Bók um skatta og lífskjör á Netinu

RNH og AB (Almenna bókafélagið) hafa hafið endurútgáfu ýmissa rita, sem varða einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi, á Netinu í samstarfi við Atlas Network og ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna. Í ársbyrjun 2016 kom út bókin The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable eftir Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor, rannsóknastjóra RNH. Í janúar 2017 kom út eftir Hannes bókin Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Þar ræðir Hannes tvær helstu heimspekikenningarnar til varnar farsældarríkinu (eða velferðarríkinu, eins og það er kallað á verri íslensku), hugmyndir Hegels um almenna þátttöku borgaranna án útskúfunar einhvers hluta þeirra og áhyggjur Rawls af hinum verst settu. Hannes rökstyður, að „íslenska leiðin“, sem farin var á Íslandi undir forystu Davíðs Oddssonar 1991–2004, hafi fallið prýðilega að kenningum Hegels og Rawls. Útskúfun hafi verið minni en í flestum öðrum löndum vegna þess, að atvinnuleysi var hverfandi, fátækt óveruleg, lífeyrissjóðir öflugir og starfsaldur tiltölulega langur. Fátækasti hópurinn á Íslandi hafi notið betri kjara en í flestum öðrum löndum og átt þess kost að bæta kjör sín. Raunar hafi tekjur hinna tekjulægstu aukist hraðar á Íslandi á þessu tímabili en í öllum öðrum Evrópulöndum að hinum olíuauðga Noregi undanteknum. Hannes vekur athygli á gögnum frá Fraser stofnuninni í Kanada um alþjóðlegan samanburð á atvinnufrelsi, sem veita afdráttarlausa vísbendingu um, að hinir verst settu séu skár settir í frjálsum hagkerfum en öðrum. Þess vegna eigi jafnaðarmaður af ætt Rawls að vera hlynntur frjálsu markaðskerfi, alþjóðlegu viðskiptafrelsi og réttarríkinu. Hannes lýsir einnig árangrinum af verulegum og almennum skattalækkunum árin 1991–2004 og varar við skattahækkunum.

Comments Off

Tvær skýrslur eftir Hannes

Hugveitan New Direction í Brüssel gaf í árslok 2016 út tvær rækilegar skýrslur á ensku eftir Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði. Önnur nefnist In Defence of Small States og er 82 bls. Þar svarar Hannes þeim fræðimönnum, sem telja Ísland of lítið til að standa eitt sér, svo að það þurfi skjól frá stórveldum eða ríkjabandalögum. Hann rifjar upp, að Marx og Engels og fleiri, þar á meðal sagnfræðingarnir Alfred Cobban og Eric Hobsbawn, létu svipaðar skoðanir í ljós, en bendir síðan á, að rekstrarkostnaður smáríkja þurfi alls ekki að vera meiri á mann en stórra ríkja, meðal annars vegna þess að löggæsla sé ódýr í samleitum og friðsælum löndum og hernaðarumsvif minni. Hann leiðir einnig rök að því, að Íslendingar hafi ekki sótt neitt skjól í Noreg og Danmörku, heldur fest sig í gildru, þegar konungur gerði samkomulag við landeigendastéttina íslensku um að halda sjávarútvegi niðri og einoka utanríkisverslun. Hannes telur rök Jóns Sigurðssonar fyrir sjálfstæði Íslands í fullu gildi. Aðal veikleiki smáríkja sé hins vegar varnarleysi þeirra, en það þurfi að leysa með bandalögum við stærri ríki, ekki með því að afsala sér sjálfstæði. Mörg sömu stefin endurtekur Hannes í ritgerð á íslensku, sem birtist í vetrarhefti Þjóðmála 2016.

