Hannes á Frelsiskvöldverði Atlas Network

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, kynntist fyrst Antony Fisher, sem síðar varð Sir Antony, haustið 1980, þegar hann bauð Hannesi og fleiri gestum á ráðstefnu Mont Pelerin-samtakanna í Stanford í Kaliforníu heim til sín í San Francisco. Hann og kona hans Dorian áttu glæsilega íbúð á 11. hæð að 1750 Taylor Street. Fisher var í breska flughernum í seinni heimsstyrjöld og sá þar bróður sinn farast. Hann strengdi þess þá heit að berjast fyrir betri heimi. Í stríðslok las hann Leiðina til ánauðar eftir Friedrich A. von Hayek í útdrætti, sem birtist í Reader’s Digest, en þar hélt Hayek því fram, að þjóðernisjafnaðarstefna Hitlers og sameignarstefna Stalíns væru sömu ættar, og varaði jafnframt við tilraunum til að taka upp miðstýrðan áætlunarbúskap, sem væri vart framkvæmanlegur nema í lögregluríki.

Fisher gekk á fund Hayeks til að leita ráða. Var hann að hugsa um að kasta sér út í stjórnmálabaráttu. Hayek sagði honum, að þeir menn hefðu mest áhrif, sem veldu dagskrána í stjórnmálum, réðu því, um hvað væri rætt og á hvaða forsendum, væru smiðir og hliðverðir hugmynda. Þess vegna skyldi hann stofna hugveitu. Fisher fór að ráðum Hayeks, og árið 1955 stofnaði hann Institute of Economic Affairs í Lundúnum, sem rannsakar, hvenær beita má verðlagningu í stað skattlagningar, leysa mál með frjálsum samtökum fólks frekar en valdboði að ofan. Hafði hún mikil áhrif á stefnu Thatchers og eftirmanna hennar.

Seinna átti Fisher eftir að endurtaka leikinn í öðrum löndum, og 1981 stofnaði hann Atlas Network, sem er alþjóðlegt net hugveitna. Nú eiga um 500 stofnanir í um 100 löndum aðild að netinu, og árlega heldur það uppskeruhátíð, Freedom Dinner. Árið 2023 var frelsiskvöldverðurinn í Nýju Jórvík 16. nóvember, og sótti Hannes H. Gissurarson hann. Foundation for Economic Freedom á Filipseyjum hlaut Templeton-verðlaunin fyrir markvissa starfsemi og Temba Nolutshungu frá Suður-Afríku Sir Antony Fisher-verðlaunin fyrir frumkvæði sitt og forystuhlutverk.

Comments Off

Hannes í Bretton Woods

Hannes og Malpass.

Mont Pelerin-samtökin voru stofnuð í apríl 1947, þegar nokkrir frjálslyndir fræðimenn komu saman í Sviss, þar á meðal hagfræðingarnir Ludwig von Mises, Frank H. Knight, Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, George J. Stigler og Maurice Allais og heimspekingurinn Karl R. Popper. Var tilgangurinn að blása nýju lífi í menningararf Vesturlanda með frjálsri rannsókn og rökræðu. Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, hefur verið félagi frá 1984 og sat í stjórn 1998–2004.

Dagana 29. október til 2. nóvember 2023 héldu samtökin ráðstefnu í Bretton Woods í Bandaríkjunum um skipulag alþjóðaviðskipta, tæpum 80 árum eftir að þar var haldinn frægur fundur, þar sem Keynes lávarður og fleiri lögðu á ráðin um stofnun Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í því skyni að koma á festu í alþjóðaviðskiptum. Segja má, að Bretton Woods-samkomulagið hafi brostið, þegar Bandaríkin hættu að tryggja gjaldmiðil sinn í gulli árið 1971. Eftir það hefur heimurinn notast við pappírspeninga, sem eru ekkert annað en ávísanir á sjálfar sig.

