ hans ekkert annað en athugasemdir um það, að ég hefði átt að segja meira frá honum sjálfum (og svara ég honum nánar í Tímariti Máls og menningar). Ég hygg því, þegar ég skoða þessa gagnrýni, að ég megi vel við una; mér hafi tekist að rata meðalhófið, þræða söguna eins nákvæmlega og unnt er á 624 blaðsíðum án þess að drekkja frásögninni í smáatriðum.

Ég reyndi líka að auðvelda lesandanum leikinn með því að hafa bókarkaflana stutta og í tímaröð, krydda mál mitt með ýmsum sögum (sem Pétur kallar „kjaftasögur“, þótt studdar séu heimildum) og safna og birta fjölda mynda úr söfnum á Íslandi og í mörgum öðrum löndum og einnig frá einkaaðilum.

Tuttugu milljón krónurnar og skjölin 86

Vilhjálmur Þorsteinsson tók við stórum styrk frá Moskvu 1961.

Þá kem ég beint að annarri tveggja efnislegra athugasemda, sem Pétur Tyrfingsson gerir við bók mína. Hann hefur eftir Jóni Ólafssyni, heimspekiprófessor við Háskólann á Bifröst, að ég lifi „sníkjulífi“ á rannsóknum annarra. Dæmið, sem þeir Pétur og Jón nota þessu til stuðnings, er, að ég skýri frá því í bók minni, að miðstjórn kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna hafi 1952 veitt Dagsbrún háan styrk, 50 þúsund pund. Heimildin var bók Árna Snævarrs og fleiri frá 1992, Liðsmenn Moskvu. Þar hefur Árni þetta einmitt eftir Jóni Ólafssyni, sem er rússneskumælandi og hafði rannsakað skjöl í Moskvu. Nú segir Jón, að þetta sé villa. Þessi styrkur hafi verið veittur 1961. Ég segi frá styrknum frá 1961 í bók minni, þótt Pétur Tyrfingsson minnist af einhverjum ástæðum ekki á það. Ég hafði hins vegar ekki aðgang að þeim skjölum á rússnesku, sem Jón hafði skoðað, og varð þess vegna að treysta honum um styrkinn frá 1952. Þótt Jón hefði haft nítján ár til að leiðrétta þessa villu sína, þegar ég gaf út bók mína, hafði hann hvergi gert það. Bersýnilega verður ekki of varlega farið, þegar stuðst er við rannsóknir Jóns Ólafssonar.

Eðvarð Sigurðsson taldi styrki Kremlverja til verkalýðsfélaga ekki jafnast á við styrki Kominterns.

Því er við að bæta, að Kremlverjar veittu raunar íslenskum sósíalistum styrk til verkalýðsbaráttu þeirra 1952, en Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, sem var stjórnað frá Moskvu, var skrifað fyrir styrknum. Sá styrkur virðist ekki hafa verið greiddur út, þótt ekki sé það fullvíst. Einnig er fróðlegt, að Eðvarð Sigurðsson skrifaði í minnisbók sína, líklega 1952: „Ekki miklar upphæðir. Ekki sjóði eins og Comintern.“ Af því má ekki aðeins ráða, að Kremlverjar hafi veitt miklu rausnarlegri styrki til sósíalista á dögum Kominterns 1919–1943 en síðar, heldur líka, að ýmislegt er enn óupplýst um fjárstyrki að austan. Aðalatriðið er þó, að Kremlverjar fylgdust með verkfallsátökum á Íslandi jafnt 1952 og 1961, litu réttilega á þau sem stjórnmálaátök öðrum þræði og voru reiðubúnir að rétta íslenskum félögum hjálparhönd.

Mér finnst skrýtið að sitja undir árásum fyrir villu, sem Jón Ólafsson gerði og hafði sjálfur ekki leiðrétt í nítján ár, í úrvinnslu rússneskra skjala, sem aðrir íslenskir fræðimenn höfðu engan aðgang að. Enn skrýtnara þykir mér, þegar það er kennt við sníkjulíf. Ég nýtti mér eftir föngum það, sem Jón hefur birt um samskipti íslenskra kommúnista og sósíalista við Kremlverja, þótt ég kostaði um leið kapps við að sannreyna sem flest. Er ekki einmitt tilgangurinn með því að birta niðurstöður rannsókna, að aðrir geti nýtt þær í samræmi við fræðilegar reglur? Ásökun Jóns er sérstaklega ámælisverð í ljósi þess, að hann hlaut rausnarlega styrki frá íslenska ríkinu, ekki síst til að rannsaka rússnesk skjalasöfn. Rannsóknasjóður (áður Vísindasjóður) veitti honum ferðastyrk 1994 og rannsóknarstyrk 1998 (700 þúsund kr.) til rannsókna á kommúnisma. Rannsóknasjóður Atlantshafsbandalagsins veitti honum styrk einu sinni í sama skyni, og menntamálaráðuneytið styrkti hann sérstaklega til rannsókna og afritunar á íslenskum skjölum í Moskvu sumurin 1994 og 1995. Eftir þetta fékk Jón samkvæmt opinberum gögnum styrki úr Rannsóknasjóði 2004 (2 millj. kr.), 2005 (2 millj. kr.) og 2007 (2 millj. kr.) til að rannsaka kommúnisma. Einnig fékk hann styrk 2009 (2,1 millj. kr.) til að rannsaka einn þátt í sögu kommúnismans. Að núvirði er þetta líklega samtals rösklega tuttugu milljónir króna. Var þetta fé af hendi reitt úr almannasjóðum til þess, að Jón Ólafsson gæti brigslað mönnum um að lifa „sníkjulífi“ á rannsóknum hans, ef þeir leyfðu sér að vitna í verk hans?

