Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, sótti fund Mont Pelerin samtakanna í Marrakesh í Marokkó 7.–10. október 2025. Samtökin voru stofnuð að frumkvæði Friedrichs A. von Hayeks í apríl 1947, en á meðal stofnfélaga voru Milton Friedman, George J. Stigler og Maurice Allais, sem allir áttu eftir að hljóta Nóbelsverðlaun í hagfræði. Aðrir kunnir stofnfélagar voru Frank H. Knight, faðir Chicago-skólans í hagfræði, Ludwig von Mises, faðir austurríska hagfræðingaskólans, heimspekingarnir Karl R. Popper frá Bretlandi og Bertrand de Jouvenel frá Frakklandi, stjórnmálafræðingurinn Herbert Tingsten og hagfræðingurinn Eli F. Heckscher frá Svíþjóð og hagfræðingarnir Trygve Hoff frá Noregi og Luigi Einaudi frá Ítalíiu (forseti Ítalíu 1948–1955). Skömmu eftir stofnunina gerðust félagar Ludwig Erhard, höfundur þýska efnahagsundursins, og Reinhard Kamitz, höfundur austurríska efnahagsundursins. Á níunda og tíunda áratug gerðust aðrir sigursælir umbótamenn félagar, þar á meðal Sir Roger Douglas og Ruth Richardson frá Nýja Sjálandi, Vaclav Klaus frá Tékklandi og Mart Laar frá Eistlandi. Nokkrir Nóbelsverðlaunahafar hafa einnig verið félagar, í hagfræði þeir Gary Becker, Ronald H. Coase, James M. Buchanan og Vernon L. Smith, allir frá Bandaríkjunum, og í bókmenntum Mario Vargas Llosa frá Perú. Áhrifamiklir rithöfundar voru einnig félagar, þar á meðal Otto von Habsburg, ríkisarfi Austurríkis-Ungverjalands 1916–1918, og Henry Hazlitt frá Bandaríkjunum. Markmið samtakanna var og er að vera vettvangur rökræðu um lögmál frelsisins, mið og mörk. Hannes sótti sinn fyrsta fund samtakanna í Stanford árið 1980 að boði Hayeks, var kjörinn félagi árið 1984 og sat í stjórn samtakanna 1998–2004.
Fundurinn í Marrakesh var haldinn á Es Saadi gistihúfinu, og yfirskrift hans var: Að frjálshyggjan nái til nýrra hópa. Forseti samtakanna, prófessor Deirdre McCloskey, flutti ávarp á opnunarkvöldverðinum. Málstofur voru um ýmis efni, þar á meðal frjálshyggju í menningarlegri sköpun, samband íslams og atvinnufrelsis og verkefni stuðningsmanna hins opna skipulags. Yfir hádegisverði á fundinum skiptust þeir dr. Peter J. Boettke og dr. Nils Karlson á skoðunum um, hvort frjálshyggja væri að stefna í rétta átt. Prófessor Gabriel Calzada, fyrrverandi forseti samtakanna, flutti ávarp í lokakvöldverðinum, sem fór fram í Soleiman höllinni. Hin svokallaða Chatham House regla gildir um fundi Mont Pelerin samtakanna, að óheimilt sé að vitna beint í ræðumenn. Þeir dr. Nouh El Harmouzi frá Arabísku rannsóknarstofnuninni í Marokkó og Michel-Kelly Magnon frá Efnahagsstofnuninni í Montreal höfðu veg og vanda af fundinum, sem tókst hið besta. Síðasta dag fundarins skoðuðu gestir Marrakesh og gengu um í Bahia höllinni, þar sem landstjórar Frakka bjuggu um skeið.
Hannes notaði tækifærið á fundinum til að heilsa upp á nokkra Íslandsvini, sem haldið hafa erindi í Reykjavík, þar á meðal dr. Eamonn Butler frá Adam Smith Institute í Lundúnum, dr. Barbara Kolm frá Austrian Economics Center í Vínarborg, Dr. Phillip Magness frá Independent Institute í Oakland, dr. Tom Palmer frá Atlas Network í Washington-borg, dr. Nils Karlson frá Ratio Institute í Stokkhólmi, prófessor Alberto Mingardi frá IULM háskóla í Mílanó og Terry Anker frá Liberty Fund, Indianapolis. Eitt kvöldið var laust, og þá skruppu norrænu þátttakendurnir á veitingastað, allir frá Svíþjóð nema Hannes. Frá v.: Susanne Karlson, André Dammert, prófessor Lotta Stern, prófessor Hannes H. Gissurarson, dr. Nils Karlson, Anders Ydstedt og prófessor Carl-Gustaf Thulin.