Rætt var við rannsóknastjóra RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, í sjónvarpi og útvarpi 7. apríl 2021 í tilefni nýrrar bókar hans, Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf í árslok 2020 út í tveimur bindum. Andrés Magnússon átti langt viðtal við hann í Þjóðmálum, sjónvarpi Morgunblaðsins fyrir áskrifendur. Þar sagði Hannes, að hann teldi Friedrich von Hayek djúpsæjasta hugsuðinn af þeim tuttugu og fjórum, sem hann hefði skrifað um í bókinni. Hayek hefði eflt að rökum tvær voldugustu hugmyndir Adams Smiths, að eins gróði þyrfti ekki að vera annars tap og að skipulag þyrfti ekki alltaf á skipuleggjanda að halda. Hann hefði líka betrumbætt kenningu Ludwigs von Mises um, að sósíalisminn gengi ekki upp. Dreifing þekkingarinnar krefðist dreifingar valdsins. Hannes kvað eitt meginstef bókar sinnar vera, að frjáls markaður væri nauðsynlegt, en ekki nægilegt skilyrði frelsisins. Það yrði einnig að hvíla á siðferðilegum forsendum, virðingu fyrir fornum dygðum og arfhelgum verðmætum. Þar ættu orð eins og „sameign“ og „sálufélag“ við.
Bogi Ágústsson ræddi við Hannes í Speglinum í Ríkisútvarpinu. Hannes skýrði, hvers vegna kafli væri um Snorra Sturluson í bókinni. Snorri hefði komið orðum að þeim hugmyndum, sem John Locke hefði síðan notað til að verja byltinguna 1688, að sömu lög giltu um konunga og aðra og að uppreisn gegn þeim væri réttlætanleg, brytu þeir lögin. Í Heimskringlu væri lýst árekstri tveggja hugmynda um lög, að þau væru sammæli borgaranna eða fyrirmæli konunganna. Snorri hefði verið að segja hug sinn með ræðu Einars Þveræings. Það væri líka athyglisvert, að Egill Skallagrímsson, sem Sigurður Nordal kallaði fyrsta einstaklinginn, væri ein aðalsöguhetja Snorra. Íslendinga sögur hefðu ekki síst sprottið af þörf Íslendinga fyrir að skilgreina þjóðareðli sitt, eftir að ásælni Noregskonungs jókst. Mat á Snorra hefði litast um of neikvæðri afstöðu hins eindregna konungssinna Sturlu Þórðarsonar til hans.
Þórður Gunnarsson ræddi við Hannes í Markaðnum, viðskiptafréttum í sjónvarpi Fréttablaðsins. Hannes taldi vel geta verið, að vinstri bylgja væri risin meðal ungs fólks, en það hefði verið algengt áður fyrr, svo að enginn ætti að kippa sér upp við það. Hins vegar hefði verið sérstakt ástand í heiminum eftir fall sósíalismans um og eftir 1990. Sósíalistar hefðu verið sem lamaðir. Jafnframt hefðu stjórnmálamenn eins og Margrét Thatcher og Ronald Reagan tekið upp hugmyndir frjálslyndra hagfræðinga eins og Hayeks og Miltons Friedmans. Hannes kvaðst sammála Friedman um það, að forstjórar fyrirtækja ættu ekki að ráðstafa hagnaði þeirra að eigin geðþótta, heldur greiða hann út hluthöfunum, svo að þeir gætu valið um, hvert hann færi.