Dr. Arnór Hannibalsson fann mörg skjöl í söfnum í Moskvu, sem farið höfðu fram hjá Jóni Ólafssyni.

Jón Ólafsson skrifaði bókina Kæru félagar 1999 og einnig nokkrar ritgerðir upp úr gögnum þeim, sem hann fann í Moskvu, og skilaði sumum þeirra síðan (í ljósritum) á handritadeild Landsbókasafnsins, þar sem þau eru í möppu merktri Lbs. 5228 4to, a–b. Þau eru langflest á þýsku, sem var hið opinbera mál Kominterns. En dr. Arnór Hannibalsson heimspekiprófessor kannaði líka söfn í Moskvu, og hann afhenti mér flest sín gögn, sem ég vann síðan úr í bók minni. Ég hef gert lista um þau skjöl, sem mér sýnist vanta í möppuna, sem Jón skilaði á handritadeild Landsbókasafnsins, og eru þau öll úr safni, sem nú er auðkennt RGASPI. Samtals eru þetta 86 skjöl. Eflaust eru einhver þeirra í fórum Jóns (enda vísar hann til nokkurra þeirra í bók sinni), og sum eru aðrar útgáfur af skjölum sama efnis og hann fann. En furðumörg skjöl hafa farið fram hjá Jóni eða hann ekki haft fyrir því að skila þeim í handritadeild Landsbókasafnsins af einhverjum ástæðum.

Heimildir um Komintern-þingið 1920

Brynjólfur Bjarnason: fulltrúi 1920 á Komintern-þingi

Mestur hluti greinar Péturs Tyrfingssonar er samt ekki um mig og bók mína, heldur harkaleg ádeila á Snorra G. Bergsson sagnfræðing, sem hefur af dæmafárri elju sökkt sér niður í skjöl um kommúnisma á íslenskum og erlendum söfnum og verið mér og eflaust fleirum ómetanleg hjálparhella. Gaf hann út bókina Roðann í austri haustið 2011. Pétur sakar Snorra um að hafa ekki kynnt sér frumheimildir, heldur sótt margvíslegan fróðleik af Netinu, þar á meðal af Wikipediu. Pétur nefnir þó aðeins tvö dæmi. Annað snýst um, hvort þeir Hendrik S. Ottósson og Brynjólfur Bjarnason hafi verið fullgildir fulltrúar á þingi Kominterns 1920, en ég hafði í bók minni sagt, að fyrir því hefði Snorri fært „góð rök“ (og er þetta um leið síðari efnisleg athugasemd Péturs við bók mína). Hitt dæmið er, að Snorri hafi enga heimild fyrir því, að Maria nokkur Leitner hafi setið þingið! Nú geiga þessi skot þegar af þeirri ástæðu, að allar frumheimildirnar, sem Pétur minnist á, eru til (og hafa lengi verið til) skannaðar á Netinu. Þær eru þingtíðindin á ensku og þýsku og einnig útdráttur úr rússneskum blöðum, sem Bandaríkjastjórn lét gera 1920. Snorri hafði þess vegna þessar frumheimildir við höndina, enda get ég borið vitni um það. Á meðan við unnum að bókum okkar, ræddum við ósjaldan um þessar heimildir og misræmi, sem er á milli þeirra innbyrðis og við aðrar heimildir. Einnig eru til (en ekki á Netinu, svo að ég viti) þingtíðindi á rússnesku og frönsku og útdráttur úr þingtíðindum á þýsku, sem kom út í Vín 1920, þótt við notuðum ekki þær heimildir.

