Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var heiðursgestur á hinum árlega kvöldverði Þjóðmála, þar sem framsæknum leiðtogum í atvinnulífinu eru jafnan veitt verðlaun. 270 manns sátu kvöldverðinn, sem haldinn var í Hvalasafninu á Fiskislóð, og var fjöldi fólks á biðlista. Í upphafi söng karlakórinn Fóstbræður nokkur ættjarðarlög. Gísli Freyr Valdórsson, umsjónarmaður hins vinsæla hlaðvarps Þjóðmála, setti samkomuna og kvað brýnt nú sem fyrr að mæla fyrir frjálsu atvinnulífi. Stefán Einar Stefánsson, guðfræðingur og blaðamaður, var veislustjóri og gerði nokkurt gys að skattagleði núverandi valdhafa. Í stuttri hátíðarræðu sinni sló Hannes á létta strengi, sagði gamansögur af sjálfum sér, Bjarna Benediktssyni eldri, Freymóði Jóhannssyni, Davíð Oddssyni, Ludwig von Mises og samkennurum sínum í stjórnmálafræði, sem hefðu ekki beinlínis verið hrifnir af því, þegar hann var skipaður lektor sumarið 1988. Hefði margt spaugilegt gerst á deildarfundum.
Hannes kvað vel eiga við, að veislan væri haldin í Hvalasafninu, því að hann fylgdi fordæmi hvalanna og hyrfi á suðlægari slóðir, þegar vetur gengi í garð. Hér væru menn að dreypa á víni, og þá kæmust þeir að því, sem Tómas Guðmundsson hefði sagt, að áfengið gerði engum manni mein að fyrra bragði. Stundum fylgdu víndrykkju að vísu timburmenn, en einn vinur sinn, Jón E. Ragnarsson hæstaréttarlögmaður, hafði ákveðið að gefa timburmönnum aldrei neitt færi á sér. Hannes kvaðst eiga marga nafna, því að nafn sitt væri hið sama og Jón, Jóhann og Jóhannes, og í lok ræðunnar fór hann með kvæðið um daginn eftir nafna sinn, prófessor Jón Helgason:
Við hliðið mitt ég heimanbúinn stend.
Á himni ljómar dagsins gullna rönd.
Sú gjöf mér væri gleðilegust send,
að góður vinnudagur færi í hönd.
Síðan fór hann með kvæðið um kvöldið eftir annan nafna sinn, Hannes Hafstein ráðherra:
Lífið er stutt,
dauðinn þess borgun.
Drekkum í kvöld,
iðrumst á morgun.
Í kvöldverðinum tók Lárus Ásgeirsson við verðlaunum fyrir hönd Laxeyjar (bjartasta vonin), Þorsteinn Már Baldvinsson við verðlaunum fyrir hönd Samherja (heiðursverðlaun), hjónin Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer fyrir hönd Skógarbaða (kaupmenn ársins) og Jón Guðni Ómarsson fyrir hönd Íslandsbanka (samfélagsverðlaun). Þótti samkoman takast hið besta.
