Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Þórarins Hjartarsonar í hlaðvarpinu Ein pæling 25. september 2025. Þórarinn spurði, hvort Hannes hefði verið fyrsta íslenska fórnarlamb vælumenningarinnar (wokeism) og afturköllunarfársins (cancel culture), þegar hann hætti kennslu árið 2017. Heyrst hefði, að femínistar hefðu krafist þess, að hann viki úr kennslu. Hannes kannaðist ekki við það. Háskólayfirvöld hefðu ætíð komið óaðfinnanlega fram við sig og ekki tekið mark á neinu mögli öfgafemínista. Þau hefðu gert sér kleift að helga sig óskiptan rannsóknum, uns hann hefði farið á eftirlaun árið 2023. Hins vegar hefðu eflaust einhverjir samkennarar hans verið óánægðir með, að hann sótti klukkutíma langa deildarfundi mánaðarlega og hefði þá ósjaldan notið meiri þjálfunar sinnar í rökræðum en flestir þeirra hefðu haft úr sínum sænsku sveitaskólum. Það væri þó furðulegt, að þeir þyldu ekki að hlusta á önnur sjónarmið í fimm til tíu mínútur á mánuði. Þórarinn spurði, hverja hann teldi áhrifamestu stjórnmálaheimspekinga sögunnar. Hannes svaraði, að þeir væru Páll postuli, John Locke, Karl Marx og Friedrich A. von Hayek. Þá spurði Þórarinn, með hverjum þeirra Hannes hefði helst kosið að sitja að drykkju, og nefndi Hannes þá Robert Nozick og Milton Friedman, sem hefðu báðir geislað af gáfum og andríki.
Hannes kvað borgaralega flokka í Evrópu í kreppu. Kalda stríðinu hefði lokið með sigri Vesturveldanna, og umdeildasta tilraun tuttugustu aldar, sósíalisminn, hefði mistekist. Viðhorf hefðu því breyst og víglínur færst til. Borgaralegir flokkar hefðu ekki brugðist nógu skýrt við því, að skollið væri á menningarstríð, sem snerist um, hvort verja ætti hefðbundin vestræn gildi eins og málfrelsi, fundafrelsi, vinnusemi og framtakssemi fyrir vinstri sinnuðum iðjuleysingjum á bótum og erlendum hælisleitendum í leit að bótum. Landamæri ættu að vera opin fyrir duglegu og löghlýðnu fólki, en lokuð fyrir glæpalýð, öfgamúslimum og letingjum að snapa bætur. Í því sambandi gerði Hannes greinarmun á tvenns konar lýðstefnu, populisma: lýðhyllisstefnu, þar sem leitast væri við að fylgja vilja almennings, til dæmis um að halda uppi lögum og reglu, og lýðskrumsstefnu, þar sem reynt væri að finna óvini og telja fávísu fólki trú um, að kjör þess bötnuðu við að ráðast á þessa ímynduðu óvini.
Lögreglan í Reykjavík virtist vera fullkomlega gagnslaus, sagði Hannes. Hún vildi til dæmis ekki rannsaka hina einkennilegu fjársöfnun Semu Erlu Serder, sen hefði farið með sextíu milljónir í reiðufé til Egyptalands, væntanlega í því skyni að múta egypskum embættismönnum til að hleypa palestínskum hælisleitendum yfir landamærin frá Gasa. Hefði hún væntanlega með þessu brotið lög um opinberar fjársafnanir og bann við mútum. Hannes kvað koma sér á óvart, að Naji Asar, sem hefði reynt að stökkva af þingpöllum niður í fundarsal Alþingis, áreitt bandaríska ferðamenn og skvett rauðri málningu yfir fjölmiðlafólk, væri enn á landinu. Einnig væri sérkennilegt dæmið af Egypta einum, sem fengið hefði hæli sem samkynhneigt fórnarlamb ofsókna í heimalandi sínu, en síðan hefðu kona hans og fjórar dætur komið til landsins og hann að lokum hlotið dóm fyrir að berja dæturnar sundur og saman, af því að þær hefðu ekki verið nógu duglegar að læra kóraninn.
Hannes kvað nýtt fyrirbæri hafa litið dagsins ljós í menningarstríðinu. Það væri kostur manna á að skilgreina sig sér til hagsbóta út úr eigin hóp og inn í einhvern annan hóp. Auðvitað væru til raunverulegir öryrkjar og sjálfsagt að gera vel við þá. En til væru menn, sem skilgreindu sig sem öryrkja án þess að vera það og færu á örorkubætur í stað þess að vinna eins og annað fólk. Auðvitað væru líka til menn, sem vildu eftir rækilega umhugsun og vandlegan undirbúning skipta um kyn. Koma ætti fram við þá af sömu virðingu og aðra borgara, gyðinga og múslima, konur og karla, ríka og fátæka. En til væru karlar, sem skilgreindu sig sem konur án þess að vera það til þess að geta staðið uppi sem sigurvegarar í kvennaíþróttum. Venjulegu fólki félli ekki þessi misnotkun á frelsinu, sem væri auk þess kostnaðarsöm.