Málið er ekki vandalaust. Við vitum, að þeir Hendrik S. Ottósson og Brynjólfur Bjarnason voru á Komintern-þinginu 1920, þótt þeirra sé hvergi getið í þingtíðindum. Upplýsingar liggja ekki á lausu um, fyrir hverja þeir voru fulltrúar eða hvort þeir höfðu atkvæðisrétt. Heimildir um þátttöku þeirra í þinginu eru samt sem áður nokkrar. Í fyrsta lagi er til ljósmynd af þeim með ungliðum á þinginu, sem tekin var í þinglok og birtist með þessari grein. Vík ég betur síðar að henni. Báðir hafa líka sagt í bókum frá ferðinni á þingið og dvölinni í Moskvu. Í þriðja lagi er til ræða, sem Hendrik hélt um ástandið á Íslandi yfir framkvæmdastjórn Kominterns. Birtist hún meðal annars í ritinu Berichte zum Zweiten Kongreß der Kommunistischen Internationale (sem kom út í Hamborg 1921 og ég fékk á sínum tíma í millisafnaláni frá útlöndum, enda er hún ekki til á Netinu, svo að ég viti). Í fjórða lagi geta aðrir fulltrúar á þinginu um íslenska kommúnista þar (eins og Snorri rekur í bók sinni). Eflaust er skýringin á því, að þeirra Hendriks og Brynjólfs er hvergi getið í þingtíðindum, að þeir voru boðaðir í skyndi á þingið og komu því miklu síðar þangað en flestir aðrir fulltrúar.

Það flækir málið, að þeir Hendrik og Brynjólfur skýra ekki eins frá þinginu. Í bókinni Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands, sem kom út 1948, kveður Hendrik þá Brynjólf hafa verið fulltrúa með atkvæðisrétt, og hafi þeir greitt atkvæði með Moskvuskilyrðunum svonefndu (bls. 284). Brynjólfur segir hins vegar í viðtali við Einar Ólafsson í bókinni Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga, sem út kom 1989, að þeir hafi verið áheyrnarfulltrúar með ráðgefandi atkvæðisrétt (bls. 74–75). Þetta er því sérstakt úrlausnarefni, þótt af einhverjum furðulegum ástæðum minnist Pétur Tyrfingsson ekki á það. Hann staðhæfir aðeins: „Íslendingarnir á öðru þingi Kominterns voru gestir en ekki fulltrúar hvorki með fullan né ráðgefandi atkvæðisrétt.“ Snorri G. Bergsson rannsakaði þetta og komst að þeirri niðurstöðu, að frásögn Hendriks stæðist. Ég sagði, að hann hefði fært „góð rök“ fyrir því. Skoðum þetta nánar.

Hendrik og Brynjólfur á Komintern-þinginu 1920

Len Kamenjev, Lev Trotskíj og fleiri bolsévíkar syngja Nallann, baráttusöng verkalýðsins, í lok Moskvuþingsins 1920. Stalín lét drepa Kamenjev og Trotskíj báða. Hann réðst á hauskúpur manna frekar en hugmyndir.

Á lista yfir alla fulltrúa á Komintern-þinginu 1920 í hinni þýsku útgáfu þingtíðindanna, Der zweite Kongreß (bls. 780–788), er merkt við tíu, að þeir séu frá æskulýðssamtökum tiltekinna landa (Chabrow og Jurgis frá Bandaríkjunum, Goldenberg og Thal frá Frakklandi, Wardunjan frá Georgíu, Polano frá Ítalíu, Gerhardsen og Medby frá Noregi, Dunajewski frá Rússlandi, Bamatter frá Sviss), og við þrjá, að þeir séu frá Alþjóðasambandi ungra kommúnista, AUK (Leutner, Münzenberg, Schatzkin).[1] Í yfirliti aftan við listann segir, að fulltrúar æskulýðssambanda hafi verið tólf. Þetta kann að skýrast af því, að frönsku fulltrúarnir Goldenberg og Thal hafi verið einn og sami maðurinn (Thal var dulnefni Goldenbergs). Nokkurt ósamræmi er í listanum, því að Leutner er þar sagður með ráðgefandi atkvæðisrétt, en hins vegar segir í yfirlitinu, að allir tólf fulltrúar æskulýðssamtaka hafi verið með fullan atkvæðisrétt. (Í öðrum heimildum kemur fram, að kjörnefnd hafi svipt Leutner fulltrúasæti sínu.) Einnig voru nokkrir ungir menn á þinginu fulltrúa flokka sinna, en ekki æskulýðssambanda, til dæmis Sven Linderot frá Svíþjóð.

