Chydenius norrænn frumherji frjálshyggju

Sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius setti fram svipaðar hugmyndir og Adam Smith í riti, sem kom út ellefu árum áður en Smith gaf út Auðlegð þjóðanna, segir dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, í ritgerð um Chydenius, en hún var seinni hlutinn í verki hans um frumherja norrænnar frjálshyggju, og var fyrri hlutinn um Snorra Sturluson. Birtist verkið í sænska tímaritinu Svensk Tidskrift 8. nóvember 2019. Chydenius fæddist árið 1729 og var prestur í Finnlandi, en kjörinn á stéttaþingið sænska 1765–1766. Þar beitti hann sér fyrir því, að einokun nokkurra borga á verslun í Norður-Finnlandi væri afnumin og að ritskoðun í sænska konungdæminu, sem þá náði líka til Finnlands, væri felld niður. Var hvort tveggja framkvæmt. Einnig gaf hann út nokkra ritlinga til stuðnings viðskiptafrelsi, þar á meðan Þjóðarhag (Den nationaalle Winsten), þar sem hann kvað atvinnulífið leita eðlilegs jafnvægis, ef hver og einn fengi óáreittur að keppa að sínum markmiðum. Eiginhagsmunagæsla gæti þannig farið saman við þjóðarhag. Chydenius var hins vegar andvígur hvers konar sérréttindum og fríðindum einstakra stétta eða hópa. Þegar hann sat aftur á stéttaþinginu 1778 barðist hann fyrir auknum réttindum vinnufólks. Hann stakk einnig upp á því, að Lapplandi yrði breytt í fríverslunarsvæði til að laða þangað að fólk. Chydenius lést árið 1803.

Í ritgerðinni skrifar Hannes líka um andlega arftaka Chydeniusar, en traust og blómleg frjálshyggjuhefð er í Svíþjóð. Stjórnmálaskörungurinn Johan August Gripenstedt (1813–1874) beitti sér til dæmis fyrir víðtækum umbótum í frjálsræðisátt árin 1866–1876. Sænsku hagfræðingarnir Gustav Cassel (1866–1845) og Eli Heckscher (1879–1952) var heimskunnir fræðimenn og ákveðnir stuðningsmenn viðskiptafrelsis. Var Heckscher einn af stofnendum Mont Pelerin samtakanna 1947. Á meðan jafnaðarmenn voru hvað öflugastir í Svíþjóð, var hagfræðingurinn Sven Rydenfelt (1911–2005) rödd hrópandans í eyðimörkinni. Setur Hannes fram þá skoðun, að velgengni Norðurlanda sé ekki að þakka jafnaðarstefnu eða endurdreifingu fjármuna, heldur hvíli hún á þremur meginstoðum, réttarríki, opnu hagkerfi og samheldni í krafti samleitni.

Comments Off

Hannes: Ætti Úkraína að ganga í EES?

Með auknum frjálsum alþjóðaviðskiptum hefur orðið hagkvæmara en áður að reka smærri stjórnmálaeiningar, því að þær njóta eftir sem áður góðs af alþjóðlegri verkaskiptingu, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, á Frelsisvettvangi ECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, í Kænugarði í Úkraínu 7.–10. nóvember 2019. Það hljómaði eins og þversögn, en væri deginum ljósara, að samrunaþróun í efnahagsmálum auðveldaði sundrun ríkja. Sérstakar þjóðir vildu líka stofna eigin ríki: Noregur hefði skilið við Svíþjóð, Ísland við Danmörku, Slóvakía við Tékkland og Úkraína við Rússland, af því að Norðmenn eru ekki Svíar, Íslendingar ekki Danir, Slóvakar ekki Tékkar og Úkraínumenn ekki Rússar. Þess vegna hefði sjálfstæð Úkraína í senn verið hagkvæm og eðlileg. Vandinn við smærri stjórnmálaeiningar væri hins vegar í öryggismálum. Hvernig gæti Úkraína tryggt öryggi sitt gagnvart voldugum og ásælnum granna í norðri? Það svar lægi beinast við, að Úkraína héldi uppi öflugum herafla og torveldaði þannig árásir og ásælni.

