Aðalfundur Almenna bókafélagsins 2025

Aðalfundur Almenna bókafélagsins árið 2025 var haldinn 17. maí. Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri AB, lagði fram reikninga félagsins, sem voru samþykktir, og hefur afkoman aldrei verið betri. Munar þar ekki síst um ýmsa gripi fyrir erlenda ferðamenn. Aðrir hluthafar eru Kjartan Gunnarsson, Baldur Guðlaugsson og Ármann Þorvaldsson. Almenna bókafélagið var stofnað 17. júní 1955 að frumkvæði Bjarna Benediktssonar, þáverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra, og skáldanna Gunnars Gunnarssonar, Tómasar Guðmundssonar, Guðmundar G. Hagalíns og Kristmanns Guðmundssonar, svo að það stendur nú á sjötugu. Var tilgangur félagsins í upphafi að veita mótvægi við hinum miklu áhrifum kommúnista í íslensku menningarlífi, en þeir nutu ríflegra styrkja frá Moskvu. Undir forystu núverandi framkvæmdastjóra og hluthafa hefur Almenna bókafélagið gefið út þrjár skáldsögur Ayns Rands, Kíru Argúnovu, Uppsprettuna og Undirstöðuna, ýmsar bækur eftir Hannes H. Gissurarson, nú prófessor emeritus, röð bóka, sem komu út gegn kommúnisma, aðallega í kalda stríðinu (þ. á m. Úr álögum eftir Jan Valtin, Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti, Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Bóndinn eftir Valentín González, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko), bækur eftir Matt Ridley og Johan Norberg um framfarir í krafti frelsis og Þjóðmálarit AB, þ. á m. Icesave-samningarnir eftir Sigurð Má Jónsson, Búsáhaldabyltingin eftir Stefán Gunnar Sveinsson, Andersenskjölin eftir Eggert Skúlason, Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits? og Seðlabankinn gegn Samherja, báðar eftir eftir Björn Jón Bragason. Bækurnar gegn kommúnisma eru allar aðgengilegar ókeypis á netinu. Að aðalfundinum loknum var að venju efnt til kvöldverðar. Frá v.: Baldur Guðlaugsson, Þórdís Edwald, Sigríður Snævarr, Ármann Þorvaldsson, Hannes H. Gissurarson, Jónas Sigurgeirsson, Karítas Kvaran, Kjartan Gunnarsson og Rósa Guðbjartsdóttir.

Comments Off

Alþjóðaviðskipti, til hagsældar og friðsældar

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var einn ræðumanna í Búdapest 13. maí í fundaröð Austrian Economics Center undir yfirskriftinni „Free Market Road Show“. Að fundinum í Búdapest stóðu einnig Dónárstofnunin, the Danube Institute, og Ungversk-bandaríska viðskiptaráðið í Nýju Jórvík (New York). Hannes tók þátt í pallborðsumræðum um alþjóðaviðskipti og tolla ásamt dr. Eamonn Butler frá Adam Smith stofnuninni í Lundúnum, en umræðunum stjórnaði Philip Pilkington. Á fundinum í Búdapest voru einnig pallborðsumræður um Bandaríkjadal og gull, sem þau dr. Barbara Kolm frá Austrian Economics Center og bandaríski hagfræðingurinn dr. Daniel Mitchell tóku þátt í . Auk þess flutti sendiherra Argentínu í Ungverjalandi, háttvirt María Lorena Capra, ávarp um umbótaáætlun Javiers Mileis Argentínuforseta.

Hannes hóf mál sitt á að rifja upp, að hann hefði iðulega á kappræðufundum með ungkommúnistum á áttunda áratug síðustu aldar í ræðulok vitnað í ungverska þjóðskáldið Sàndor Petöfi:

Talpra magyar, hí a haza!
Itt az idő, most vagy soha!
Rabok legyünk, vagy szabadok?
Ez a kérdés, válasszatok!

Þessi vísuorð þýddi Steingrímur Thorsteinsson á íslensku:

Upp nú, lýður, land þitt verðu! 
Loks þér tvíkost boðinn sérðu: 
Þjóðar frelsi, þrældóms helsi! 
Þú sérð muninn: Kjóstu frelsi!

Þessi vísuorð eru í þjóðsöng Ungverja, en Íslendingar fylgdust af samúð með sjálfstæðisbaráttu þeirra á nítjándu öld, enda voru þeir sjálfir að reyna að telja Dani á að veita sér heimastjórn.

Hannes kvað tvær helstu röksemdirnar fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum felast í hagsæld og friðsæld. Skaparinn hefði skipt gæðum misjafnlega milli einstaklinga og þjóða, svo að þessir aðilar þyrftu að skipta hver við annan, jafnt einstaklingar og þjóðir. Einn hefði það, sem annan vantaði, og öfugt, og þeir yrðu báðir betur settir með því að skiptast þannig á vöru eða þjónustu. Hin röksemdin væri, að tilhneiging manna til að skjóta á náunga sína minnkaði, sæju þeir í þeim væntanlega viðskiptavini. Hannes kvaðst fagna hugmynd bandaríska auðkýfingsins Elons Musks um risastórt fríverslunarsvæði Norður-Ameríku og Evrópu, en bætti við, að Kínaveldi hlyti í augum fríverslunarsinna að vera sérstaks eðlis. Það stundaði ekki eðlileg viðskipti, heldur undirboð og ranga gengisskráningu, hefði með vopnavaldi lagt undir sig Tíbet og hótaði nú Taívan hinu sama og stundaði yfirfang í Suður-Kína-hafi. Þess vegna væri óeðllilegt að líta á það eins og hvern annan viðskiptavin fremur en hin öxulveldin þrjú, Íran, Norður-Kórea og Rússland.

