Frelsið nái til nýrra hópa

Deirdre McCloskey. Ljósm. Policy Exchange.

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, sótti fund Mont Pelerin samtakanna í Marrakesh í Marokkó 7.–10. október 2025. Samtökin voru stofnuð að frumkvæði Friedrichs A. von Hayeks í apríl 1947, en á meðal stofnfélaga voru Milton Friedman, George J. Stigler og Maurice Allais, sem allir áttu eftir að hljóta Nóbelsverðlaun í hagfræði. Aðrir kunnir stofnfélagar voru Frank H. Knight, faðir Chicago-skólans í hagfræði, Ludwig von Mises, faðir austurríska hagfræðingaskólans, heimspekingarnir Karl R. Popper frá Bretlandi og Bertrand de Jouvenel frá Frakklandi, stjórnmálafræðingurinn Herbert Tingsten og hagfræðingurinn Eli F. Heckscher frá Svíþjóð og hagfræðingarnir Trygve Hoff frá Noregi og Luigi Einaudi frá Ítalíiu (forseti Ítalíu 1948–1955). Skömmu eftir stofnunina gerðust félagar Ludwig Erhard, höfundur þýska efnahagsundursins, og Reinhard Kamitz, höfundur austurríska efnahagsundursins. Á níunda og tíunda áratug gerðust aðrir sigursælir umbótamenn félagar, þar á meðal Sir Roger Douglas og Ruth Richardson frá Nýja Sjálandi, Vaclav Klaus frá Tékklandi og Mart Laar frá Eistlandi. Nokkrir Nóbelsverðlaunahafar hafa einnig verið félagar, í hagfræði þeir Gary Becker, Ronald H. Coase, James M. Buchanan og Vernon L. Smith, allir frá Bandaríkjunum, og í bókmenntum Mario Vargas Llosa frá Perú. Áhrifamiklir rithöfundar voru einnig félagar, þar á meðal Otto von Habsburg, ríkisarfi Austurríkis-Ungverjalands 1916–1918, og Henry Hazlitt frá Bandaríkjunum. Markmið samtakanna var og er að vera vettvangur rökræðu um lögmál frelsisins,  mið og mörk. Hannes sótti sinn fyrsta fund samtakanna í Stanford árið 1980 að boði Hayeks, var kjörinn félagi árið 1984 og sat í stjórn samtakanna 1998–2004.

Fundurinn í Marrakesh var haldinn á Es Saadi gistihúfinu, og yfirskrift hans var: Að frjálshyggjan nái til nýrra hópa. Forseti samtakanna, prófessor Deirdre McCloskey, flutti ávarp á opnunarkvöldverðinum. Málstofur voru um ýmis efni, þar á meðal frjálshyggju í menningarlegri sköpun, samband íslams og atvinnufrelsis og verkefni stuðningsmanna hins opna skipulags. Yfir hádegisverði á fundinum skiptust þeir dr. Peter J. Boettke og dr. Nils Karlson á skoðunum um, hvort frjálshyggja væri að stefna í rétta átt. Prófessor Gabriel Calzada, fyrrverandi forseti samtakanna, flutti ávarp í lokakvöldverðinum, sem fór fram í Soleiman höllinni. Hin svokallaða Chatham House regla gildir um fundi Mont Pelerin samtakanna, að óheimilt sé að vitna beint í ræðumenn. Þeir dr. Nouh El Harmouzi frá Arabísku rannsóknarstofnuninni í Marokkó og Michel-Kelly Magnon frá Efnahagsstofnuninni í Montreal höfðu veg og vanda af fundinum, sem tókst hið besta. Síðasta dag fundarins skoðuðu gestir Marrakesh og gengu um í Bahia höllinni, þar sem landstjórar Frakka bjuggu um skeið.

Hannes notaði tækifærið á fundinum til að heilsa upp á nokkra Íslandsvini, sem haldið hafa erindi í Reykjavík, þar á meðal dr. Eamonn Butler frá Adam Smith Institute í Lundúnum, dr. Barbara Kolm frá Austrian Economics Center í Vínarborg, Dr. Phillip Magness frá Independent Institute í Oakland, dr. Tom Palmer frá Atlas Network í Washington-borg, dr. Nils Karlson frá Ratio Institute í Stokkhólmi, prófessor Alberto Mingardi frá IULM háskóla í Mílanó og Terry Anker frá Liberty Fund, Indianapolis. Eitt kvöldið var laust, og þá skruppu norrænu þátttakendurnir á veitingastað, allir frá Svíþjóð nema Hannes. Frá v.: Susanne Karlson, André Dammert, prófessor Lotta Stern, prófessor Hannes H. Gissurarson, dr. Nils Karlson, Anders Ydstedt og prófessor Carl-Gustaf Thulin.