En líka væri til önnur leið, sagði Hannes: Hún væri að breyta Rússlandi innan frá með því að veita því gott fordæmi utan frá, svipað og Hong Kong hefði gert gagnvart Kína. Úkraína þyrfti að verða blómlegt ríki, og ráðin til þess væru gamalkunn: að efla atvinnulífið, selja ríkisfyrirtæki, lækka skatta, greiða upp ríkisskuldir, dreifa valdinu, veita skapandi einstaklingum svigrúm og opna hagkerfið. Þetta hefði verið gert á Íslandi árin 1991–2004, og þess vegna hefði hagkerfið verið nógu sterkt til að standast bankahrunið 2008 og rétta tiltölulega fljótt við. Menn hefðu áhyggjur af stjórnmálaspillingu í Úkraínu og eflaust ekki að ástæðulausu, bætti Hannes við. En spillingu mætti minnka með því að flytja ákvarðanir frá skriffinnum og stjórnmálamönnum til einkaaðila, sem rækju fyrirtæki sín á eigin ábyrgð. Ef Úkraínumenn mætu það svo, að ekki væri tímabært að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu, þá gætu þeir hugsanlega látið sér nægja að sinni að ganga í EES, Evrópska efnahagssvæðið, eins og Ísland hefði gert. Þótt Ísland og Úkraína væru ólík um margt, væru þau bæði lönd á útjaðri Evrópu.

Anna Fotyga, Evrópuþingmaður frá Póllandi og fyrrverandi utanríkisráðherra lands síns, setti ráðstefnuna í Kænugarði og kvaðst vera mjög áhugasöm um nánara samstarf Úkraínu og annarra Evrópulanda. Mústafa Dzhemílev, leiðtogi Krím-tatara, veitti viðtöku frelsisverðlaunum ECR, en á meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni voru Oleksíj Gontsjarenko, þingmaður á Úkraínuþingi, og James Wharton, fyrrverandi ráðherra í bresku ríkisstjórninni og kosningastjóri Borisar Johnsons í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins. Þátttaka Hannesar í ráðstefnu ECR var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „blágrænan kapítalisma“.

Comments Off

Var Snorri Sturluson frumherji norrænnar frjálshyggju?

Sænska tímaritið Svensk Tidskrift birti 1. nóvember ritgerð eftir dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóra RNH, og er hún fyrri hlutinn í verki um frumherja norrænnar frjálshyggju. Var ritgerðin um Snorra Sturluson sagnritara, höfund Eddu, Heimskringlu og Egils sögu. Hannes kvað margar stjórnmálahugmyndir, sem John Locke og fleiri frjálshyggjuhugsuðir áttu síðar eftir að færa í kerfisbundinn búning, vera að finna í Heimskringlu og Egils sögu: Lögin ættu ekki að vera fyrirmæli að ofan, heldur sammæli alþýðu manna; konungar stjórnuðu með samþykki þegna sinna, en ekki af guðlegri náð; þannig hefði orðið til eins konar sáttmáli konungs og þegna, sem væru lausir mála, ryfi hann konungur. Þessar hugmyndir væru settar skýrt fram í tveimur frægum ræðum Heimskringlu, sem sænski lögmaðurinn Þórgnýr og íslenski bóndinn Einar Þveræingur fluttu, en þar segði Snorri hug sinn. Ályktun Einars Þveræings hefði síðan verið, þar eð konungar væru misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, að best væri að hafa engan konung. Þetta hefði Adam frá Brimum orðað svo, að Íslendingar hefðu ekki annan konung en lögin.

Hannes varpaði einnig fram þeirri hugmynd, að Íslendinga sögur hefðu verið færðar í letur sem eins konar viðbragð við ásælni Noregskonungs, sem tók að gæta um og upp úr 1220. Hefðu Íslendingar viljað marka sérstöðu sína gagnvart Norðmönnum. Egils saga væri til dæmis um deilur norsku konungsættarinnar við Egil Skallagrímsson, föður hans og afa. Sigurður Nordal hefði réttilega bent á, að Egill hefði verið „fyrsti einstaklingurinn“, með sérstakt svipmót og ekki skilgreinanlegur einvörðungu af uppruna sínum. Ritgerð Hannesar vakti mikla athygli í Svíþjóð, og mælti Svenska Dagbladet með henni 9. nóvember á leiðarasíðu sinni. Seinni hlutinn í verki Hannesar er um Anders Chydenius og birtist eftir viku.

