Hannes í Einni Pælingu

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Þórarins Hjartarsonar í hlaðvarpinu Ein pæling 25. september 2025. Þórarinn spurði, hvort Hannes hefði verið fyrsta íslenska fórnarlamb vælumenningarinnar (wokeism) og afturköllunarfársins (cancel culture), þegar hann hætti kennslu árið 2017. Heyrst hefði, að femínistar hefðu krafist þess, að hann viki úr kennslu. Hannes kannaðist ekki við það. Háskólayfirvöld hefðu ætíð komið óaðfinnanlega fram við sig og ekki tekið mark á neinu mögli öfgafemínista. Þau hefðu gert sér kleift að helga sig óskiptan rannsóknum, uns hann hefði farið á eftirlaun árið 2023. Hins vegar hefðu eflaust einhverjir samkennarar hans verið óánægðir með, að hann sótti klukkutíma langa deildarfundi mánaðarlega og hefði þá ósjaldan notið meiri þjálfunar sinnar í rökræðum en flestir þeirra hefðu haft úr sínum sænsku sveitaskólum. Það væri þó furðulegt, að þeir þyldu ekki að hlusta á önnur sjónarmið í fimm til tíu mínútur á mánuði. Þórarinn spurði, hverja hann teldi áhrifamestu stjórnmálaheimspekinga sögunnar. Hannes svaraði, að þeir væru Páll postuli, John Locke, Karl Marx og Friedrich A. von Hayek. Þá spurði Þórarinn, með hverjum þeirra Hannes hefði helst kosið að sitja að drykkju, og nefndi Hannes þá Robert Nozick og Milton Friedman, sem hefðu báðir geislað af gáfum og andríki.

Hannes kvað borgaralega flokka í Evrópu í kreppu. Kalda stríðinu hefði lokið með sigri Vesturveldanna, og umdeildasta tilraun tuttugustu aldar, sósíalisminn, hefði mistekist. Viðhorf hefðu því breyst og víglínur færst til. Borgaralegir flokkar hefðu ekki brugðist nógu skýrt við því, að skollið væri á menningarstríð, sem snerist um, hvort verja ætti hefðbundin vestræn gildi eins og málfrelsi, fundafrelsi, vinnusemi og framtakssemi fyrir vinstri sinnuðum iðjuleysingjum á bótum og erlendum hælisleitendum í leit að bótum. Landamæri ættu að vera opin fyrir duglegu og löghlýðnu fólki, en lokuð fyrir glæpalýð, öfgamúslimum og letingjum að snapa bætur. Í því sambandi gerði Hannes greinarmun á tvenns konar lýðstefnu, populisma: lýðhyllisstefnu, þar sem leitast væri við að fylgja vilja almennings, til dæmis um að halda uppi lögum og reglu, og lýðskrumsstefnu, þar sem reynt væri að finna óvini og telja fávísu fólki trú um, að kjör þess bötnuðu við að ráðast á þessa ímynduðu óvini.

Lögreglan í Reykjavík virtist vera fullkomlega gagnslaus, sagði Hannes. Hún vildi til dæmis ekki rannsaka hina einkennilegu fjársöfnun Semu Erlu Serder, sen hefði farið með sextíu milljónir í reiðufé til Egyptalands, væntanlega í því skyni að múta egypskum embættismönnum til að hleypa palestínskum hælisleitendum yfir landamærin frá Gasa. Hefði hún væntanlega með þessu brotið lög um opinberar fjársafnanir og bann við mútum. Hannes kvað koma sér á óvart, að  Naji Asar, sem hefði reynt að stökkva af þingpöllum niður í fundarsal Alþingis, áreitt bandaríska ferðamenn og skvett rauðri málningu yfir fjölmiðlafólk, væri enn á landinu. Einnig væri sérkennilegt dæmið af Egypta einum, sem fengið hefði hæli sem samkynhneigt fórnarlamb ofsókna í heimalandi sínu, en síðan hefðu kona hans og fjórar dætur komið til landsins og hann að lokum hlotið dóm fyrir að berja dæturnar sundur og saman, af því að þær hefðu ekki verið nógu duglegar að læra kóraninn.