Comments Off

ESB: Vinur frelsisins eða óvinur?

Júlíus Viggó Ólafsson.

Samkomusalur Safnahússins við Hverfisgötu var troðfullur laugardaginn 4. október 2025, þegar Evrópusamtök frjálslyndra stúdenta (Students for Liberty Europe) og RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, héldu saman ráðstefnu um efnið: ESB: Vinur frelsisins eða óvinur? Breki Atlason, Íslandsfulltrúi Evrópusamtakanna, var fundarstjóri, en Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, kynnti ræðumenn og og stjórnaði fyrirspurnatíma. Júlíus Viggó Ólafsson, einn af forystumönnum ungra sjálfstæðismanna, flutti stutt ávarp í byrjun, þar sem hann sagði, að ungt fólk væri óðum að hafna vinstrinu, ekki síður á Íslandi en annars staðar, en mikilvægt væri, að það hafnaði ekki atvinnufrelsinu, þótt sumt af því kysi að fylgja þjóðlegri íhaldsstefnu. Dr. Eamonn Butler, fyrrverandi forstöðumaður Adam Smith stofnunarinnar í Lundúnum og höfundur fjölmargra bóka um frjálshyggju, talaði fyrstur í fyrri lotu. Hann er Íslandsvinur og var einn fárra, sem andmælti opinberlega í Bretlandi beitingu hryðjuverkalaga á Íslendinga í bankahruninu haustið 2008. Butler sagði, að fyrir sér og öðrum stuðningsmönnum útgöngu úr Evrópusambandinu, Brexit, hefði vakað að ná aftur yfirráðum yfir landinu í stað þess að færa þau til ógagnsæs, ólýðræðislegs og ábyrgðarlauss skrifstofubákns í Brüssel. Brexit hafði tekist, sagði Butler, að því leyti, að Bretar hefðu aftur náð yfirráðum yfir eigin landi, en hann og aðrir stuðningsmenn útgöngunnar hefðu hins vegar vanmetið illvild skriffinnanna í Brüssel, sem hefðu notað hvert tækifæri, sem gafst, til að torvelda útgönguna.

Frá v.: Breki Atlason, Eamonn Butler, John Fund og Ragnar Árnason.

Þegar Hannes H. Gissurarson kynnti næsta ræðumann, John Fund, einn af ritstjórum tímarits bandarískra íhaldsmanna, National Review, vakti hann athygli á fornri kínverskri bölbæn: Megir þú lifa á áhugaverðum tímum. Hann sagði, að nú lifðu Bandaríkjamenn svo sannarlega á áhugaverðum tímum. Fund ræddi um uppgang lýðstefnu, populisma, í Norður-Ameríku og Evrópu. Skýringin á honum væri sú, að valdastéttir í þessum tveimur heimsálfum tækju ekki tillit til hagsmuna og áhugamála venjulegs fólks, ekki síst andstöðu þess við því, að öfgafullir vinstri menn reyndu með afturköllunarfári (cancel culture) og vælumenningu (wokeisma) að troða skoðunum sínum upp á aðra. Fund bætti því við, að Íslendingar stæðu frammi fyrir sögulegri ákvörðun um Evrópusambandið, hvort ætti að færa valdið frá Reykjavík til Brüssel. Eftir því yrði tekið um allan heim, stæðu Íslendingar gegn valdastéttinni í Brüssel. Viðtal var við Fund í Morgunblaðinu 4. október og í Silfrinu á Ríkisútvarpinu 6. október, og ræddi hann þar aðallega um bandarísk stjórnmál.

Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði í Háskóla Íslands, benti á atriði, sem hann taldi augljóst: Menn ganga aðeins í félög, telji þeir sér sérstakan hag í því. Hann mat það svo, að kostnaðurinn af því að ganga í Evrópusambandið yrði miklu meiri fyrir Íslendinga en ávinningurinn. Ísland væri eitt auðugasta ríki Evrópu eins og tvö önnur ríki, sem hvorugt væri í ESB, Noregur og Sviss, og þess vegna myndi það þurfa að greiða miklu meira til ESB en það fengi frá því. Íslendingar ættu verulegar náttúruauðlindir, sem ESB væri líklegt til að ásælast. Ísland þyrfti ekki að ganga í ESB til að tryggja öryggi sitt. Það gerði landið með varnarsamningnum við Bandaríkin annars vegar og aðild að Norður-Atlantshafsbandalaginu hins vegar. Gerðist Ísland aðildarríki, þá hefði það ekki meira að segja um Evrópumál en önnur smáríki, sem hefðu eins og allir vissu hverfandi áhrif. Ragnar bætti við, að til væri viðbótarröksemd, jafnvel þótt komist yrði að þeirri ólíklegu niðurstöðu, að meiri ávinningur yrði en kostnaður af inngöngu. Hún væri, að ákvörðun um inngöngu væri undirorpin óvissu, en líklega óafturkræf. Þess vegna gæti verið skynsamlegt að fresta ákvörðuninni, uns ljóst yrði, hvað framtíðin bæri í skauti sér. Reyndist innganga óskynsamleg, yrði tapið af ákvörðun um inngöngu meira en ágóðinn af henni, reyndist innganga skynsamleg.

Glærur Ragnars

Fjörugar umræður urðu á eftir fyrri lotu. Dr. Daniel Mitchell frá Freedom and Prosperity Association í Washington-borg talaði fyrstur í seinni lotu. Hann benti á, að bilið milli lífkjara í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu hefði breikkað talsvert síðustu áratugi. Hagkerfi ESB-landanna hefði staðnað, og ástæðan var sú að sögn hans, að þar væri minna frelsi en í Bandaríkjunum. Mitchell studdi mál sitt ýmsum gögnum, sem öll voru sótt í viðurkenndir heimildir svo sem Alþjóðabankann. ESB var sökkvandi skip, sagði hann. Ef til vill hefði verið skynsamlegt af fátækari þjóðum Evrópu að ganga inn til tryggingar öryggi þeirra og bættu réttarfari, en það ætti alls ekki við um Ísland. Eftir ráðstefnuna bloggaði Mitchell um hana.

Glærur Mitchells

Siri Terjesen.

Þegar Hannes kynnti tvo síðari ræðumennina í seinni lotunni, minnti hann á kínverska heilræðið, að betra væri að kveikja á kertum en bölva myrkrinu. Þau Siri Terjesen, hagfræðiprófessor í Florida Pacific háskóla, og Gale Pooley, hagfræðiprófessor í Utah Tech háskóla, fengjust bæði við að kveikja kerti. Þau settu fram vonina um betri framtíð ungs fólks þrátt fyrir lýðskrumara og skriffinna, greina skilyrðin fyrir framförum, hagvexti, bættum lífskjörum. Terjesen útskýrði hlutverk frumkvöðla í hagkerfinu, en ríkið gæti liðsinnt þeim með hóflegum sköttum og vönduðu regluverki. Pooley lýsti nýrri aðferð við að mæla lífskjör. Hún væri ekki fólgin í peningum, ekki einu sinni peningum á núvirði hverju sinni, heldur „tímaverði“, en það væri peningaverð deilt með vinnulaunum á klukkustund. Framfarir fælust í því, að það tæki styttri og styttri tíma að afla þess fjár, sem nægði til að kaupa gæði. Fyrir þann tíma, sem maður hefði þurft að vinna árið 1952 til að geta keypt sér eitt loftkælitæki, hefði hann til dæmis getað árið 2024 keypt 45,5 slík tæki. Fyrir þann tíma, sem hann hefði þurft að vinna árið 1900 til að geta keypt sér eina kókflösku, hefði hann árið 2023 getað keypt 55,2 flöskur. Pooley lagði áherslu á sköpunarmátt einstaklinga eins og hann hafði gert í nýlegri bók, sem hann skrifaði með Marian Tupy, Ofgnótt (Superabundance).

Glærur Terjesens

Glærur Pooleys

Snorri Másson.

Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, mælti nokkur lokaorð. Hann kvað miklar hættur hafa steðjað að málfrelsi á Vesturlöndum síðustu ár undir merkjum vælumenningar og afturköllunaráráttu. Því mætti ekki gleyma, að málfrelsið væri líka frelsi til að láta í ljós óvinsælar skoðanir. Að ráðstefnunni lokinni bauð RSE þátttakendum í móttöku í Safnahúsinu, og þar fóru fram fjörugar umræður. Um kvöldið sátu hinir erlendu ræðumenn og forystumenn Students for Liberty grillveislu að heimili Hannesar H. Gissurarsonar, þar sem Einar Arnalds Kristjánsson sá um að grilla. Lukas Schweiger, sem býr á Íslandi, en var um skeið formaður Students for Liberty Europe, Halla Margrét Hilmarsdóttir, ein af Íslandsfulltrúum Students for Liberty Europe, og Gísli Valdórsson, starfsmaður RSE, veittu einnig aðstoð við ráðstefnuhaldið, og þótti allt takast hið besta.

Comments Off

Fríverslun á 21. öld

Á þingi evrópskra hugveitna í Vínarborg 2. október 2025 kynnti hagfræðingurinn og framkvæmdamaðurinn Max Rangeley bók, sem hann ritstýrir ásamt Daniel Hannan lávarði um Fríverslun á 21. öld, en Springer Nature gefur hana út. Á meðal höfunda eru Vernon Smith, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, fyrrverandi forsætisráðherrar Stóra Bretlands og Ástralíu, þau Liz Truss og Tony Abbot, gamalkunnir frjálshyggjuhagfræðingar, Eamonn Butler, Walter E. Block og Richard M. Ebeling, tveir breskir lávarðar og fyrrverandi viðskiptaráðherrar, Peter Lilley og Syed Kamall, hinn kunni hagsöguhöfundur Deirdre McCloskey (sem gegnir nú stöðu forseta Mont Pelerin samtakanna) og rannsóknastjóri RNH, prófessor emeritus Hannes H. Gissurarson, sem skrifar um fríverslun á Norðurlöndum. Í formála segja ritstjórarnir, að fyrir þeim vaki ekki aðeins að setja fram helstu fræðilegu röksemdir fyrir fríverslun, heldur líka að koma til skila ástríðu fríverslunarsinna nítjándu aldar, sem töldu sig vera að berjast fyrir göfugum og miklum málstað. Þeir benda á, að um fátt séu hagfræðingar eins sammála og röksemdirnar fyrir fríverslun, en engu að síður hafi tollverndarstefnu aukist fylgi síðustu áratugi. Þess vegna verði að fara á ný með gömul sannindi.

Prófessor emeritus Hannes H. Gissurarson sagði í ræðu sinni á þinginu, að nú virtust evrópsk og raunar líka bandarísk stjórnmál vera að umhverfast, gerbreytast. Tilraunir vinstrisins til að umskapa skipulagið eftir forskrift Marx hefðu mistekist hrapallega, svo að nú væri Gramsci nú orðinn helsti spámaður þess. Vinstrið hefði, eins og Gramsci hefði séð fyrir sér, lagt undir sig háskóla, fjölmiðla og ýmsar opinberar stofnanir, sums staðar jafnvel dómstóla. Þótt það hefði tapað baráttunni um ríkisvaldið, af því að sósíalisminn hefði hvergi gengið upp, hefði það unnið baráttuna um dagskrárvaldið, öðlast hugmyndalegt forræði á Vesturlöndum. Vinstrið gæti hins vegar glatað þessu forræði sínu vegna stuðnings við vælumenninguna (wokeism) og afturköllunarfárið (cancel culture), sem riðið hefði húsum síðustu árin, en venjulegt fólk með heilbrigða dómgreind hafnaði. Hægrið hefði hins vegar ekki áttað sig á því, að fjórfrelsið fræga, frjáls flutningur fjármagns, vöru, þjónustu og fólks yfir landamæri, mætti ekki fela í sér óheftan straum glæpalýðs, öfgamúslima og bótabetlara inn í vestræn farsældar- og friðsældarríki. Hannes minnti á orð Friedrichs A. von Hayeks í Lundúnablaðinu The Times 11. október 1978: „Þótt ég styðji það lokamarkmið, að landamæri milli ríkja hætti með öllu að hindra frjálsan flutning fólks yfir þau, tel ég, að innan hvers þess tímabils, sem nú er raunhæft að líta til, muni allar tilraunir til að hrinda þessu markmiði í framkvæmd endurvekja sterka þjóðerniskennd.“