Comments Off

Þrír fyrirlestrar á næstunni

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, flytur þrjá fyrirlestra erlendis næstu daga. Í Kænugarði ræðir hann 8. nóvember um frjáls alþjóðaviðskipti og vanda Úkraínu. Færir hann rök fyrir því, að við frjáls alþjóðaviðskipti geti stjórnmálaeiningar smækkað, þar sem þær geti nýtt sér kosti hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar, enda hafi sú orðið raunin á. Þess vegna hafi ekki verið óhagkvæmt fyrir Noreg að skilja við Svíþjóð, Ísland við Danmörku og Úkraínu við Rússland. Vilji Úkraínumenn fara varlega í skiptum við sína voldugu granna í norðri, þá gæti verið skynsamlegur kostur fyrir þá að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, í stað þess að ganga í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið. Aðildin að EES hafi í meginatriðum verið Íslendingum hagkvæm.

Hayek flytur fyrirlestur á Íslandi 5. apríl 1980.

Í Vínarborg 13. nóvember ræðir Hannes um rætur sumra stjórnmálahugmynda Friedrichs von Hayeks í hagfræðikenningum Carls Mengers. Báðir leggi þeir Menger og Hayek áherslu á, að markaðurinn sé þróun, en ekki niðurstaða, þessi þróun taki tíma og sé undirorpin áhættu og óvissu. Menger taldi eitt helsta rannsóknarverkefni félagsvísinda vera, hvernig stofnanir og venjur gætu sprottið upp, án þess að nokkur hefði skapað þær, og haft góð (eða vond) áhrif. Nefndi hann í því sambandi málið, venjurétt, peninga og markað. Hayek er honum sammála, en spyr, hvernig hin fjölbreytta og farsæla menning Vesturlanda hafi skapast þrátt fyrir drjúgar takmarkanir einstaklingsbundinnar skynsemi. Svar hans er, að í frjálsu hagkerfi geti menn nýtt sér þekkingu hver annars og um leið með tilgátum og tilraunum, höppum og glöppum, skapað nýja þekkingu. Hayek kom til Íslands 1980, flutti tvo fyrirlestra og hafði mikil áhrif.

Í Poitiers 15. nóvember ræðir Hannes um útkomu hins umdeilda rits Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, réttu nafni Richard Krebs, á Íslandi árið 1941. Íslenskir kommúnistar hömuðust gegn ritinu, sem lýsti erindrekstri Krebs fyrir Alþjóðasamband kommúnista, aðallega á öndverðum fjórða áratug. Háðu Halldór Kiljan Laxness og Benjamín Eiríksson harða ritdeilu um málið, en Hannes greinir frá leyndarmáli, sem þeir geymdu báðir og nær einir. Kommúnistum tókst að koma í veg fyrir, að MFA, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, gæfi út seinni hluta ritsins, og gáfu „Nokkrir félagar“ það loks út árið 1944. Almenna bókafélagið endurútgaf bókina árið 2015. Í rannsóknum sagnfræðinga hefur komið í ljós, að margt af því, sem Valtin fullyrti og þótti á sínum tíma ótrúlegt, fær staðist, til dæmis að íslenskir kommúnistar á skipum Eimskipafélagsins smygluðu leyniskjölum á milli landa fyrir Komintern.

Þátttaka Hannesar í fyrri ráðstefnunum tveimur er liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Blágrænan kapítalisma“, en í þriðju ráðstefnunni í öðru samstarfsverkefni með sama aðila um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments Off

Evrópuvettvangurinn: Kamiński endurkjörinn formaður

Pólski sagnfræðingurinn dr. Łukasz Kamiński var endurkjörinn forseti Evrópuvettvangs um minningu og samvisku á ársfundi hans 3.–6. nóvember 2019, sem haldinn var í Tirana International Hotel í Tirana, höfuðborg Albaníu. RNH er aðili að Evrópuvettvangnum, sem hefur þann tilgang að halda uppi minningu fórnarlamba alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnisma, með ráðstefnum, útgáfu og annarri starfsemi. Nýlega lýsti Evrópuþingið yfir sérstökum stuðningi við vettvanginn. Sat prófessor Hannes H. Gissurarson fundinn fyrir hönd RNH, en skipulagningu hans annaðist dr. Jonila Godole, forstöðukona Stofnunar um lýðræði, fjölmiðla og menningu í Albaníu, og fórst henni það vel úr hendi.