Fulltrúalistinn í hinum þýsku þingtíðindum Kominterns er því alls ekki endanlegur, og heimildum ber ekki saman. Til dæmis segir í fyrrnefndu yfirlitsriti um Komintern-þingið, sem tekið var saman úr rússneskum blöðum og gefið út af Bandaríkjastjórn 1920, The 2nd International (bls. 39–40), að fulltrúar æskulýðssambanda hafi verið tólf, en þeir eru taldir fjórir frá Rússlandi, tveir frá Noregi, einn frá Þýskalandi, Ítalíu, Frakklandi og Sviss og og tveir frá sjálfu Alþjóðasambandinu, AUK. Þetta eru að vísu samtals þrettán fulltrúar, en sá munur er einnig á þessum lista og þeim, sem birtist í þýsku þingtíðindunum, að nú eru engir Bandaríkjamenn taldir og tveir taldir frá AUK, en ekki þrír, og Rússarnir taldir fjórir, en ekki einn. Heimildin er rússneskt blað 27. júlí, daginn áður en þeir Hendrik og Brynjólfur komu líklegast til þings. Þessum upplýsingum ber saman við ræðu, sem Karl Radek hélt fyrir hönd kjörbréfanefndar, en samkvæmt henni voru þrettán fulltrúar ungliða á þinginu, fjórir frá Rússlandi, tveir frá Noregi og einn frá Þýskalandi, Ítalíu, Frakklandi, Sviss og Georgíu og tveir frá AUK. Upptalning Radeks birtist í endurskoðuðum þingtíðindum á rússnesku 1934, en ekki í upphaflegu þingtíðindunum, eins og John Riddell bendir á 1991 í bók um Komintern-þingið  (bls. 479–482). Þá bendir Riddell á (bls. 839), að í þingtíðindunum, sem komu út í Vín 1920, voru fulltrúar Grænlands sagðir tveir og fara með fimm atkvæði! Sýnir þetta misræmi þó, að fulltrúatalan var talsvert á reiki, svo að leita verður í aðrar heimildir. Það gerði Snorri G. Bergsson, en Pétur Tyrfingsson ekki.

Willi Münzenberg, leiðtogi Alþjóðasambands ungra kommúnista. Seinna lét Stalín myrða hann í frönskum skógi.

Samkvæmt einni heimild Snorra G. Bergssonar, upphafssögu Alþjóðasambands ungra kommúnista eftir Richard Cornell (bls. 172–173), sendi framkvæmdastjórn Kominterns í Moskvu boð til æskulýðssambanda um að senda fulltrúa á þing Kominterns, sem sætu síðan fund AUK á eftir. Var það gert án samráðs við framkvæmdastjórn AUK í Berlín. Þetta er í fullu samræmi við það, sem Hendrik sagði í bók sinni Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands, að hann hefði með skömmum fyrirvara fengið skeyti með boði um þátttöku í þinginu frá Fredrik Ström, erindreka Kominterns á Norðurlöndum. Ekki virðist hafa tekist í slíkum flýti að fá marga ungliða á þingið, en nokkrir komu þó til Moskvu og tóku þátt í þinginu án þess að vera skráðir í þingtíðindin. Ætla má, að Hugo Sillén og Gerda Linderot frá Svíþjóð, Maria Leitner frá Ungverjalandi, Otto Unger, Walter Löwenhain og Ruth Fischer frá Þýskalandi, Richard Schüller frá Austurríki og Max Barthel frá Sviss hafi verið í þeim hópi að ógleymdum Hendrik S. Ottóssyni og Brynjólfi Bjarnasyni. Þau þekkjast á ljósmyndinni, sem ég gat um og birt er með þessari grein. Hún var tekin á ungliðafundinum eftir Komintern-þingið. Á þessa mynd vantar nokkra æskumenn, sem sóttu þingið sjálft (en því lauk 7. ágúst), en ekki fund ungliðasamtakanna á eftir, til dæmis Norðmennina tvo, Gerhardsen og Medby, sem sneru heim strax eftir þingið. Á myndinni er 21 fulltrúi, þrjár konur og átján karlar. Í bók eftir Willi Münzenberg frá 1930, Die dritte Front, er myndin prentuð og stendur undir henni: „Die Jugend-Delegierten am 2. Kongreß der Kommunistischen Internationale, Moskau 1920“ (Ungir fulltrúar á öðru þingi Alþjóðasambands kommúnista, Moskvu 1920). Flest eða jafnvel öll þessara 21 manns hafa því væntanlega verið fulltrúar á Komintern-þinginu líka. En þau eru ekki öll skráð í þingtíðindunum.

Lenín á Komintern-þinginu í Moskvu 1920. Nýfundin skjöl sýna, að hann var jafnblóðþyrstur og miskunnarlaus og Stalín.

Góð rök eru fyrir því að trúa frekar Hendrik Ottóssyni en Brynjólfi Bjarnasyni um þátttöku þeirra í Komintern-þinginu 1920. Hér skulu hin helstu talin:

Í fyrsta lagi kom bók Hendriks út 1948, þegar hann var á besta aldri, um fimmtugt, þrjátíu árum eftir Bjarmalandsför þeirra félaga, en bók Brynjólfs var safn útvarpsviðtala, sem tekin voru 1988, þegar hann var níræður, en þá voru sjötíu ár frá förinni.