Hannes kvað von Hayek hafa reynst forspáan. Í Stóra Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi mældust nú flokkar, sem takmarka vildu óheftan innflutning fólks, stærri en hefðbundnir mið- og hægri flokkar. Verkefnið framundan væri að veita hinni sterku þjóðerniskennd, sem endurvakin hefði verið, í farveg frelsis og réttar frekar en valdboðs og miðstýringar. Landamæri ættu að vera opin duglegu, heiðarlegu, löghlýðnu fólki, sem skapaði verðmæti, en lokuð glæpalýð, öfgamúslimum og bótabetlurum. Ekki ætti að hleypa óþjóðalýð inn í vestræn ríki. Ekki mætti fórna fríverslun á altari óhefts innflutnings fólks. Á meðal annarra ræðumanna á þinginu voru dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Austrian Economics Center í Vínarborg og þingmaður í Austurríki, Pieter Cleppe, ritstjóri BrusselsReport.eu, og prófessor Christopher Lingle, en hann hélt upp á 77 ára afmæli sinn sama dag og þingið var haldið. Sést hann hér í miðjunni, en til vinstri við hann er Hannes H. Gissurarson og til hægri við hann Pieter Cleppe.

Comments Off

Hannes í Einni Pælingu

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Þórarins Hjartarsonar í hlaðvarpinu Ein pæling 25. september 2025. Þórarinn spurði, hvort Hannes hefði verið fyrsta íslenska fórnarlamb vælumenningarinnar (wokeism) og afturköllunarfársins (cancel culture), þegar hann hætti kennslu árið 2017. Heyrst hefði, að femínistar hefðu krafist þess, að hann viki úr kennslu. Hannes kannaðist ekki við það. Háskólayfirvöld hefðu ætíð komið óaðfinnanlega fram við sig og ekki tekið mark á neinu mögli öfgafemínista. Þau hefðu gert sér kleift að helga sig óskiptan rannsóknum, uns hann hefði farið á eftirlaun árið 2023. Hins vegar hefðu eflaust einhverjir samkennarar hans verið óánægðir með, að hann sótti klukkutíma langa deildarfundi mánaðarlega og hefði þá ósjaldan notið meiri þjálfunar sinnar í rökræðum en flestir þeirra hefðu haft úr sínum sænsku sveitaskólum. Það væri þó furðulegt, að þeir þyldu ekki að hlusta á önnur sjónarmið í fimm til tíu mínútur á mánuði. Þórarinn spurði, hverja hann teldi áhrifamestu stjórnmálaheimspekinga sögunnar. Hannes svaraði, að þeir væru Páll postuli, John Locke, Karl Marx og Friedrich A. von Hayek. Þá spurði Þórarinn, með hverjum þeirra Hannes hefði helst kosið að sitja að drykkju, og nefndi Hannes þá Robert Nozick og Milton Friedman, sem hefðu báðir geislað af gáfum og andríki.

Hannes kvað borgaralega flokka í Evrópu í kreppu. Kalda stríðinu hefði lokið með sigri Vesturveldanna, og umdeildasta tilraun tuttugustu aldar, sósíalisminn, hefði mistekist. Viðhorf hefðu því breyst og víglínur færst til. Borgaralegir flokkar hefðu ekki brugðist nógu skýrt við því, að skollið væri á menningarstríð, sem snerist um, hvort verja ætti hefðbundin vestræn gildi eins og málfrelsi, fundafrelsi, vinnusemi og framtakssemi fyrir vinstri sinnuðum iðjuleysingjum á bótum og erlendum hælisleitendum í leit að bótum. Landamæri ættu að vera opin fyrir duglegu og löghlýðnu fólki, en lokuð fyrir glæpalýð, öfgamúslimum og letingjum að snapa bætur. Í því sambandi gerði Hannes greinarmun á tvenns konar lýðstefnu, populisma: lýðhyllisstefnu, þar sem leitast væri við að fylgja vilja almennings, til dæmis um að halda uppi lögum og reglu, og lýðskrumsstefnu, þar sem reynt væri að finna óvini og telja fávísu fólki trú um, að kjör þess bötnuðu við að ráðast á þessa ímynduðu óvini.