Mánudaginn 4. nóvember var farið til bæjarins Shkodra nálægt landamærunum við Svartfjallaland, en þar var miðstöð andstöðunnar við ógnarstjórn kommúnista 1944–1991. Gekk alræðisstjórn Envers Hoxha svo langt að lögleiða guðleysi og sprengja upp allar moskur og kirkjur landsins eða breyta þeim í kvikmyndahús, líkamsræktarstöðvar eða vörugeymslur. Í Shkodra var opnuð farandsýning um „Alræði í Evrópu“ og síðan haldið til þorpsins Fishta og snæddur hádegisverður í frægum veitingastað þar í grennd, Mrizi i Zanave.

Þriðjudaginn 5. nóvember fóru fram hefðbundin ársfundarstörf, og var skipulagsreglum vettvangsins breytt nokkuð til að auðvelda afgreiðslu mála og stjórnarmönnum fjölgað úr fimm í sjö. Síðan var haldin málstofa um varðveislu minninga í Albaníu og annars staðar í Evrópu. Eftir það var farið í „Hús laufanna“, sem var upphaflega mæðraheimili, en seinni hluta stríðsins hafði Gestapo aðsetur þar. Eftir valdatöku kommúnista haustið 1944 kom leynilögregla þeirra sér fyrir í húsinu, en nú er þar safn um kúgun þeirra. Voru þar sýnd hlerunarbúnaður, felumyndavélar og pyndingartæki alræðisstjórnarinnar. Um 34 þúsund manns sátu í fangelsi í tíð kommúnista, og um sex þúsund manns týndu lífi af þeirra völdum. Þar sem Albanir eru um tíu sinnum fleiri en Íslendingar, hefði það samsvarað röskum þrjú þúsund stjórnmálaföngum hér á landi og 600 dauðsföllum. Um kvöldið var matast í veitingahúsinu Millennium Gourmet Restaurant.

Miðvikudaginn 6. nóvember var málstofa um samstarf þýsku stofnunarinnar Konrad Adenauer Stiftung við samtök í Albaníu, sem hafa að markmiði að efla þar lýðræði. Þá fóru nokkrir forsvarsmenn vettvangsins, þar á meðal prófessor Hannes H. Gissurarson, á fund utanríkisnefndar Albaníuþings í þinghúsi borgarinnar, og urðu þar fjörugar umræður um uppgjörið við fortíðina í Albaníu og annars staðar. Sérstaklega lét þar að sér kveða þingmaðurinn Ralf Gjona, og mæltist honum vel. Þátttaka RNH í Evrópuvettvangnum er liður í samstarfsverkefni við ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments Off

Evrópuþingið styður Evrópuvettvanginn

RNH er aðili að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, sem heldur á lofti minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar, kommúnisma og nasisma, og hefur rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, haldið nokkra fyrirlestra á ráðstefnum vettvangsins og birt ritgerðir í útgáfuverkum hans. Evrópuþingið samþykkti 19. september 2019 ályktun um það, hversu mikilvægt væri fyrir framtíð Evrópu að minnast fórnarlamba alræðisstefnunnar, og skoraði á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að veita Evrópuvettvangnum stuðning. Evrópuþingið lagði í ályktuninni áherslu á minningardag fórnarlamba alræðisstefnunnar, 23. ágúst, en þann dag árið 1939 reyndu kommúnistar og nasistar að skipta með sér miklum hluta Evrópu með svokölluðum griðasáttmála Hitlers og Stalíns, sem undirritaður var í Moskvu og hleypti af stað heimsstyrjöldinni síðari.

Ársfundur Evrópuvettvangsins í Bled í Slóveníu 2018. Rannsóknastjóri RNH er 8. frá v.

 

Comments Off