Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands og rannsóknastjóri RNH, flutti erindi í sumarskóla hugveitunnar New Direction í Brüssel og frönsku hugveitunnar ISSE, en hann var haldinn í Chateu de Thorens í Efra-Savoie héraði í Frakklandi 30. júní til 4. júlí 2025. Ræddi hann um rætur frjálslyndrar íhaldsstefnu. Hann gerði greinarmun á suðrænni frjálshyggju, sem rekja mætti til Rómarréttarins og hugmynda heilags Tómasar af Akvínas, og norrænni frjálshyggju, sem ætti upptök sín í venjurétti germanskra ættbálka og sjálfstjórnarhugmyndum þeirra, en þeim hefði rómverski sagnritarinn Tacitus lýst þegar á fyrstu öld e. Kr., en franski heimspekingurinn Montesquieu síðan lofað þær (en hann kvað frelsið hafa fæðst í skógum Þýskalands).
Norræna frjálshyggju er að finna í verkum íslenska sagnritarans Snorra Sturlusonar (1179–1241), sem lýsti átökum milli norskra (og sænskra) konunga og þegna þeirra, en þeir hefðu fylgt fram tveimur meginreglum, að valdsmenn stjórnuðu í umboði þjóðar sinnar og að alþýða hefði rétt á að gera uppreisn, brytu valdsmenn gegn hinum gömlu, góðu lögum. John Locke nýtti þennan germanska (og engilsaxneska arf), þegar hann smíðaði heimspekikenningu úr þessum reglum og reyndi með henni að réttlæta Byltinguna dýrlegu í Bretlandi árið 1688, en hún var gerð til varnar fornum réttindum Breta gegn ásælnum konungum. David Hume betrumbætti síðan kenninguna með lýsingu sinni á réttlæti sem sjálfsprottnu viðbragð við tveimur staðreyndum mannlegrar tilveru, takmörkuðum náungakærleika og knöppum efnislegum gæðum. Adam Smith bætti við rökum fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum, en Edmund Burke andmælti tilraunum frönsku jakobínanna til að kollvarpa öllum siðum og stofnunum og reyna að reisa nýtt ríki eftir fræðilegum forskriftum í stað þess að styðjast við reynsluvit kynslóðanna.
Hannes rifjaði upp, að ellefu árum áður en Adam Smith birti hið mikla verk sitt um Auðlegð þjóðanna hefði finnskur prestur, Anders Chydenius (1729–1803), sem setið hefði á sænska stéttaþinginu, skrifað bækling, þar sem hann hefði fært fram sömu rökin fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum. Chydenius hefði einnig gegnt mikilvægu hlutverki í baráttunni fyrir málfrelsi og trúfrelsi í Svíþjóð. Sænskir frjálshyggjumenn hefði afhrópað konung árið 1809 og sett tiltölulega frjáls stjórnlög sama ár. Þeir efldu á nítjándu öld réttarríkið, afnámu iðngildi og flest höft á atvinnufrelsi og kusu árið 1866 þjóðþing í stað gamla stéttaþingsins. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Hagvöxtur varð ör í Svíþjóð árin 1870 til 1970, og landið varð eitt hið ríkasta í heimi.