Í öðru lagi er einkennilegt, ef Hendrik skýrði ranglega frá í bók sinni frá 1948, að Brynjólfur skyldi þá ekki leiðrétta þessa villu hans, en Brynjólfur skrifaði einmitt ritdóm um bókina í Þjóðviljann í ársbyrjun 1949. Einnig sagði Brynjólfur í afmælisgrein um Hendrik 1957: „[H]ann var fulltrúi íslenskra sósíalista á 2. þingi Alþjóðasambands kommúnista 1920.“ Raunar fór Brynjólfur ekki alltaf með rétt mál, þegar hann lýsti Bjarmalandsför þeirra Hendriks. Hann sagðist til dæmis hafa hlustað á allar ræður Leníns á þinginu (í Með storminn í fangið, 2. bindi, bls. 283) en hann var ekki kominn til Moskvu, fyrr en eftir að Lenín hafði flutt þrjár af alls sex ræðum sínum á þinginu. Þá dró Brynjólfur í efa (í viðtali við Einar Ólafsson, bls. 75), að Hendrik hefði flutt ræðu yfir framkvæmdastjórn Kominterns á þinginu 1920, en nægar heimildir prentaðar eru fyrir því, sem fyrr segir.

Í þriðja lagi segir í áðurnefndri bók Willis Münzenbergs, Die dritte Front (bls. 329), að Samband ungra kommúnista á Íslandi, „Kommunistische Jugendgruppe,“ hafi gengið í Alþjóðasamband ungra kommúnista 1920. Það hefði væntanlega ekki gerst, nema þeir Hendrik hefðu verið fulltrúar í Moskvu, annar hvor eða báðir.[2] Auk þess segir í myndatexta í bók Münzenbergs, eins og fyrr er getið, að þeir hafi verið fulltrúar.

Í fjórða lagi var Ólafi Friðrikssyni boðið á Komintern-þingið 1921 sem fullgildum fulltrúa íslenskra kommúnista, en það hefði væntanlega ekki verið gert, hefðu þeir Hendrik og Brynjólfur ekki samþykkt Moskvu-skilyrðin á þinginu 1920 fyrir hönd íslenskra kommúnista.

Allt þetta kemur fram í bók Snorra. Ég bendi síðan í fimmta lagi á heimild, sem ég notaði og tekur að mínu mati af allan vafa um þetta atriði. Það er 2. bindi sögu Alþjóðasambands ungra kommúnista eftir Alfred Kurella, sem kom út 1929. Þar segir (bls. 106):

Auf dem zweiten Kongreß der Komintern hatten sich Mitglieder der Exekutive mit den Delegierten von Island [auðkennt í frumriti] in Verbindung gesetzt und ihnen den Auftrag gegeben, nach Möglichkeit eine Jugendbewegung ins Leben zu rufen. Zum zweiten Kongreß konnte die Exekutive bereits Vertreter eines kommunistischen Jugendverbandes von Island einladen. — Á öðru þingi Kominterns settu félagar í framkvæmdastjórn [AUK] sig í samband við fulltrúana frá Íslandi og fólu þeim að stofna samband ungra kommúnista, þegar aðstæður leyfðu. Framkvæmdastjórnin gat þegar boðið á annað þingið [þ. e. sambandsþing AUK 1921] fulltrúa frá íslensku sambandi ungra kommúnista.

Þetta er í fullu samræmi við frásögn Hendriks í bók hans og síðan Snorra. „Fulltrúarnir frá Íslandi“ á öðru þingi Kominterns voru Hendrik og Brynjólfur.

Ég bæti í sjötta lagi við, að fulltrúi kommúnista í Lúxemborg, Edy Reiland að nafni, var ekki skráður á fulltrúalistann í þýsku þingtíðindunum, en hann var samt fullgildur fulltrúi og flutti erindi fyrir framkvæmdastjórn Kominterns eins og Hendrik (Berichte, bls. 242–249). Sýnir það smáatriði ásamt öðru, hversu valt er að treysta þingtíðindunum einum.