Hannes kvað nýtt fyrirbæri hafa litið dagsins ljós í menningarstríðinu. Það væri kostur manna á að skilgreina sig sér til hagsbóta út úr eigin hóp og inn í einhvern annan hóp. Auðvitað væru til raunverulegir öryrkjar og sjálfsagt að gera vel við þá. En til væru menn, sem skilgreindu sig sem öryrkja án þess að vera það og færu á örorkubætur í stað þess að vinna eins og annað fólk. Auðvitað væru líka til menn, sem vildu eftir rækilega umhugsun og vandlegan undirbúning skipta um kyn. Koma ætti fram við þá af sömu virðingu og aðra borgara, gyðinga og múslima, konur og karla, ríka og fátæka. En til væru karlar, sem skilgreindu sig sem konur án þess að vera það til þess að geta staðið uppi sem sigurvegarar í kvennaíþróttum. Venjulegu fólki félli ekki þessi misnotkun á frelsinu, sem væri auk þess kostnaðarsöm.

 

Comments Off

Stjórnspeki Snorra Sturlusonar

Hið íslenska bókmenntafélag gaf 23. september 2025, á dánardægri Snorra Sturlusonar, út ritið Stjórnspeki Snorra Sturlusonar eins og hún birtist í Heimskringlu eftir Sigurð Líndal, prófessor í lögum og einn margfróðasta háskólakennara tuttugustu aldar á Íslandi, arftaka Sæmundar fróða, Ara fróða, Styrmis fróða og Arngríms lærða. Ritið, sem er 134 bls., birtist fyrst í Úlfljóti, tímariti laganema árið 2007. Snorri Sturluson (1179–1241) er talinn höfundur þriggja stórmerkra verka, Eddu, aðalheimild okkar um átrúnað fornmanna, Heimskringlu, sögu Noregskonunga fram í lok tólftu aldar, og Egils sögu, um hinn stórbrotna skáldvíking Egil Skallagrímsson. Snorri var einn voldugasti og auðugasti maður sinnar tíðar og tvisvar lögsögumaður, en einn keppinautur hans um völd lét taka hann af lífi í Reykholti 23. september 1241 með leyfi Noregskonungs, sem var honum reiður fyrir að vilja ekki koma landinu undir konung. Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skrifaði formála, en prófessor emeritus Hannes H. Gissurarson sá um útgáfuna.

Í tilefni útkomunnar héldu Hið íslenska bókmenntafélag, Miðaldastofa, Lagastofnun Háskóla Íslands og RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, samkomu í Eddu, húsi íslenskra fræða, 23. september 2025. Tveir erlendir fyrirlesarar ræddu um framlag Snorra Sturlusonar og Sigurðar Líndals til laga og stjórnmála. Ditlev Tamm, prófessor emeritus í réttarsögu við Kaupmannahafnarháskóla, lýsti hinni fornu lagahefð, sem Sigurður hefði skrifað margt um, og benti á hliðstæðar hennar sunnar í álfunni, til dæmis í skilmálaskránni gullnu í Ungverjalandi árið 1222. Ein mikilvægasta regla þessarar lagahefðar væri Quod omnes tangit ab omnibus approbetur (Það, sem alla varðar, verða allir að samþykkja), en þessi regla varð í meðförum bandarísku byltingarmannanna árið 1776 að vígorðinu: Enga skatta án samþykkis, No taxation without representation. Það væri hins vegar álitamál, hversu mikið af hinni norrænu lagahefð væri upprunalegt og hversu mikið hefði skapast í þjóðernisrómantík nítjándu aldar.

Dr. Tom G. Palmer, alþjóðafulltrúi Atlas Network, sem er samband nær 600 hugveitna um allan heim, ræddi líka um regluna Quod omnes tangit ab omnibus approbetur, sem hann taldi eina helstu undirstöðu vestræns lýðræðis. Í pólsk-litáíska aðalsveldinu hét þessi regla Nic o nas bez nas, Ekkert um okkur án okkar. Palmer taldi í þessu felast, að lýðræði krefðist þátttöku manna í umræðum og um leið virðingu þeirra fyrir góðum og gegnum umræðuvenjum. Hann benti á, að sumt í hinni frægu ræðu Einars Þveræings í Heimskringlu minnti á kafla úr riti Ciceros, De officiis. Þar segir Einar, að konungar séu ójafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og sé því best að takmarka vald þeirra til að leggja á skatta og stunda hernað.

