Hannes um frjálshyggjuhugtakið

John Locke

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Gísla Freys Valdórssonar í hinu vinsæla hlaðvarpi hans, Þjóðmálum, 27. ágúst 2025. Þeir ræddu aðallega um, hvernig skilgreina ætti og rökstyðja frjálshyggju. Hannes benti á, að venjulega væri orðið notað um það hugmyndakerfi, sem þeir John Locke, David Hume og Adam Smith hefðu reist. Hann bætti við, að í rauninni næðu rætur frjálshyggjunnar þó miklu lengra aftur í tímann, til hinna fornu germönsku hugmynda um vald í höndum þjóðarinnar og mótstöðuréttinn, eins og Snorri Sturluson lýsti í Heimskringlu. Hannes kvað ríkið veita þrenns konar nauðsynlega þjónustu, að halda uppi lögum og reglu, að verja borgarana gegn hættum, jafnt að innan og utan, og að tryggja, að þeir, sem geta ekki séð sér farborða af eigin rammleik, fái lifað mannsæmandi lífi (þótt það fæli ekki í sér, að veita ætti fullhraustu fólki aðstoð). Líklega þyrfti ríkið ekki nema um fimmtán af hundraði vergrar landsframleiðslu til þess að geta veitt þessa þjónustu. Hannes minnti síðan á gamla vígorðið um, að skattlagning krefðist íhlutunarréttar hinna skattlögðu (no taxation without representation). Þetta merkti til dæmis, að óeðlilegt væri að skattleggja fyrirtæki, því að þau hefðu ekki kosningarrétt. Hannes taldi einu eðlilegu og réttlátu skattana vera flata skatt á tekjur eða neyslu (virðisaukaskatt). Til dæmis fæli fjármagnstekjuskattur í sér tvísköttun, eins og John Stuart Mill hefði einna fyrstur bent á, því að fjármagnstekjur væru tekjur af fjármagni, sem myndast hefði af tekjum eftir skatt, við sparnað og hagsýni. Með fjármagnstekjuskatti væri hinum sparsömu og hagsýnu refsað, en eyðsluklærnar verðlaunaðar.

Í þættinum rifjaði Hannes upp sögu Eiríks af Pommern, sem var konungur allra Norðurlanda snemma á fimmtándu öld. Árið 1429 hefði hann lagt á Eyrarsundstollinn, en hann urðu öll skip að greiða, sem leið áttu um Eyrarsund, ella urðu þau fyrir skothríð úr Krónborgarkastala. Síðar hefði hann verið afhrópaður og þá sest að á Gotlandi á Eystrasalti og gerst sjóræningi. Það væri hins vegar áleitin spurning, hvort einhver siðferðilegur munur væri á að heimta toll af skipum á siglingu um Eyrarsund og ræna skip á siglingu um Eystrasalt. Var tollurinn ekki skattlagning án íhlutunarréttar og því óbeinn þjófnaður, en sjóránin beinn þjófnaður? Hannes nefndi einnig, að breski heimspekingurinn G. E. M. Anscombe hefði haldið því fram, að meginverkefni stjórnmálaheimspekinnar væri að skýra út muninn á ríkinu og stigamannahópum (mafíum), en hvorir tveggja byðu fram vernd gegn gjaldi.

Hannes kvað muninn á frjálshyggju og sósíalisma sjást einna best á ólíkum viðhorfum til fátæktar. Frjálshyggjumenn vildu greiða leið manna út úr fátækt, fjölga tækifærum þeirra til að brjótast til bjargálna, en sósíalistarnir gera fátæktina bærilegri, en með því auðvelduðu þeir fólki að sitja föstu í fátækt. Frjálshyggjumenn vildu hjálp til sjálfshjálpar, land sjálfstæðra og vel stæðra einstaklinga. Hannes bætti því við, að helstu röksemdirnar fyrir einkaeignarrétti væru tvær. Hin fyrri væri, að það, sem allir ættu, hirti enginn um. Hin síðari væri, að garður væri granna sættir. Hannes kvaðst hlynntur einkaeignarrétti á náttúruauðlindum, að minnsta kosti þeim, sem hefðu lengi verið nýttar, en mikilvægasta auðlindin væri maðurinn sjálfur, kunnátta hans, þekking og vitneskja, enda sýndu rannsóknir, að þorri tekna væru vinnutekjur, en ekki afgjöld af auðlindum.