Eðlilegt er af öllum þessum ástæðum að taka mark á því, sem Hendrik Ottósson segir, að þeir Brynjólfur hafi verið fulltrúar með fullan atkvæðisrétt og greitt atkvæði með Moskvuskilyrðunum. Fór fyrri atkvæðagreiðsla um þau fram 30. júlí, tveimur dögum eftir að þeir Hendrik komu til Moskvu, en hin síðari 6. ágúst (sjá Der Zweite Kongreß, bls. 400 og 658). Ef til vill er skýringin á misræminu í frásögnum þeirra Brynjólfs, að Hendrik hafi verið með fullan atkvæðisrétt og Brynjólfur með ráðgefandi atkvæðisrétt. Þá sögðu báðir satt frá. En jafnvel þótt Pétur Tyrfingsson hefði af einhverjum ótrúlegum ástæðum rétt fyrir sér og þeir Hendrik og Brynjólfur hefðu skrökvað um þátttöku sína í Komintern-þinginu (þótt slík ósannindi þeirra hefðu að vísu ekki komið jafnaðarmönnunum Stefáni Pjeturssyni og Guðmundi G. Hagalín á óvart), skiptir það engu máli um það, að þeir voru hlynntir Moskvuskilyrðunum og stofnuðu tíu árum eftir þingið stjórnmálaflokk, sem tók þau upp og gekk í Komintern.

Hver var Maria Leitner?

Þá er komið að hinu atriðinu, sem Pétur Tyrfingsson finnur efnislega að. Hann gerir gys að því, að Snorri G. Bergsson telji Mariu Leitner hafa verið fulltrúa í Moskvu. Hún sé „huldumær“ og hvergi finnanleg á skrám. Pétur segir: „Ég veit ekkert hvaðan Snorri hefur það að Maria þessi hafi setið 2. þing Komintern. Kannski hefur hann það úr Wikipediu. Þar getum við lesið í þýsku útgáfunni að hún hafi verið systir Jánosar Lékai en tók sér dulnefnið Maria Leitner.“ Hér kemur Pétur upp um það, að hann hefur ekki lesið bók mína, þótt hann telji sig geta haft um hana hin verstu orð, eða kynnt sér rækilega heimildir um þingið. Í kaflanum í bók minni (bls. 15) um Bjarmalandsför Brynjólfs Bjarnasonar og Hendriks Ottóssonar 1920 er birt ljósmyndin, sem ég hef þegar vikið að, af ungum kommúnistum í Moskvu í lok 2. þings Kominterns, og þar situr Maria Leitner í fremstu röð. Hún er nafngreind í myndatexta og sögð stuttlega á henni deili. Þessa ljósmynd fann ég í skjalasafni Einars Olgeirssonar, og hafði hann prentað hana í einni minningabók sinni, en þá aðeins nafngreint örfáa á myndinni. Áður hafði myndin sem fyrr segir birst í bók Willis Münzenbergs frá 1930, Die dritte Front. Í bók Münzenbergs var Maria Leitner meðal hinna fáu, sem voru nafngreindir í myndatexta (til móts við bls. 257, eins og ég bendi á í nmgr. á bls. 534). Þetta var ekki aðeins heimild mín, heldur líka Snorra.

Þessa ljósmynd fann ég í skjalasafni Einars Olgeirssonar. Hún var tekin í ágúst 1920 í Moskvu. Hún hefur birst nokkrum sinnum í íslenskum bókum, en fyrst kom hún á prent í bók Willis Münzenbergs 1930. Hendrik S. Ottósson og Brynjólfur Bjarnason standa lengst til hægri á myndinni. Maria Leitner situr önnur frá vinstri og Willi Münzenberg sjötti frá vinstri. Leitner hvarf á flótta undan nasistum í Suður-Frakklandi 1941 og hefur líklega soltið í hel. Laxness segir talsvert af Münzenberg í Skáldatíma.

Ég hafði mikið fyrir því (með ómetanlegri aðstoð Ólafs Gríms Björnssonar læknis) að bera kennsl á það fólk á þessari mynd, sem ekki var nafngreint í bók Münzenbergs frá 1930. Til dæmis fékk ég upplýsingar frá Lars Gogman í Arbetarrörelsens Arkiv í Svíþjóð um, hverjir sænsku ungliðarnir á myndinni voru. Ég þóttist sjálfur bera kennsl á þrjá þingfulltrúa eftir öðrum myndum, sem til voru af því fólki, auk þeirra Hendriks Ottóssonar og Brynjólfs Bjarnasonar. Sex menn á myndinni í bók minni eru hins vegar enn ónafngreindir.

