Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var gestur Sigurðar Más Jónssonar í Skattaspjallinu, hlaðvarpi Samtaka skattgreiðenda, 14. nóvember 2025. Hann kvað eina fyrirmynd vera til í skattamálum, og hún væri Sviss, þar sem skattgreiðendur þyrftu að samþykkja alla nýja skatta í atkvæðagreiðslum, en einstakar kantónur stunduðu einnig skattasamkeppni sín í milli. Hannes nefndi líka, að James M. Buchanan, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefði giskað á, að líklega þyrfti ríkið ekki nema 15% af landsframleiðslu til að standa undir þeirri þjónustu, sem það þyrfti að veita, enda ætti ríkið ekki að gera annað en það, sem einstaklingarnir og frjáls samtök þeirra gætu ekki gert, en það væri aðallega að halda uppi lögum og reglu og aðstoða þá fáu, sem ekki gætu séð sér farborða af eigin rammleik.
Hannes minnti á ellefta boðorðið, eins og Milton Friedman hefði sett það fram: Þú skalt ekki gera góðverk þín á kostnað annarra. Vinstri menn vildu vissulega vera góðir, en þegar að væri gáð, vildu þeir einmitt vera góðir á annarra kostnað. Þeir væru ekki eins og miskunnsami Samverjinn, sem hefði gert góðverk sitt á eigin kostnað. Vinstrið einblíndi á skiptingu verðmætanna, en hirti ekkert um sköpun þeirra. Atvinnulífið gæti þó aðeins vaxið og lífskjör batnað, ef og þegar verðmæti væru sköpuð. Karl Marx hefði skipt fólki í tvær stéttir, fjármagnseigendur og verkalýð, borgara og öreiga, en horft fram hjá ómetanlegu framlagi manna, sem lifðu aðallega af því að selja þekkingu sína, ekki aðeins sérfræðinga eins og lækna og verkfræðinga, heldur líka og raunar aðallega frumkvöðla og áhættufjárfesta. Nýsköpun yrði aðallega með samstarfi frumkvöðla og áhættufjárfesta, en ekki með opinberum aðgerðum.
Hannes sagði, að vinstrið væri rekið áfram af óánægju og öfund. Ragnar í Smára hefði einu sinni sagt, að öfundin væri svo sterkt afl, að Íslendingar þyrftu ekki að virkja fallvötnin, tækist þeim að virkja öfundina. Vinstrinu hefði mistekist að ná völdum á Vesturlöndum af þeirri einföldu ástæðu, að sósíalisminn gengi ekki upp. En það hefði bætt sér það upp með því að ná völdum á fjölmiðlum og í skólum. Hægrið væri líka að breytast. Það hefði stutt fjórfrelsið, hindrunarlausan flutning fjármagns, vöru, þjónustu og vinnuafls yfir landamæri. En nú streymdu til Evrópu múslimar, sem aldir væru upp við ofbeldismenningu og höfnuðu þeirri vestrænu hugmynd, að menn yrðu að sjá fyrir sér sjálfir í stað þess að þiggja bætur úr hendi skattgreiðenda. Hægrið yrði því að hafna hömlulausum innflutningi fólks, þótt auðvitað ætti að bjóða velkomna vinnufúsa, heiðarlega og löghlýðna innflytjendur.
Sigurður Már vakti athygli á því, að Hannes væri orðinn víðförull og vinsæll fyrirlesari. Hannes svaraði því til, að hann væri svo sannarlega ekki spámaður í eigin föðurlandi, en hann hefði gott samband við evrópska hægrið. Hefði hann verið beðinn um að skrifa ófáar skýrslur og bækur fyrir það og boðinn á fundi og ráðstefnur á þess vegum. Hefði hann einbeitt sér síðustu ár að því að kynna norræna frjálshyggju, eins og hún birtist í verkum Snorra Sturlusonar, Andersar Chydeniusar og N. F. S. Grundtvigs, fyrir öðrum.