Comments Off

Hannes: Háskólinn á villigötum

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Hermanns Nökkva Gunnarssonar blaðamanns í Dagmálum, sjónvarpsþætti Morgunblaðsins, 22. ágúst 2025. Hannes gagnrýndi harðlega aðgerðaleysi Háskólans, eftir að nokkrir starfsmenn skólans ruddust inn á málstofu, sem ein stofnun Háskólans hélt í Þjóðminjasafninu 6. ágúst, og komu með öskrum og ópum í veg fyrir, að málstofustjórinn, Gylfi Zoëga, og fyrirlesarinn, Gil Epstein frá Ísrael, fengju að tala. Varð fyrir vikið að aflýsa málstofunni. Hannes sagði, að þessir ruddar hefðu ekki verið að mótmæla, eins og þeir hefðu fullan rétt á að gera, heldur hefðu þeir verið að ráðast á málfrelsi og rannsóknafrelsi þeirra, sem málstofuna héldu og sóttu. Akademískt frelsi væri auðvitað ekki aðeins frelsi undan stjórnvöldum, eins og sumir hefðu haldið fram, heldur líka frelsi undan auðjöfrum, sérhagsmunahópum og í þessu tilviki hávaðasömum ruddum. Hannes taldi líklegt, að óeirðaseggirnir hefðu ekki verið reknir áfram af sérstakri samúð með andstæðingum Ísraels. Miklu verra ástand væri í Súdan, þar sem ellefu milljónir manna hrektust um heimilislausir í landinu, en fjórar milljónir væru landflótta, jafnframt því sem annar aðili borgarastríðsins þar syðra væri að reyna að útrýma Alasítum, fámennum þjóðflokki í vesturhuta landsins. Upphlaupsmennirnir í Þjóðminjasafninu hefðu í raun verið reknir áfram af hatri á vestrænum gildum, til dæmis jöfnu frelsi allra, frjálsum markaði, stöðuveitingum samkvæmt hæfileikum, en ekki hörundslit eða kynferði, og vísindum sem frjálsri samkeppni hugmynda. Ísrael væri eina vestræna ríkið í Miðausturlöndum.

Margt bar á góma í þættinum. Hannes tók fram, að auðvitað væri hann hlynntur frjálsum flutningi fólks milli landa, svo framarlega sem innflytjendur væru reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum í viðtökulandinu og fylgja þar lögum. En Evrópuríkin hefðu síðustu árin tekið á móti fjölda fólks, sem væri andvígt vestrænum gildum. Þetta fólk vildi ekki viðurkenna jafnrétti kynjanna og væri vinnufælið og ofbeldishneigt. Evrópskir kjósendur kærðu sig ekki um, að slíkt fólk legði undir sig lönd þeirra, og ef stjórnmálaflokkar daufheyrðust við þeim skoðunum, þá yrði þeim ýtt til hliðar.

Hannes benti á, að tímamót hefðu orðið í síðustu þingkosningum á Íslandi, þegar róttæka vinstrið hefði ekki fengið einn einasta mann kjörinn. Það hefði haft fulltrúa á þingi allt frá 1937, þegar þrír þingmenn kommúnistaflokksins hefðu tekið þar sæti, og jafnan átt vís atkvæði 10–20 af hundraði kjósenda. Hannes benti einnig á, að hægrið hefði áður fyrr verið sameinað á Íslandi, en nú dreifðist það á fjóra flokka, Sjálfstæðisflokkinn, sem hefði snarminnkað, Miðflokkinn, Viðreisn og Flokk fólksins.

Hannes kvaðst vera að ljúka verkefni fyrir hugveituna New Direction í Brüssel, sýnisbók norrænnar frjálshyggju allt frá 946 (þegar Hákon góði skilaði til Norðmanna þeim landareignum, sem faðir hans hafði hrifsað af þeim) til 1945 (þegar prófessor Poul Andersen varði reglu gamla Grundtvigs, að frelsið væri frelsi Loka jafnt og Þórs). Kæmi bókin út síðar á þessu ári.