Maria Leitner var engin „huldumær“. Þegar rifjuð er upp ævi hennar, sést, að Pétri Tyrfingssyni ferst lítt að gera gys að henni. Maria Leitner (Marie Lékai á ungversku) fæddist 1892 í borginni Varazdin, sem þá var í Ungverjalandi, en er nú í Króatíu, og var af gyðingaættum. Þegar hún var fimm ára, fluttist fjölskyldan til Budapest, og gekk hún þar í skóla, en gerðist síðan blaðamaður. Hún átti tvo bræður, János og Miksa, og urðu þau systkinin snemma róttæk. Þau gengu í kommúnistaflokk Ungverjalands og flýðu land eftir misheppnað valdarán kommúnista 1919 og settust að í Berlín. Maria fór með Jánosi, bróður sínum, á þing Kominterns í Moskvu 1920, en gerðist síðan þýðandi og ritstjóri fyrir Willi Münzenberg í Berlín. Hún var mikill málamaður og þýddi Tibetanische Märchen á þýsku 1923, en birti stutta skáldsögu um ungversku byltinguna 1929, Sandkorn im Sturm. Hún ferðaðist í þrjú ár um Bandaríkin og lýsti síðan bandarísku þjóðlífi í heimildaskáldsögunni Hotel Amerika og í ferðasögunni Eine Frau reist durch die Welt.

Eftir valdatöku nasista 1933 flýði Maria Leitner fyrst til Prag, en síðan Parísar. Hún var örsnauð og heilsuveil, en báðir bræður hennar látnir. Hún var enn sannfærður kommúnisti og lagði sig stundum í bráða hættu með því að flytja leyniskjöl fyrir flokk sinn til Þýskalands. Framhaldssaga birtist eftir Leitner 1938 í þýsku útlagablaði í París, Elisabeth, ein Hitlermädchen. Árið 1940 sendi franska stjórnin Leitner í fangabúðir í Gurs nálægt Pýreneafjöllum, en henni tókst að flýja þaðan, og síðast sást til hennar í Marseille vorið 1941. Þar bjó hún við sára fátækt og skrifaði örvæntingarfull bréf til bandarískra hjálparsamtaka. Líklega hafa nasistar haft hendur í hári hennar eða hún jafnvel soltið í hel. (Talsverður fróðleikur er um líf Mariu Leitners í grein eftir Hans Schmid á síðunni Telepolis á Netinu.)

„Skrifaðu! Við lesum það ekki!“

Engin fræðibók er villulaus, hvorki bók mín, Snorra G. Bergssonar né annarra sagnfræðinga. Mér finnst hins vegar undarlegt að verða fyrir svigurmælum íslensks sósíalista fyrir að hafa treyst rússneskumælandi manni (á rannsóknarstyrk frá íslenska ríkinu) um rússnesk skjöl og fyrir að telja þá Hendrik S. Ottósson og Brynjólf Bjarnason líklegri til að segja satt en ósatt um Bjarmalandsför sína 1920.

Ég veit síðan ekki ómaklegri ásökun á hendur Snorra G. Bergssyni en þá, að hann hafi ekki aflað nauðsynlegra gagna. Hann er allra manna áhugasamastur um að leita uppi heimildir. En þessi ásökun hittir Pétur Tyrfingsson sjálfan fyrir. Einu frumheimildirnar, sem Pétur notar, eru þær, sem til eru á Netinu, til dæmis ensk og þýsk útgáfa þingtíðindanna. Hann vitnar einnig í bók eftir V. V. Prívalov, sem einnig er til á Netinu (en er alls ekki traust heimild). Hann notar hins vegar ekki þær heimildir, sem til eru um þingið og ekki eru á Netinu, til dæmis Berichte, þar sem ræða Hendriks er prentuð, og bækur þeirra Cornells, Kurella og Münzenbergs um Alþjóðasamband ungra kommúnista. Afar illa er líka gengið frá grein Péturs í Herðubreið, allt í belg og biðu og erfitt að greina á milli þess, sem er frá honum sjálfum, og hinu, sem hann hefur eftir Snorra. Fer Pétur jafnvel tvisvar með sömu löngu tilvitnunina í bók Snorra.[3]

Jón Rafnsson: „Skrifaðu! Við lesum það ekki.“

Hvað vakir fyrir Pétri Tyrfingssyni með þessari tilefnislausu aðför að Snorra G. Bergssyni? Þegar Benjamín Eiríksson hvatti í nokkrum blaðagreinum í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari samherja sína í röðum sósíalista til að taka hagsmuni verkalýðshreyfingarinnar fram yfir hagsmuni Kremlverja, brugðust kommúnistar ókvæða við. Jón Rafnsson gekk að honum á götu og hvæsti: „Skrifaðu! Við lesum það ekki!“ Skrif Péturs miða að hinu sama. Hann reynir að „afgreiða“ bækur okkar Snorra Bergssonar með einu litlu aukaatriði (þar sem hann hefur auk þess mjög líklega á röngu að standa), svo að félagar hans geti sagt hróðugir hver við annan, að þessar bækur mori í villum. Við Snorri skrifum; þeir lesi það ekki. Pétur víkur sér undan því, sem er aðalatriðið í minni bók: Í átökum fyrri tíðar milli jafnaðarmanna og kommúnista reyndust jafnaðarmenn hafa rétt fyrir sér.