Fjörugar umræður urðu að loknum framsöguerindunum. Lilja Alfreðsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, rifjaði upp lýsingu rómverska sagnritarans Tacitusar í bókinni Germania á sjálfstjórn germanskra ættbálka og taldi íslenska þjóðveldið 930–1262 minna á hana. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, lagði áherslu á hina germönsku og engilsaxnesku arfleifð, sem Snorri Sturluson hefði vísað til í Heimskringlu, en þessi arfleifð hefði rekist á viðleitni konunga til að efla vald sitt. Snorri hefði staðið á krossgötum. Nú væri þessi arfleifð aftur orðin mikilvæg, þegar reynt væri að efla miðstýringu í Evrópu og koma landinu undir Brüssel-valdið. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, benti á, að Snorri hefði alist upp í Odda. Þess vegna mætti telja hann Oddaverja frekar en Sturlung. Velti hann fyrir sér, hvort Snorri hefði átt einhvern þátt í ritun Njáls sögu, sem væri einhver besta bók í heimi. Hannes H. Gissurarson, sem stjórnaði umræðum, kvað Snorra vissulega hafa ritað Egils sögu, en líklega hefði Sturla Þórðarson, frændi hans, ritað Njáls sögu. Mikill munur væri á hinni óvinsamlegu afstöðu til konunga í Egils sögu og hinni tiltölulega vinsamlegu afstöðu til þeirra í Njáls sögu. Ólíkt Snorra hefði Sturla verið fylgismaður konungsvalds.

Húsfyllir var á málstofunni. Garðar Gíslason, fyrrverandi hæstaréttardómari, var fundarstjóri, en RSE styrkti útgáfu bókar Sigurðar. Að málstofunni lokinni bauð RSE til móttöku í Eddu, og um kvöldið fögnuðu aðstandendur bókinni í kvöldverði, þar sem Garðar Gíslason mælti fyrir minni Sigurðar Líndals og Hannes H. Gissurarson fyrir minni Snorra Sturlusonar. Frá v.: Haraldur Bernharðsson, Miðaldastofu, María Jóhannsdóttir, ekkja Sigurðar Líndals, Ditlev Tamm, prófessor emeritus Anna Agnarsdóttir, Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, hönnuður bókarinnar, Elisa Eyvindsdóttir, ritstjóri Úlfljóts, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus Ragnar Árnason, dr. Tom G. Palmer, Garðar Gíslason og Salka Sigmarsdóttir, ritstjóri Úlfljóts.

Daginn fyrir málstofuna birti Hannes H. Gissurarson grein í Morgunblaðinu um þær stjórnmálahugmyndir Snorra, sem enn væru í fullu gildi, vald háð samþykki, mótstöðurétt (sem nú væri rétturinn til að setja valdhafa af í frjálsum kosningum á nokkurra ára fresti, væri þess talin þörf), enga skatta án samþykkis og utanríkisstefnu, sem fæli í sér, að Íslendingar væru vinir erlendra höfðingja, en ekki þegnar þeirra.

 

 