Auk Hannesar sóttu Ragnar Árnason, prófessor emeritus í auðlindahagfræði, og dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, þessa ráðstefnu. Erindi á ráðstefnum Mont Pelerin-samtakanna eru flutt í trúnaði, en óhætt er að segja frá því, sem birst hefur annars staðar að frumkvæði höfunda sjálfra. Þrennt stóð upp úr. Prófessor Douglas Irwin lýsti með traustum gögnum hinum stórkostlega ávinningi af frjálsum alþjóðaviðskiptum. Phil Gramm, fyrrverandi öldungardeildarþingmaður og hagfræðiprófessor, sýndi fram á, að opinber gögn um tekjudreifingu í Bandaríkjunum væru meingölluð, þar eð tekjur væru ekki reiknaðar eftir skatta og bætur, sem hvort tveggja jafna þær mjög. Tyler Goodspeed, hagfræðingur í Hoover-stofnuninni, benti á, að frjáls alþjóðaviðskipti gætu orðið sumum hópum í óhag til skamms tíma, þótt þau væru öllum í hag til langs tíma. Hannes lýsti íslenska bankahruninu 2008 í löngu máli fyrir David Malpass, bankastjóra Alþjóðabankans 1919–2023, þegar þeir sátu saman kvöldverð.

Comments Off

Hannes í Madrid: Samstarf íhaldsmanna og frjálshyggjumanna

Nokkrir ræðumenn á þinginu.

Evrópska hugveitan New Direction hélt 20.–22. september 2023 fjölmennt þing í Madrid, þar sem hægri menn báru saman bækur sínar og sóttu hinn árlega kvöldverð í minningu Margrétar Thatchers. Ræðumaður var Robin Harris, sem var ræðuskrifari Thatchers og ævisöguritari.

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, mælti á þessari ráðstefnu með samstarfi frjálshyggjumanna og íhaldsmanna. Hann leiddi rök að því, að til væri frjálslynd íhaldsstefna, sem sameinaði óvéfengjanleg rök frjálshyggjumanna fyrir viðskiptafrelsi, einkaeignarrétti og valddreifingu og sterka tilfinningu íhaldsmanna fyrir því, að menn yrðu að eiga einhvers staðar heima, vera hluti af stærri heild, öðlast samkennd.

Einn íhaldsmaðurinn á ráðstefnunni minntist á samnýtingarbölið (tragedy of commons), þegar ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind veldur ofnýtingu hennar. Hannes svaraði því til, að hagfræðingar hefðu bent á sjálfsprottna samvinnu til að takmarka slíkan aðgang og útrýma bölinu. Íslenska kvótakerfið væri gott dæmi. Hannes benti á, að í Afríku, þar sem sumir stofnar fíla og nashyrninga væru í útrýmingarhættu, mætti með einu pennastriki breyta veiðiþjófum í veiðiverði: með því að skilgreina eignarrétt afrískra þorpsbúa á þessum stofnum og leyfa eðlilega nýtingu þeirra í stað þess að reyna að friða þá.

Hannes H. Gissurarson tók undir það með íhaldsmönnum, að mannlífið væri ekki samsafn óháðra einstaklinga. Allir yrðu að eiga sér einhverjar rætur, bindast öðrum einhverjum böndum, virða arfhelgar venjur og hefðir. Hins vegar hafnaði Hannes þeirri skoðun, sem heyrðist á þinginu, að siðferðilegar skuldbindingar okkar næðu aðeins að þjóðinni. Þær næðu líka til alls mannkyns, þótt slíkar skuldbindingar væru eðli málsins samkvæmt mjög takmarkaðar og fælust aðallega í að láta aðra í friði.

Comments Off

Hannes í Westminster-höll

Hannes og Cleverly.

Jamie Borwick, fimmti barón Borwick, bauð Hannesi H. Gissurarsyni, rannsóknastjóra RNH, í hóf, sem hann hélt 28. júní 2023 í Cholmondeley-salnum í Westminster-höll, breska þinghúsinu, í tilefni þrjú hundruð ára afmælis Adams Smiths. Enginn veit með vissu, hvenær Adam Smith var fæddur, en hann var skírður 5. júní 1723, sem er venjulega talinn fæðingardagur hans. Utanríkisráðherra Breta, James Cleverly, flutti ræðu í hófinu og taldi frelsisboðskap Smiths enn eiga fullt erindi við okkur, en minnti líka á, að Vesturlandamenn mættu ekki láta sér nægja að njóta frelsisins, heldur yrðu þeir líka að verja það, og nú ógnuðu því tvö stórveldi, grá fyrir járnum og hin skuggalegustu, Rússland og Kína.