Lögreglan í Reykjavík virtist vera fullkomlega gagnslaus, sagði Hannes. Hún vildi til dæmis ekki rannsaka hina einkennilegu fjársöfnun Semu Erlu Serder, sen hefði farið með sextíu milljónir í reiðufé til Egyptalands, væntanlega í því skyni að múta egypskum embættismönnum til að hleypa palestínskum hælisleitendum yfir landamærin frá Gasa. Hefði hún væntanlega með þessu brotið lög um opinberar fjársafnanir og bann við mútum. Hannes kvað koma sér á óvart, að  Naji Asar, sem hefði reynt að stökkva af þingpöllum niður í fundarsal Alþingis, áreitt bandaríska ferðamenn og skvett rauðri málningu yfir fjölmiðlafólk, væri enn á landinu. Einnig væri sérkennilegt dæmið af Egypta einum, sem fengið hefði hæli sem samkynhneigt fórnarlamb ofsókna í heimalandi sínu, en síðan hefðu kona hans og fjórar dætur komið til landsins og hann að lokum hlotið dóm fyrir að berja dæturnar sundur og saman, af því að þær hefðu ekki verið nógu duglegar að læra kóraninn.

Hannes kvað nýtt fyrirbæri hafa litið dagsins ljós í menningarstríðinu. Það væri kostur manna á að skilgreina sig sér til hagsbóta út úr eigin hóp og inn í einhvern annan hóp. Auðvitað væru til raunverulegir öryrkjar og sjálfsagt að gera vel við þá. En til væru menn, sem skilgreindu sig sem öryrkja án þess að vera það og færu á örorkubætur í stað þess að vinna eins og annað fólk. Auðvitað væru líka til menn, sem vildu eftir rækilega umhugsun og vandlegan undirbúning skipta um kyn. Koma ætti fram við þá af sömu virðingu og aðra borgara, gyðinga og múslima, konur og karla, ríka og fátæka. En til væru karlar, sem skilgreindu sig sem konur án þess að vera það til þess að geta staðið uppi sem sigurvegarar í kvennaíþróttum. Venjulegu fólki félli ekki þessi misnotkun á frelsinu, sem væri auk þess kostnaðarsöm.

 

Comments Off

Stjórnspeki Snorra Sturlusonar

Hið íslenska bókmenntafélag gaf 23. september 2025, á dánardægri Snorra Sturlusonar, út ritið Stjórnspeki Snorra Sturlusonar eins og hún birtist í Heimskringlu eftir Sigurð Líndal, prófessor í lögum og einn margfróðasta háskólakennara tuttugustu aldar á Íslandi, arftaka Sæmundar fróða, Ara fróða, Styrmis fróða og Arngríms lærða. Ritið, sem er 134 bls., birtist fyrst í Úlfljóti, tímariti laganema árið 2007. Snorri Sturluson (1179–1241) er talinn höfundur þriggja stórmerkra verka, Eddu, aðalheimild okkar um átrúnað fornmanna, Heimskringlu, sögu Noregskonunga fram í lok tólftu aldar, og Egils sögu, um hinn stórbrotna skáldvíking Egil Skallagrímsson. Snorri var einn voldugasti og auðugasti maður sinnar tíðar og tvisvar lögsögumaður, en einn keppinautur hans um völd lét taka hann af lífi í Reykholti 23. september 1241 með leyfi Noregskonungs, sem var honum reiður fyrir að vilja ekki koma landinu undir konung. Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skrifaði formála, en prófessor emeritus Hannes H. Gissurarson sá um útgáfuna.

Í tilefni útkomunnar héldu Hið íslenska bókmenntafélag, Miðaldastofa, Lagastofnun Háskóla Íslands og RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, samkomu í Eddu, húsi íslenskra fræða, 23. september 2025. Tveir erlendir fyrirlesarar ræddu um framlag Snorra Sturlusonar og Sigurðar Líndals til laga og stjórnmála. Ditlev Tamm, prófessor emeritus í réttarsögu við Kaupmannahafnarháskóla, lýsti hinni fornu lagahefð, sem Sigurður hefði skrifað margt um, og benti á hliðstæðar hennar sunnar í álfunni, til dæmis í skilmálaskránni gullnu í Ungverjalandi árið 1222. Ein mikilvægasta regla þessarar lagahefðar væri Quod omnes tangit ab omnibus approbetur (Það, sem alla varðar, verða allir að samþykkja), en þessi regla varð í meðförum bandarísku byltingarmannanna árið 1776 að vígorðinu: Enga skatta án samþykkis, No taxation without representation. Það væri hins vegar álitamál, hversu mikið af hinni norrænu lagahefð væri upprunalegt og hversu mikið hefði skapast í þjóðernisrómantík nítjándu aldar.