 

Heimildir

Árni Björnsson 2012. Kolröng mynd. Tímarit Máls og menningar 73 (2), 118–125.

Árni Snævarr og Valur Ingimundarson 1992. Liðsmenn Moskvu. Samskipti íslenskra sósíalista við kommúnistaríkin. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Brynjólfur Bjarnason 1949. Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands. Ritdómur. Þjóðviljinn 23. janúar.

Brynjólfur Bjarnason 1957. Hendrik Ottósson sextugur. Þjóðviljinn 8. október.

Brynjólfur Bjarnason 1973. Með storminn í fangið, 2. b. Reykjavík: Mál og menning.

Cornell, R. 1982. Revolutionary Vanguard: The Early Years of the Communist Youth International, 1914–1924. Toronto: University of Toronto Press.

Einar Ólafsson 1989. Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga. Reykjavík: Mál og menning.

Hannes H. Gissurarson 2011. Íslenskir kommúnistar 1918–1998. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Hannes H. Gissurarson 2012. Kolröng gagnrýni. Tímarit Máls og menningar (væntanlegt).

Hendrik Ottósson 1948. Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands. Akureyri: Bókaútgáfa Pálma H. Jónssonar.

Jón Ólafsson 1999. Kæru félagar. Íslenskir sósíalistar og Sovétríkin 1920–1960. Reykjavík: Mál og menning.

Kurella, Alfred, 1929. Gründung und Aufbau der Kommunistischen Jugend-Internationale. Geschichte der Kommunistischen Jugend-Internationale, II. Berlin: Verlag der Jugendinternationale.

Münzenberg, Willi, 1930. Die dritte Front. Aufzeichnungen aus 15 Jahren proletarischer Jugendbewegung. Berlin: Neuer Deutscher Verlag.

Pétur Tyrfingsson 2012. Þrjúþúsund-og-tvöhundruð grömm af leiðinlegri Heimdallarsagnfræði. Herðubreið 3 (1: júní), 26–43, einnig á http://marxfelag.wordpress.com/author/peturty/ sótt 9. júlí 2012.

Riddell, John, 1991. Workers of the World and Oppressed People, Unite! Proceedings and Documents of the Second Congress, 1920. 1.–2. b. New York: Pathfinder.

Schmid, Hans, 2009. Über Maria Leitner, die Pionierin der Undercover-Reportage, http://www.heise.de/tp/artikel/31/31714/1.html, sótt 5. júlí 2012.

Snorri G. Bergsson 2011. Roðinn í austri. Alþýðuflokkurinn, Komintern og kommúnistahreyfingin á Íslandi 1919–1924. Reykjavík: Ugla.

The 2nd Congress of the Communist International, as Reported and Interpreted by the Official Newspapers of Soviet Russia. Washington: Government Printing Office, 1920.

Tsjítarov, Rafael, 1930. Der Kampf um die Massen. Vom 2. zum 5. Weltkongress der KJI. Geschichte der Kommunistischen Jugend-Internationale, III. Berlin: Verlag der Jugendinternationale.

Þór Whitehead 2010. Sovét-Ísland. Óskalandið. Aðdragandi byltingar sem aldrei varð. Reykjavík: Ugla.



[1] Fullu nafni heita þingtíðindin Der zweite Kongreß der Kommunist[ische]. Internationale. Protokoll der Verhandlungen vom 19. juli in Petrograd und vom 23. juli bis 7. August 1920 in Moskau. Hér er notuð stafsetningin þar, en annars staðar er Wardunjan t. d. nefndur Vardanian, og á ísl. er nafn rússneska aðalfulltrúans stafsett Shatskín (skv. samþykktum umritunarreglum).

[2] Pétur Tyrfingsson setur allt sitt traust bersýnilega á kanadíska trotskistann John Riddell, sem endurskoðað hefur þingskjöl frá 1920 og gefið út í enskri þýðingu 1991. Riddell kom til Íslands og tók 21. ágúst 1988 viðtal við Brynjólf Bjarnason níræðan. Í bók sinni segir Riddell (bls. 11), að Brynjólfur hafi verið „congress participant“, en einnig (bls. 839), að Hendrik hafi verið „guest at the congress“. Hann vitnar þó í bók Hendriks um fræg ummæli Leníns um hernaðargildi Íslands, svo að hann treystir þar sumu. Milligöngumenn Riddells á Íslandi eru sagðir vera Grétar Kristjánsson og Ottó Másson.

[3] Eftir að Pétur Tyrfingsson frétti, að ég myndi svara honum, reyndi hann að bæta úr þessum galla með því að setja grein sína á Netið, sjá http://marxfelag.wordpress.com/author/peturty/ sótt 9. júlí 2012.

Comments are closed.