Hafði Hannes tækifæri til að skiptast á skoðunum við Cleverly, en Hannes er óspar á að láta þá skoðun sína í ljós, að Ísland eigi helst heima með grannríkjunum í Norður-Atlantshafi, Noregi, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum, og síður í Evrópusambandinu.

Að sögn Hannesar setti afmælisbarnið sjálft, Adam Smith, fram tvær snjallar hugmyndir, sem rifja þyrfti reglulega upp. Hin fyrri er, að eins gróði þurfi ekki að vera annars tap. Menn og þjóðir geta grætt á hinni alþjóðlegu verkaskiptingu, ef og þegar ólíkir hæfileikar og landkostir fá að nýtast sem best í frjálsum viðskiptum. Seinni hugmyndin er, að hagkerfi geti verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Regla getur komist á, þótt enginn einn aðili komi henni á. Smith orðaði það svo, að við frjálsa samkeppni á markaði leiddi „ósýnileg hönd“ menn, sem aðeins ætluðu sér að keppa að eigin hag, að því að vinna að almannahag.

Comments Off

Hannes í Eskilstuna: Íhaldsmenn og frjáls markaður

Á sumarskóla fyrir unga íhaldsmenn á Norðurlöndum í Sundbyholm-höll við Eskilstuna 18. júní 2023 var Hannes H. Gissurarson einn fyrirlesara. Hann varpaði fram tveimur spurningum. Önnur var: Af hverju eiga íhaldsmenn að styðja frjálsan markað? Svarið er: Af því að hann er ekkert annað en vettvangur manna til að keppa að markmiðum sínum, þar á meðal þeim venjum og siðum, sem íhaldsmenn vilja vernda og rækta. Ríkið hefur hins vegar tilhneigingu til þess að grafa undan slíkum venjum og siðum. Með einkarétt sinn á að beita ofbeldi er það oftast miklu róttækara og hættulegra breytingarafl en markaðurinn. Hannes benti á, að heildir eins og fjölskyldan og þjóðin væru ekki fastar og óbifanlegar. Menn fæðast inn í eina fjölskyldu og stofna aðra. Menn verða líka að fá að flytjast milli landa. Til þess að maður geti elskað land sitt, verður það að vera elskulegt, minnti Edmund Burke á. Þjóðin er dagleg atkvæðagreiðsla, kvað Ernest Renan.

Hin spurningin, sem Hannes varpaði fram, var: Af hverju eiga norrænir íhaldsmenn að vera frjálshyggjumenn? Svarið var: Af því að frjálshyggjan er þeirra annað eðli. Hún er hefð, sem hefur myndast á árþúsundum. Tacitus lýsti því þegar árið 98 e. Kr., hvernig germanskir ættbálkar stjórnuðu sér sjálfir. Þegar Ansgar biskup vildi kristna Svíþjóð um miðja níundu öld, tikynnti konungur einn honum, að hann yrði að bera erindi hans upp á þingum þegna sinna. Þegar sendimaður Frakkakonungs spurði síðar á öldinni Göngu-Hrólf og menn hans, hver hefði þar forystu, sögðust þeir allir vera jafnir. Í Heimskringlu kemur sú skoðun Snorra Sturlusonar berlega í ljós, að konungar verði að lúta lögum eins og aðrir, og geri þeir það ekki, megi setja þá af, eins og Þórgnýr lögmaður tók fram við Svíakonung árið 1018. Við þessa lagahefð og sáttmálakenningu frá miðöldum bætti Anders Chydenius rökum fyrir viðskiptafrelsi og Nikolai F. S. Grundtvig fyrir frjálsum samtökum, til dæmis skólum, söfnuðum og samvinnufélögum. Þessi frjálslynda norræna arfleifð hefur staðið af sér valdastreitu konunga að fornu og jafnaðarmanna að nýju.