Comments Off

Hannes: Rætur norrænnar frelsishefðar

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands og rannsóknastjóri RNH, flutti erindi í sumarskóla hugveitunnar New Direction í Brüssel og frönsku hugveitunnar ISSE, en hann var haldinn í Chateu de Thorens í Efra-Savoie héraði í Frakklandi 30. júní til 4. júlí 2025. Ræddi hann um rætur frjálslyndrar íhaldsstefnu. Hann gerði greinarmun á suðrænni frjálshyggju, sem rekja mætti til Rómarréttarins og hugmynda heilags Tómasar af Akvínas, og norrænni frjálshyggju, sem ætti upptök sín í venjurétti germanskra ættbálka og sjálfstjórnarhugmyndum þeirra, en þeim hefði rómverski sagnritarinn Tacitus lýst þegar á fyrstu öld e. Kr., en franski heimspekingurinn Montesquieu síðan lofað þær (en hann kvað frelsið hafa fæðst í skógum Þýskalands).

Norræna frjálshyggju er að finna í verkum íslenska sagnritarans Snorra Sturlusonar (1179–1241), sem lýsti átökum milli norskra (og sænskra) konunga og þegna þeirra, en þeir hefðu fylgt fram tveimur meginreglum, að valdsmenn stjórnuðu í umboði þjóðar sinnar og að alþýða hefði rétt á að gera uppreisn, brytu valdsmenn gegn hinum gömlu, góðu lögum. John Locke nýtti þennan germanska (og engilsaxneska arf), þegar hann smíðaði heimspekikenningu úr þessum reglum og reyndi með henni að réttlæta Byltinguna dýrlegu í Bretlandi árið 1688, en hún var gerð til varnar fornum réttindum Breta gegn ásælnum konungum. David Hume betrumbætti síðan kenninguna með lýsingu sinni á réttlæti sem sjálfsprottnu viðbragð við tveimur staðreyndum mannlegrar tilveru, takmörkuðum náungakærleika og knöppum efnislegum gæðum. Adam Smith bætti við rökum fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum, en Edmund Burke andmælti tilraunum frönsku jakobínanna til að kollvarpa öllum siðum og stofnunum og reyna að reisa nýtt ríki eftir fræðilegum forskriftum í stað þess að styðjast við reynsluvit kynslóðanna.

Hannes rifjaði upp, að ellefu árum áður en Adam Smith birti hið mikla verk sitt um Auðlegð þjóðanna hefði finnskur prestur, Anders Chydenius (1729–1803), sem setið hefði á sænska stéttaþinginu, skrifað bækling, þar sem hann hefði fært fram sömu rökin fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum. Chydenius hefði einnig gegnt mikilvægu hlutverki í baráttunni fyrir málfrelsi og trúfrelsi í Svíþjóð. Sænskir frjálshyggjumenn hefði afhrópað konung árið 1809 og sett tiltölulega frjáls stjórnlög sama ár. Þeir efldu á nítjándu öld réttarríkið, afnámu iðngildi og flest höft á atvinnufrelsi og kusu árið 1866 þjóðþing í stað gamla stéttaþingsins. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Hagvöxtur varð ör í Svíþjóð árin 1870 til 1970, og landið varð eitt hið ríkasta í heimi.