Comments Off

Hannes um frjálshyggjuhugtakið

John Locke

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Gísla Freys Valdórssonar í hinu vinsæla hlaðvarpi hans, Þjóðmálum, 27. ágúst 2025. Þeir ræddu aðallega um, hvernig skilgreina ætti og rökstyðja frjálshyggju. Hannes benti á, að venjulega væri orðið notað um það hugmyndakerfi, sem þeir John Locke, David Hume og Adam Smith hefðu reist. Hann bætti við, að í rauninni næðu rætur frjálshyggjunnar þó miklu lengra aftur í tímann, til hinna fornu germönsku hugmynda um vald í höndum þjóðarinnar og mótstöðuréttinn, eins og Snorri Sturluson lýsti í Heimskringlu. Hannes kvað ríkið veita þrenns konar nauðsynlega þjónustu, að halda uppi lögum og reglu, að verja borgarana gegn hættum, jafnt að innan og utan, og að tryggja, að þeir, sem geta ekki séð sér farborða af eigin rammleik, fái lifað mannsæmandi lífi (þótt það fæli ekki í sér, að veita ætti fullhraustu fólki aðstoð). Líklega þyrfti ríkið ekki nema um fimmtán af hundraði vergrar landsframleiðslu til þess að geta veitt þessa þjónustu. Hannes minnti síðan á gamla vígorðið um, að skattlagning krefðist íhlutunarréttar hinna skattlögðu (no taxation without representation). Þetta merkti til dæmis, að óeðlilegt væri að skattleggja fyrirtæki, því að þau hefðu ekki kosningarrétt. Hannes taldi einu eðlilegu og réttlátu skattana vera flata skatt á tekjur eða neyslu (virðisaukaskatt). Til dæmis fæli fjármagnstekjuskattur í sér tvísköttun, eins og John Stuart Mill hefði einna fyrstur bent á, því að fjármagnstekjur væru tekjur af fjármagni, sem myndast hefði af tekjum eftir skatt, við sparnað og hagsýni. Með fjármagnstekjuskatti væri hinum sparsömu og hagsýnu refsað, en eyðsluklærnar verðlaunaðar.

Í þættinum rifjaði Hannes upp sögu Eiríks af Pommern, sem var konungur allra Norðurlanda snemma á fimmtándu öld. Árið 1429 hefði hann lagt á Eyrarsundstollinn, en hann urðu öll skip að greiða, sem leið áttu um Eyrarsund, ella urðu þau fyrir skothríð úr Krónborgarkastala. Síðar hefði hann verið afhrópaður og þá sest að á Gotlandi á Eystrasalti og gerst sjóræningi. Það væri hins vegar áleitin spurning, hvort einhver siðferðilegur munur væri á að heimta toll af skipum á siglingu um Eyrarsund og ræna skip á siglingu um Eystrasalt. Var tollurinn ekki skattlagning án íhlutunarréttar og því óbeinn þjófnaður, en sjóránin beinn þjófnaður? Hannes nefndi einnig, að breski heimspekingurinn G. E. M. Anscombe hefði haldið því fram, að meginverkefni stjórnmálaheimspekinnar væri að skýra út muninn á ríkinu og stigamannahópum (mafíum), en hvorir tveggja byðu fram vernd gegn gjaldi.

Hannes kvað muninn á frjálshyggju og sósíalisma sjást einna best á ólíkum viðhorfum til fátæktar. Frjálshyggjumenn vildu greiða leið manna út úr fátækt, fjölga tækifærum þeirra til að brjótast til bjargálna, en sósíalistarnir gera fátæktina bærilegri, en með því auðvelduðu þeir fólki að sitja föstu í fátækt. Frjálshyggjumenn vildu hjálp til sjálfshjálpar, land sjálfstæðra og vel stæðra einstaklinga. Hannes bætti því við, að helstu röksemdirnar fyrir einkaeignarrétti væru tvær. Hin fyrri væri, að það, sem allir ættu, hirti enginn um. Hin síðari væri, að garður væri granna sættir. Hannes kvaðst hlynntur einkaeignarrétti á náttúruauðlindum, að minnsta kosti þeim, sem hefðu lengi verið nýttar, en mikilvægasta auðlindin væri maðurinn sjálfur, kunnátta hans, þekking og vitneskja, enda sýndu rannsóknir, að þorri tekna væru vinnutekjur, en ekki afgjöld af auðlindum.