Dr. Tom G. Palmer, alþjóðafulltrúi Atlas Network, sem er samband nær 600 hugveitna um allan heim, ræddi líka um regluna Quod omnes tangit ab omnibus approbetur, sem hann taldi eina helstu undirstöðu vestræns lýðræðis. Í pólsk-litáíska aðalsveldinu hét þessi regla Nic o nas bez nas, Ekkert um okkur án okkar. Palmer taldi í þessu felast, að lýðræði krefðist þátttöku manna í umræðum og um leið virðingu þeirra fyrir góðum og gegnum umræðuvenjum. Hann benti á, að sumt í hinni frægu ræðu Einars Þveræings í Heimskringlu minnti á kafla úr riti Ciceros, De officiis. Þar segir Einar, að konungar séu ójafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og sé því best að takmarka vald þeirra til að leggja á skatta og stunda hernað.

Fjörugar umræður urðu að loknum framsöguerindunum. Lilja Alfreðsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, rifjaði upp lýsingu rómverska sagnritarans Tacitusar í bókinni Germania á sjálfstjórn germanskra ættbálka og taldi íslenska þjóðveldið 930–1262 minna á hana. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, lagði áherslu á hina germönsku og engilsaxnesku arfleifð, sem Snorri Sturluson hefði vísað til í Heimskringlu, en þessi arfleifð hefði rekist á viðleitni konunga til að efla vald sitt. Snorri hefði staðið á krossgötum. Nú væri þessi arfleifð aftur orðin mikilvæg, þegar reynt væri að efla miðstýringu í Evrópu og koma landinu undir Brüssel-valdið. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, benti á, að Snorri hefði alist upp í Odda. Þess vegna mætti telja hann Oddaverja frekar en Sturlung. Velti hann fyrir sér, hvort Snorri hefði átt einhvern þátt í ritun Njáls sögu, sem væri einhver besta bók í heimi. Hannes H. Gissurarson, sem stjórnaði umræðum, kvað Snorra vissulega hafa ritað Egils sögu, en líklega hefði Sturla Þórðarson, frændi hans, ritað Njáls sögu. Mikill munur væri á hinni óvinsamlegu afstöðu til konunga í Egils sögu og hinni tiltölulega vinsamlegu afstöðu til þeirra í Njáls sögu. Ólíkt Snorra hefði Sturla verið fylgismaður konungsvalds.

Húsfyllir var á málstofunni. Garðar Gíslason, fyrrverandi hæstaréttardómari, var fundarstjóri, en RSE styrkti útgáfu bókar Sigurðar. Að málstofunni lokinni bauð RSE til móttöku í Eddu, og um kvöldið fögnuðu aðstandendur bókinni í kvöldverði, þar sem Garðar Gíslason mælti fyrir minni Sigurðar Líndals og Hannes H. Gissurarson fyrir minni Snorra Sturlusonar. Frá v.: Haraldur Bernharðsson, Miðaldastofu, María Jóhannsdóttir, ekkja Sigurðar Líndals, Ditlev Tamm, prófessor emeritus Anna Agnarsdóttir, Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, hönnuður bókarinnar, Elisa Eyvindsdóttir, ritstjóri Úlfljóts, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus Ragnar Árnason, dr. Tom G. Palmer, Garðar Gíslason og Salka Sigmarsdóttir, ritstjóri Úlfljóts.

Daginn fyrir málstofuna birti Hannes H. Gissurarson grein í Morgunblaðinu um þær stjórnmálahugmyndir Snorra, sem enn væru í fullu gildi, vald háð samþykki, mótstöðurétt (sem nú væri rétturinn til að setja valdhafa af í frjálsum kosningum á nokkurra ára fresti, væri þess talin þörf), enga skatta án samþykkis og utanríkisstefnu, sem fæli í sér, að Íslendingar væru vinir erlendra höfðingja, en ekki þegnar þeirra.