Comments Off

Aðalfundur Almenna bókafélagsins 2025

Aðalfundur Almenna bókafélagsins árið 2025 var haldinn 17. maí. Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri AB, lagði fram reikninga félagsins, sem voru samþykktir, og hefur afkoman aldrei verið betri. Munar þar ekki síst um ýmsa gripi fyrir erlenda ferðamenn. Aðrir hluthafar eru Kjartan Gunnarsson, Baldur Guðlaugsson og Ármann Þorvaldsson. Almenna bókafélagið var stofnað 17. júní 1955 að frumkvæði Bjarna Benediktssonar, þáverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra, og skáldanna Gunnars Gunnarssonar, Tómasar Guðmundssonar, Guðmundar G. Hagalíns og Kristmanns Guðmundssonar, svo að það stendur nú á sjötugu. Var tilgangur félagsins í upphafi að veita mótvægi við hinum miklu áhrifum kommúnista í íslensku menningarlífi, en þeir nutu ríflegra styrkja frá Moskvu. Undir forystu núverandi framkvæmdastjóra og hluthafa hefur Almenna bókafélagið gefið út þrjár skáldsögur Ayns Rands, Kíru Argúnovu, Uppsprettuna og Undirstöðuna, ýmsar bækur eftir Hannes H. Gissurarson, nú prófessor emeritus, röð bóka, sem komu út gegn kommúnisma, aðallega í kalda stríðinu (þ. á m. Úr álögum eftir Jan Valtin, Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti, Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Bóndinn eftir Valentín González, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko), bækur eftir Matt Ridley og Johan Norberg um framfarir í krafti frelsis og Þjóðmálarit AB, þ. á m. Icesave-samningarnir eftir Sigurð Má Jónsson, Búsáhaldabyltingin eftir Stefán Gunnar Sveinsson, Andersenskjölin eftir Eggert Skúlason, Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits? og Seðlabankinn gegn Samherja, báðar eftir eftir Björn Jón Bragason. Bækurnar gegn kommúnisma eru allar aðgengilegar ókeypis á netinu. Að aðalfundinum loknum var að venju efnt til kvöldverðar. Frá v.: Baldur Guðlaugsson, Þórdís Edwald, Sigríður Snævarr, Ármann Þorvaldsson, Hannes H. Gissurarson, Jónas Sigurgeirsson, Karítas Kvaran, Kjartan Gunnarsson og Rósa Guðbjartsdóttir.

Comments Off

Alþjóðaviðskipti, til hagsældar og friðsældar

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var einn ræðumanna í Búdapest 13. maí í fundaröð Austrian Economics Center undir yfirskriftinni „Free Market Road Show“. Að fundinum í Búdapest stóðu einnig Dónárstofnunin, the Danube Institute, og Ungversk-bandaríska viðskiptaráðið í Nýju Jórvík (New York). Hannes tók þátt í pallborðsumræðum um alþjóðaviðskipti og tolla ásamt dr. Eamonn Butler frá Adam Smith stofnuninni í Lundúnum, en umræðunum stjórnaði Philip Pilkington. Á fundinum í Búdapest voru einnig pallborðsumræður um Bandaríkjadal og gull, sem þau dr. Barbara Kolm frá Austrian Economics Center og bandaríski hagfræðingurinn dr. Daniel Mitchell tóku þátt í . Auk þess flutti sendiherra Argentínu í Ungverjalandi, háttvirt María Lorena Capra, ávarp um umbótaáætlun Javiers Mileis Argentínuforseta.

Hannes hóf mál sitt á að rifja upp, að hann hefði iðulega á kappræðufundum með ungkommúnistum á áttunda áratug síðustu aldar í ræðulok vitnað í ungverska þjóðskáldið Sàndor Petöfi:

Talpra magyar, hí a haza!
Itt az idő, most vagy soha!
Rabok legyünk, vagy szabadok?
Ez a kérdés, válasszatok!

Þessi vísuorð þýddi Steingrímur Thorsteinsson á íslensku:

Upp nú, lýður, land þitt verðu! 
Loks þér tvíkost boðinn sérðu: 
Þjóðar frelsi, þrældóms helsi! 
Þú sérð muninn: Kjóstu frelsi!

Þessi vísuorð eru í þjóðsöng Ungverja, en Íslendingar fylgdust af samúð með sjálfstæðisbaráttu þeirra á nítjándu öld, enda voru þeir sjálfir að reyna að telja Dani á að veita sér heimastjórn.