Forstöðumaður Dónárstofnunarinnar, John O’Sullivan, og kona hans Melissa buðu ræðumönnum til kvöldverðar eftir fundinn. Frá v.: Eamonn Butler, John O’Sullivan, Daniel Mitchell, Christine Butler og Hannes H. Gissurarson.

Comments Off

Margir litlir draumar eða einn stór

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var ræðumaður í Vínarborg 12. maí 2025 í fundaröð, sem Austrian Economics Center skipulagði undir yfirskriftinni „Free Market Road Show“. Fundurinn var haldinn á efstu hæð í turni, Ringturm, og sést þaðan yfir alla Vínarborg. Paul Höfinger, fulltrúi Austrian Insurance Group, sem var gestgjafi fundarins, bauð menn velkomna. Fyrsta pallborðið var um austurrísku fjárlögin, sem verið var að leggja fram, og haldið á þýsku. Annað pallborðið var um boðskap Friedrichs A. von Hayeks á okkar dögum, frjáls viðskipti, skuldir hins opinbera og skattamál. Í því tóku þátt auk prófessors Hannesar þau dr. Eamonn Butler frá Adam Smith Institute, dr. Barbara Kolm frá Austrian Economics Institute, dr. Daniel Mitchell frá Freedom and Prosperity Institute og prófessor Alexander Tokarev frá Northwood háskóla.

Þar sem sást vítt yfir Vínarborg af fundarstaðnum, rifjaði Hannes upp, þegar hann og nokkrir félagar hans í Hayek Society í Oxford háskóla snæddu kvöldverð með Hayek á Ritz gistihúsinu í Lundúnum vorið 1985. Hljómlistarmenn hússins komu til hans og hvísluðu þeirri spurningu að honum hvaða lag þeir ættu að taka við borðið. Hann svaraði í hálfum hljóðum: „Vín, borg minna drauma“, en það er frægt lag (og ljóð) eftir Rudolf Sieczyński. Þegar Hayek heyrði lagið, færðist breitt bros yfir varir hans og hann hóf að syngja ljóðið á þýsku, enda þá ekki nema 86 ára.

Hannes sagði síðan á ráðstefnunni, að gera mætti greinarmun á frjálshyggju og sósíalisma eftir draumum. Frjálshyggjumenn teldu, að hver maður ætti að fá að eiga sinn hógværa og óáleitna litla draum, um að finna vinnu við sitt hæfi, reka fyrirtæki, stofna fjölskyldu, smíða í tómstundum, en verkefnið væri að búa svo um hnúta, að slíkir draumar gætu ræst. Sósíalistar ættu sér hins vegar aðeins einn stóran og ágengan draum fyrir alla, um fyrirmyndarríki, staðleysu, útópíu, sem neyða yrði alla með góðu eða illu til að lifa við og laga sig að, en þessi stóri draumur yrði jafnan að martröð.

Hannes benti á, að Hayek gerði hina óumflýjanlegu vanþekkingu hvers og eins að aðalatriði kenningar sinnar. Þar eð þekkingin dreifist á mennina, endaði það með ósköpum, ef einhver einn hópur reyndi að neyða sínum stóra draumi upp á aðra. En Hayek gerði líka grein fyrir því, hvernig ætti að ráða við þessa vanþekkingu: í tíma með því að nýta reynsluvit kynslóðanna, hefðir og venjur, og í rúmi með frjálsri verðmyndun á markaði, sem segði mönnum til um, hvar hæfileikar þeirra nýttust best.

Comments Off

Hannes í hlaðvarpi Skoðanabræðra

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var gestur hlaðvarpsins Skoðanabræðra 9. maí 2025. Það stofnuðu bræðurnir Snorri og Bergþór Mássynir, en eftir að Snorri var kjörinn á þing fyrir Miðflokkinn í kosningunum í nóvemberlok 2024, sér Bergþór einn um þáttinn. Hannes útskýrði, hvernig honum fyndist að vera kominn á eftirlaun, hvers vegna vinstri menn væru meiri vinstri menn en hægri menn hægri menn, hvers vegna hægri menn lesa minna en vinstri menn og hvers vegna taka verður í taumana í innflytjendamálum. Hann kvaðst hafa verið í senn innanbúðarmaður og utangarðsmaður á Íslandi. Hannes rifjaði upp baráttu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn Davíð Oddssyni og ýmislegt annað sögulegt. Þátturinn var 113 mínútur.

Comments Off

Hannes í hlaðvarpinu Sláin inn

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var gestur Birgis Liljars Soltanis í hlaðvarpinu „Sláin inn“ 3. maí 205. Ræddi hann þar meðal annars tollastríð Trumps Bandaríkjaforseta, vælumenningu (wokeism) og afturköllunarfár (cancel culture) háskóla og fjölmiðla, átökin í Ísrael og hryðjuverkasamtökin Hamas og veiðigjöld í íslenskum sjávarútvegi. Þátturinn var 59 mínútur.

Comments Off

Hannes í Lestinni í Ríkisútvarpinu

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var gestur „Lestarinnar“ í Ríkisútvarpinu 3. apríl, sem þau Kristján Guðjónsson og Lóa Björk Björnsdóttir sáu um. Talaði hann um bandaríska hægrið. Hann sagði meðal annars frá kynnum sínum af Milton Friedman, Margréti Thatcher, Peter Thiel og öðru hægra fólki og dvöl sinni í Kísildalnum. Hann sagði kost og löst á Trump-stjórninni og greindi muninn á frjálshyggju annars vegar og bandarískri frjálslyndisstefnu (liberalism) hins vegar. Þátturinn var 55 mínútur.

Comments Off