Comments Off

Hannes: Háskólinn á villigötum

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Hermanns Nökkva Gunnarssonar blaðamanns í Dagmálum, sjónvarpsþætti Morgunblaðsins, 22. ágúst 2025. Hannes gagnrýndi harðlega aðgerðaleysi Háskólans, eftir að nokkrir starfsmenn skólans ruddust inn á málstofu, sem ein stofnun Háskólans hélt í Þjóðminjasafninu 6. ágúst, og komu með öskrum og ópum í veg fyrir, að málstofustjórinn, Gylfi Zoëga, og fyrirlesarinn, Gil Epstein frá Ísrael, fengju að tala. Varð fyrir vikið að aflýsa málstofunni. Hannes sagði, að þessir ruddar hefðu ekki verið að mótmæla, eins og þeir hefðu fullan rétt á að gera, heldur hefðu þeir verið að ráðast á málfrelsi og rannsóknafrelsi þeirra, sem málstofuna héldu og sóttu. Akademískt frelsi væri auðvitað ekki aðeins frelsi undan stjórnvöldum, eins og sumir hefðu haldið fram, heldur líka frelsi undan auðjöfrum, sérhagsmunahópum og í þessu tilviki hávaðasömum ruddum. Hannes taldi líklegt, að óeirðaseggirnir hefðu ekki verið reknir áfram af sérstakri samúð með andstæðingum Ísraels. Miklu verra ástand væri í Súdan, þar sem ellefu milljónir manna hrektust um heimilislausir í landinu, en fjórar milljónir væru landflótta, jafnframt því sem annar aðili borgarastríðsins þar syðra væri að reyna að útrýma Alasítum, fámennum þjóðflokki í vesturhuta landsins. Upphlaupsmennirnir í Þjóðminjasafninu hefðu í raun verið reknir áfram af hatri á vestrænum gildum, til dæmis jöfnu frelsi allra, frjálsum markaði, stöðuveitingum samkvæmt hæfileikum, en ekki hörundslit eða kynferði, og vísindum sem frjálsri samkeppni hugmynda. Ísrael væri eina vestræna ríkið í Miðausturlöndum.

Margt bar á góma í þættinum. Hannes tók fram, að auðvitað væri hann hlynntur frjálsum flutningi fólks milli landa, svo framarlega sem innflytjendur væru reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum í viðtökulandinu og fylgja þar lögum. En Evrópuríkin hefðu síðustu árin tekið á móti fjölda fólks, sem væri andvígt vestrænum gildum. Þetta fólk vildi ekki viðurkenna jafnrétti kynjanna og væri vinnufælið og ofbeldishneigt. Evrópskir kjósendur kærðu sig ekki um, að slíkt fólk legði undir sig lönd þeirra, og ef stjórnmálaflokkar daufheyrðust við þeim skoðunum, þá yrði þeim ýtt til hliðar.

Hannes benti á, að tímamót hefðu orðið í síðustu þingkosningum á Íslandi, þegar róttæka vinstrið hefði ekki fengið einn einasta mann kjörinn. Það hefði haft fulltrúa á þingi allt frá 1937, þegar þrír þingmenn kommúnistaflokksins hefðu tekið þar sæti, og jafnan átt vís atkvæði 10–20 af hundraði kjósenda. Hannes benti einnig á, að hægrið hefði áður fyrr verið sameinað á Íslandi, en nú dreifðist það á fjóra flokka, Sjálfstæðisflokkinn, sem hefði snarminnkað, Miðflokkinn, Viðreisn og Flokk fólksins.

Hannes kvaðst vera að ljúka verkefni fyrir hugveituna New Direction í Brüssel, sýnisbók norrænnar frjálshyggju allt frá 946 (þegar Hákon góði skilaði til Norðmanna þeim landareignum, sem faðir hans hafði hrifsað af þeim) til 1945 (þegar prófessor Poul Andersen varði reglu gamla Grundtvigs, að frelsið væri frelsi Loka jafnt og Þórs). Kæmi bókin út síðar á þessu ári.