Hin skýrslan nefnist The Nordic Models og er 107 bls. Þar heldur Hannes því fram, að norrænu leiðirnar séu ekki aðeins jafnaðarstefna, eins og stundum sé sagt. Velgengni Norðurlanda kunni að vera þrátt fyrir, en ekki vegna hárra skatta og víðtækrar tekjujöfnunar. Hannes rekur hinar öflugu frjálshygguhefðir á Norðurlöndum allt frá átjándu öld og hið mikla framfaraskeið í Svíþjóð 1870–1970, en þá var hagvöxtur hvergi örari. Þetta skeið og sambærileg á öðrum Norðurlöndum áttu rætur í auknu atvinnufrelsi. Hannes telur velgengni Norðurlanda aðallega stafa af rammgerðu réttarríki, óheftum alþjóðaviðskiptum og samleitni þjóðanna. Hann lýsir einnig frjálshyggjuhefðinni á Íslandi, en höfundar tveggja fyrstu hagfræðirita á íslensku, Arnljótur Ólafsson guðfræðingur og Jón Þorláksson verkfræðingur, skrifuðu báðir í anda frjálshyggju. Hannes andmælir einnig ýmsum túlkunum á umbótaskeiðinu 1991–2004 og íslenska bankahruninu 2008. Við samningu skýrslunnar studdist Hannes meðal annars við rannsóknir Johans Norbergs á sænskri frjálshyggju, prófessors Peters Kurrild-Klitgaards á danskri og prófessors Øysteins Sørensens á norskri, en einnig við nýlegt rit Nima Samandaji um Norðurlönd. Hannes mun kynna helstu niðurstöður skýrslunnar á þingi APEE, Association of Private Enterprise Education, í aprílbyrjun á Maui, einni af eyjum Havaí.

Comments Off

Æviágrip Ólafs Björnssonar prófessors

Hannes H. Gissurarson ræðir við Ólaf Björnsson um frjálshyggju í Ríkisútvarpinu 12. nóvember 1978.

Út er komið í tímaritinu Andvara 2016 æviágrip Ólafs Björnssonar prófessors eftir Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóra RNH. Ágripið er alllangt, 63 blaðsíður. Hannes segir frá ættum Ólafs og æsku og námi hans í Menntaskólanum á Akureyri og Kaupmannahafnarháskóla, en Ólafur var annálaður námsgarpur. Hann lýsir áhuga Ólafs á róttækum stjórnmálahugmyndum á háskólaárunum og starfi hans í Kyndli, félagi róttækra stúdenta í Kaupmannahöfn. Við lestur rita þeirra Ludwigs von Mises og Friedrichs Hayeks gerðist Ólafur þó um það leyti fráhverfur sósíalisma. Sannfærðist hann um, að hagfelldasta skipulag atvinnumála hvíldi á dreifingu valdsins og frjálsum alþjóðaviðskiptum. Við áætlunarbúskap væri þekking og kunnátta einstaklinganna úti í atvinnulífinu ekki fullnýtt.

Þegar Ólafur Björnsson sneri að loknu hagfræðiprófi heim 1938, gerðist hann því einn beinskeyttasti gagnrýnandi haftabúskaparins, sem hér var rekinn af mestu afli 1930–1960. Einnig þýddi hann 1945 útdrátt úr Leiðinni til ánauðar eftir Hayek, og olli það hörðum blaðadeilum. Ólafur kenndi hagfræði í Viðskiptaháskólanum, síðar viðskiptadeild Háskólans, frá útmánuðum 1940 og allt þar til hann lét af starfi sjötugur 1982. Gaf hann út mörg merk fræðirit, þar á meðal stórvirkið Þjóðarbúskap Íslendinga. Hann sat jafnframt á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1956–1971. Árið 1978 kom út eftir hann stjórnmálaritið Frjálshyggja og alræðishyggja, sem hafði mikil áhrif á margt ungt fólk. Ólafur lést 1999 og lét eftir sig eiginkonu og þrjá syni. Ritgerð Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Æviágrip Ólafs Björnssonar.pdf

Comments Off

Þjónusta, þrælkun, flótti

Aatami Kuortti

Hinn 25. desember 2016 var réttur aldarfjórðungur liðinn frá því, að Ráðstjórnarríkin geispuðu golunni. Þann dag vék Míkhaíl Gorbatsjov úr stöðu sinni, og daginn eftir var hinn rauði fáni með hamar og sigð í horni dreginn í síðasta sinn niður í Kremlkastala. Af því tilefni endurútgaf Almenna bókafélagið nú merka heimild um Ráðstjórnarríkin sálugu, bókina Þjónusta, þrælkun, flótti eftir Aatami Kuortti. Hún kom fyrst út á vegum Kristilegs bókmenntafélags haustið 1938 í þýðingu séra Gunnars Jóhannessonar. Höfundur var prestur, finnskumælandi Ingríumaður, en Ingría eða Ingermanland er svæðið við Kirjálabotn milli Finnlands og Eistlands. Þjónaði séra Aatami þremur lúterskum söfnuðum í Ingríu 1927-1930. Hann var handtekinn fyrir að neita að veita leynilögreglu ráðstjórnarinnar upplýsingar um sóknarbörn sín og sendur í tíu ára þrælkunarvinnu í Kirjálalandi, Karelíu.