 

 

Comments Off

Hannes um frjálshyggjuhugtakið

John Locke

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Gísla Freys Valdórssonar í hinu vinsæla hlaðvarpi hans, Þjóðmálum, 27. ágúst 2025. Þeir ræddu aðallega um, hvernig skilgreina ætti og rökstyðja frjálshyggju. Hannes benti á, að venjulega væri orðið notað um það hugmyndakerfi, sem þeir John Locke, David Hume og Adam Smith hefðu reist. Hann bætti við, að í rauninni næðu rætur frjálshyggjunnar þó miklu lengra aftur í tímann, til hinna fornu germönsku hugmynda um vald í höndum þjóðarinnar og mótstöðuréttinn, eins og Snorri Sturluson lýsti í Heimskringlu. Hannes kvað ríkið veita þrenns konar nauðsynlega þjónustu, að halda uppi lögum og reglu, að verja borgarana gegn hættum, jafnt að innan og utan, og að tryggja, að þeir, sem geta ekki séð sér farborða af eigin rammleik, fái lifað mannsæmandi lífi (þótt það fæli ekki í sér, að veita ætti fullhraustu fólki aðstoð). Líklega þyrfti ríkið ekki nema um fimmtán af hundraði vergrar landsframleiðslu til þess að geta veitt þessa þjónustu. Hannes minnti síðan á gamla vígorðið um, að skattlagning krefðist íhlutunarréttar hinna skattlögðu (no taxation without representation). Þetta merkti til dæmis, að óeðlilegt væri að skattleggja fyrirtæki, því að þau hefðu ekki kosningarrétt. Hannes taldi einu eðlilegu og réttlátu skattana vera flata skatt á tekjur eða neyslu (virðisaukaskatt). Til dæmis fæli fjármagnstekjuskattur í sér tvísköttun, eins og John Stuart Mill hefði einna fyrstur bent á, því að fjármagnstekjur væru tekjur af fjármagni, sem myndast hefði af tekjum eftir skatt, við sparnað og hagsýni. Með fjármagnstekjuskatti væri hinum sparsömu og hagsýnu refsað, en eyðsluklærnar verðlaunaðar.

Í þættinum rifjaði Hannes upp sögu Eiríks af Pommern, sem var konungur allra Norðurlanda snemma á fimmtándu öld. Árið 1429 hefði hann lagt á Eyrarsundstollinn, en hann urðu öll skip að greiða, sem leið áttu um Eyrarsund, ella urðu þau fyrir skothríð úr Krónborgarkastala. Síðar hefði hann verið afhrópaður og þá sest að á Gotlandi á Eystrasalti og gerst sjóræningi. Það væri hins vegar áleitin spurning, hvort einhver siðferðilegur munur væri á að heimta toll af skipum á siglingu um Eyrarsund og ræna skip á siglingu um Eystrasalt. Var tollurinn ekki skattlagning án íhlutunarréttar og því óbeinn þjófnaður, en sjóránin beinn þjófnaður? Hannes nefndi einnig, að breski heimspekingurinn G. E. M. Anscombe hefði haldið því fram, að meginverkefni stjórnmálaheimspekinnar væri að skýra út muninn á ríkinu og stigamannahópum (mafíum), en hvorir tveggja byðu fram vernd gegn gjaldi.

Hannes kvað muninn á frjálshyggju og sósíalisma sjást einna best á ólíkum viðhorfum til fátæktar. Frjálshyggjumenn vildu greiða leið manna út úr fátækt, fjölga tækifærum þeirra til að brjótast til bjargálna, en sósíalistarnir gera fátæktina bærilegri, en með því auðvelduðu þeir fólki að sitja föstu í fátækt. Frjálshyggjumenn vildu hjálp til sjálfshjálpar, land sjálfstæðra og vel stæðra einstaklinga. Hannes bætti því við, að helstu röksemdirnar fyrir einkaeignarrétti væru tvær. Hin fyrri væri, að það, sem allir ættu, hirti enginn um. Hin síðari væri, að garður væri granna sættir. Hannes kvaðst hlynntur einkaeignarrétti á náttúruauðlindum, að minnsta kosti þeim, sem hefðu lengi verið nýttar, en mikilvægasta auðlindin væri maðurinn sjálfur, kunnátta hans, þekking og vitneskja, enda sýndu rannsóknir, að þorri tekna væru vinnutekjur, en ekki afgjöld af auðlindum.

Comments Off