Comments Off

Hannes á málstofu Frelsissjóðsins í Jórvík

Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, hélt til Jórvíkur á Englandi í júníbyrjun 2023 og fetaði með því í fótspor Egils Skallagrímssonar. Hannes hefur að vísu talið Höfuðlausn, sem Egill á forðum að hafa flutt Eiríki konungi blóðöx, grunsamlega ófornfálegt kvæði, ekki síst vegna hins suðræna endaríms. Hefur hann spurt, hvort Snorri hafi ef til vill ort það sjálfur. Erindi Hannesar til Jórvíkur var að vísu þessu óskylt. Honum var boðið ásamt nokkrum öðrum fræðimönnum á málstofu, sem bandaríski Frelsissjóðurinn, Liberty Fund, hélt þar í borg um viðskiptaskipulagið (commercial society), eins og það kom upplýsingarmönnum átjándu og nítjándu aldar fyrir sjónir, þeim Montesquieu, David Hume, Adam Smith og Benjamin Constant.

Montesquieu um Norðurlönd

Margt kom fróðlegt fram í málstofunni. Montesquieu vakti til dæmis athygli á því í Anda laganna, að Fönikíumenn hefðu stundað viðskipti um allt Miðjarðarhaf án þess að telja sig þurfa að leggja undir sig lönd eins og Rómverjar gerðu. Söguskoðanir Vesturlandamanna hafa verið um of verið mótaðar af rómverskum sagnriturum. Voru Rómverjar einhverju skárri en Karþagómenn?

Montesquieu skrifaði í sama riti, að nóg væri að lesa rit rómverska sagnritarans Tacitusar til að sjá, hvaðan Englendingar hefðu fengið stjórnmálahugmyndir sínar. Hið haglega skipulag þeirra hefði orðið til í skógum Germaníu. Sem kunnugt er hafði Tacitus lýst því í ritinu Germaníu, hvernig germanskir ættbálkar leiddu mál til lykta á almennum samkomum. Yrðu konungar og höfðingjar að lúta lögum eins og aðrir. Enn fremur sagði Montesquieu, að Norðurlönd gætu með sönnu hreykt sér af því að vera uppspretta frelsis Evrópuþjóðanna.

Montesquieu bætti því að vísu við, að staðhættir í Evrópu hefði leitt til skiptingar hennar í mörg ríki, sem ekki væru hvert um sig of stórt. Sæmilegt jafnvægi hefði myndast milli þeirra, svo að erfitt hefði verið fyrir eitthvert eitt þeirra að leggja önnur undir sig og þau því farið að lögum og nýtt sér kosti frjálsra viðskipta. Eftir daga Montesquieus komust þrír harðstjórar þó nálægt því að leggja mestallt meginland Evrópu undir sig, fyrst Napóleon á öndverðri nítjándu öld, síðan þeir Hitler og Stalín í sameiningu með griðasáttmálanum sumarið 1939. Í bæði skiptin stöðvuðu Bretar þá eða eins og Montesquieu kynni að segja: Hinn norræni andi.

Hume um frjáls viðskipti

David Hume kvað fátt stuðla eins að framförum og mörg sjálfstæð grannríki, sem tengdust saman með viðskiptum og kepptu í sæmilegu bróðerni hvert við annað. Hefði hann skilið vel þá gagnrýnendur Evrópusambandsins, sem vilja frekar opinn markað en lokað ríki. Hume var einna fyrstur til að setja fram peningamagnskenninguna, sem Milton Friedman varð síðar frægur fyrir: að verðbólga stafaði af offramboði peninga.

Hume kvað skapara heimsins hafa ætlast til þess, þegar hann skammtaði ólíkum þjóðum misjöfn gæði, að þær bættu hag sinn í frjálsum viðskiptum með þessi gæði. Á málstofunni benti Hannes á, að merkilegt væri að kynnast þessum rökum trúleysingjans fyrir viðskiptafrelsi.

Comments Off