Comments Off

Hannes skrifar í Nordisk Tidskrift

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, birti grein í 2. hefti Nordisk Tidskrift árið 2025 um inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Norður-Atlantshafsbandalagið, NATO. Hann kvað allar fimm Norðurlandaþjóðirnar hafa fylgt utanríkisstefnu, sem hefði ráðist af raunverulegum hagsmunum þeirra. Ríki hefðu hagsmuni, en ættu ekki vini. Finnar hefðu orðið að sætta sig við þá staðreynd, að þeir hefðu átt voldugan og vægðarlausan nágranna, en enga raunverulega bandamenn. Svíar hefðu allt frá 1814 getað vegna legu sinnar forðast alla þátttöku í stríðum. Danmörk, Noregur og Ísland hefðu öll verið hernumin í seinni heimsstyrjöld, svo að íbúar þessara landa hefðu leitað eftir það til Bandaríkjanna um að tryggja öryggi sitt. En nú hefðu Rússar ráðist í annað sinn inn í Úkraínu, og það hefði breytt afstöðu Finna og Svía. Þessar þjóðir hefðu áttað sig á, að hlutleysi væri ekki lengur raunhæfur kostur. Atlantshafsbandalagið yrði að vera nógu öflugt til þess, að Rússar áræddu ekki að ráðast á neitt aðildarríki þess. Undan landi sæist síðan í Kínaveldi, sem biði færis. Kínverjar eyddu meira í vígbúnað en Evrópuríkin í Atlantshafsbandalaginu öll til samans. Innganga Finna og Svía í Atlantshafsbandalagið væri söguleg. Þetta væri í fyrsta sinn sem öll norrænu ríkin fimm væru í varnarbandalagi frá því, að Kalmarsambandið leystist upp árið 1523. Grein Hannesar er hér:

Grein Hannesar í Nordisk Tidskrift

Comments Off

Hannes: Rætur norrænnar frelsishefðar

Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands og rannsóknastjóri RNH, flutti erindi í sumarskóla hugveitunnar New Direction í Brüssel og frönsku hugveitunnar ISSE, en hann var haldinn í Chateu de Thorens í Efra-Savoie héraði í Frakklandi 30. júní til 4. júlí 2025. Ræddi hann um rætur frjálslyndrar íhaldsstefnu. Hann gerði greinarmun á suðrænni frjálshyggju, sem rekja mætti til Rómarréttarins og hugmynda heilags Tómasar af Akvínas, og norrænni frjálshyggju, sem ætti upptök sín í venjurétti germanskra ættbálka og sjálfstjórnarhugmyndum þeirra, en þeim hefði rómverski sagnritarinn Tacitus lýst þegar á fyrstu öld e. Kr., en franski heimspekingurinn Montesquieu síðan lofað þær (en hann kvað frelsið hafa fæðst í skógum Þýskalands).

Norræna frjálshyggju er að finna í verkum íslenska sagnritarans Snorra Sturlusonar (1179–1241), sem lýsti átökum milli norskra (og sænskra) konunga og þegna þeirra, en þeir hefðu fylgt fram tveimur meginreglum, að valdsmenn stjórnuðu í umboði þjóðar sinnar og að alþýða hefði rétt á að gera uppreisn, brytu valdsmenn gegn hinum gömlu, góðu lögum. John Locke nýtti þennan germanska (og engilsaxneska arf), þegar hann smíðaði heimspekikenningu úr þessum reglum og reyndi með henni að réttlæta Byltinguna dýrlegu í Bretlandi árið 1688, en hún var gerð til varnar fornum réttindum Breta gegn ásælnum konungum. David Hume betrumbætti síðan kenninguna með lýsingu sinni á réttlæti sem sjálfsprottnu viðbragð við tveimur staðreyndum mannlegrar tilveru, takmörkuðum náungakærleika og knöppum efnislegum gæðum. Adam Smith bætti við rökum fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum, en Edmund Burke andmælti tilraunum frönsku jakobínanna til að kollvarpa öllum siðum og stofnunum og reyna að reisa nýtt ríki eftir fræðilegum forskriftum í stað þess að styðjast við reynsluvit kynslóðanna.

Hannes rifjaði upp, að ellefu árum áður en Adam Smith birti hið mikla verk sitt um Auðlegð þjóðanna hefði finnskur prestur, Anders Chydenius (1729–1803), sem setið hefði á sænska stéttaþinginu, skrifað bækling, þar sem hann hefði fært fram sömu rökin fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum. Chydenius hefði einnig gegnt mikilvægu hlutverki í baráttunni fyrir málfrelsi og trúfrelsi í Svíþjóð. Sænskir frjálshyggjumenn hefði afhrópað konung árið 1809 og sett tiltölulega frjáls stjórnlög sama ár. Þeir efldu á nítjándu öld réttarríkið, afnámu iðngildi og flest höft á atvinnufrelsi og kusu árið 1866 þjóðþing í stað gamla stéttaþingsins. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Hagvöxtur varð ör í Svíþjóð árin 1870 til 1970, og landið varð eitt hið ríkasta í heimi.

Comments Off