Hannes kvað tvær helstu röksemdirnar fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum felast í hagsæld og friðsæld. Skaparinn hefði skipt gæðum misjafnlega milli einstaklinga og þjóða, svo að þessir aðilar þyrftu að skipta hver við annan, jafnt einstaklingar og þjóðir. Einn hefði það, sem annan vantaði, og öfugt, og þeir yrðu báðir betur settir með því að skiptast þannig á vöru eða þjónustu. Hin röksemdin væri, að tilhneiging manna til að skjóta á náunga sína minnkaði, sæju þeir í þeim væntanlega viðskiptavini. Hannes kvaðst fagna hugmynd bandaríska auðkýfingsins Elons Musks um risastórt fríverslunarsvæði Norður-Ameríku og Evrópu, en bætti við, að Kínaveldi hlyti í augum fríverslunarsinna að vera sérstaks eðlis. Það stundaði ekki eðlileg viðskipti, heldur undirboð og ranga gengisskráningu, hefði með vopnavaldi lagt undir sig Tíbet og hótaði nú Taívan hinu sama og stundaði yfirfang í Suður-Kína-hafi. Þess vegna væri óeðllilegt að líta á það eins og hvern annan viðskiptavin fremur en hin öxulveldin þrjú, Íran, Norður-Kórea og Rússland.

Forstöðumaður Dónárstofnunarinnar, John O’Sullivan, og kona hans Melissa buðu ræðumönnum til kvöldverðar eftir fundinn. Frá v.: Eamonn Butler, John O’Sullivan, Daniel Mitchell, Christine Butler og Hannes H. Gissurarson.

Comments Off

Margir litlir draumar eða einn stór

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var ræðumaður í Vínarborg 12. maí 2025 í fundaröð, sem Austrian Economics Center skipulagði undir yfirskriftinni „Free Market Road Show“. Fundurinn var haldinn á efstu hæð í turni, Ringturm, og sést þaðan yfir alla Vínarborg. Paul Höfinger, fulltrúi Austrian Insurance Group, sem var gestgjafi fundarins, bauð menn velkomna. Fyrsta pallborðið var um austurrísku fjárlögin, sem verið var að leggja fram, og haldið á þýsku. Annað pallborðið var um boðskap Friedrichs A. von Hayeks á okkar dögum, frjáls viðskipti, skuldir hins opinbera og skattamál. Í því tóku þátt auk prófessors Hannesar þau dr. Eamonn Butler frá Adam Smith Institute, dr. Barbara Kolm frá Austrian Economics Institute, dr. Daniel Mitchell frá Freedom and Prosperity Institute og prófessor Alexander Tokarev frá Northwood háskóla.

Þar sem sást vítt yfir Vínarborg af fundarstaðnum, rifjaði Hannes upp, þegar hann og nokkrir félagar hans í Hayek Society í Oxford háskóla snæddu kvöldverð með Hayek á Ritz gistihúsinu í Lundúnum vorið 1985. Hljómlistarmenn hússins komu til hans og hvísluðu þeirri spurningu að honum hvaða lag þeir ættu að taka við borðið. Hann svaraði í hálfum hljóðum: „Vín, borg minna drauma“, en það er frægt lag (og ljóð) eftir Rudolf Sieczyński. Þegar Hayek heyrði lagið, færðist breitt bros yfir varir hans og hann hóf að syngja ljóðið á þýsku, enda þá ekki nema 86 ára.

Hannes sagði síðan á ráðstefnunni, að gera mætti greinarmun á frjálshyggju og sósíalisma eftir draumum. Frjálshyggjumenn teldu, að hver maður ætti að fá að eiga sinn hógværa og óáleitna litla draum, um að finna vinnu við sitt hæfi, reka fyrirtæki, stofna fjölskyldu, smíða í tómstundum, en verkefnið væri að búa svo um hnúta, að slíkir draumar gætu ræst. Sósíalistar ættu sér hins vegar aðeins einn stóran og ágengan draum fyrir alla, um fyrirmyndarríki, staðleysu, útópíu, sem neyða yrði alla með góðu eða illu til að lifa við og laga sig að, en þessi stóri draumur yrði jafnan að martröð.

Hannes benti á, að Hayek gerði hina óumflýjanlegu vanþekkingu hvers og eins að aðalatriði kenningar sinnar. Þar eð þekkingin dreifist á mennina, endaði það með ósköpum, ef einhver einn hópur reyndi að neyða sínum stóra draumi upp á aðra. En Hayek gerði líka grein fyrir því, hvernig ætti að ráða við þessa vanþekkingu: í tíma með því að nýta reynsluvit kynslóðanna, hefðir og venjur, og í rúmi með frjálsri verðmyndun á markaði, sem segði mönnum til um, hvar hæfileikar þeirra nýttust best.

Comments Off