Eftir nokkurra mánaða vist í vinnubúðum tókst Kuortti að flýja, og gekk hann dag og nótt í átt til Finnlands, var tekinn höndum einu sinnum en slapp úr klóm leynilögreglunnar, og eftir tólf sólarhringa ferð um skóga og vötn Kirjálalands komst hann til Finnlands. Þar setti hann saman lýsingu á lífinu undir ráðstjórn, fangavist sinni og flótta í einföldu og látlausu máli og því áhrifamiklu. Kom bók hans út á finnsku 1934, sænsku 1935, dönsku 1937 og hollensku 1940. Hún var fyrsta bókin á íslensku eftir fanga í þrælkunarbúðum ráðstjórnarinnar, Gúlaginu. Svo vill til, að haustið 1938 komu út í Reykjavík tvær bækur um Ráðstjórnarríkin, bók Kuorttis og Gerska æfintýrið eftir Halldór Kiljan Laxness. Höfundarnir voru nálægt því að vera samtímamenn. Kuortti fæddist 1903, ári á eftir Laxness, og lést 1997, ári á undan skáldinu. Er fróðlegt að bera bækurnar tvær og efnistök höfunda saman í ljósi reynslunnar.

Bók Kuorttis er hin áttunda í röð endurútgefinna verka um alræðisstefnuna, en sú ritröð er þáttur í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Samtaka íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um „Evrópu fórnarlambanna“. Áður hafa komið út Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum eftir Jan Valtin (Richard Krebs), Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov (ásamt Erfðaskrá Leníns), El campesino — Bóndinn eftir Valentín González og Julián Gorkin, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng. Dr. Hannes H. Gissurarson prófessor skrifar formála og skýringar aftanmáls í allar bækurnar.

Comments Off

Aldarfjórðungur frá viðurkenningu Slóveníu

Zver flytur erindi sitt 2013. Fundarstjóri er Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. Ljósm.: Ólafur Engilbertsson.

Ísland varð 19. desember 1991 fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna Slóveníu, sem lýst hafði yfir sjálfstæði sínu og sagt sig úr Júgóslavíu 25. júní það ár. Áður höfðu Úkraína og Litáen viðurkennt hið nýja ríki. Af því tilefni birti rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, grein í Morgunblaðinu, þar sem hann ræddi um smáríki og þjóðríki. Tók hann undir skilgreiningu Ernests Renans á þjóð, að hún væri heild, sem vildi vera saman þjóð, og falla þá Íslendingar og Slóvenar hvorir tveggja undir skilgreininguna. Benti hann einnig á, að samrunaþróun á mörkuðum auðveldaði stofnun smáríkja, því að þau gætu nýtt sér kosti alþjóðlegrar verkaskiptingar og viðskipta. Því stærri sem einingarnar væru í viðskiptum, því smærri gætu þær orðið í stjórnmálum. Stór markaður og lítið ríki væru því ekki andstæður, heldur hliðstæður.

Slóvenski sagnfræðingurinn Dr. Andreja Zver hélt fyrirlestur á Íslandi 16. september 2013 um reynslu Slóvena af alræðisstefnunni, en um skeið stjórnuðu landinu á víxl fasistar, nasistar og kommúnistar. Eru enn að finnast fjöldagrafir í landinu frá þeim tíma. Zver er gift einum kunnasta stjórnmálamanni Slóveníu, Milan Zver, fyrrverandi menntamálaráðherra, sem situr á Evrópuþinginu. Grein Hannesar er liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments Off

Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits?

Út er komið nýtt þjóðmálarit Almenna bókafélagsins, Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits? eftir Björn Jón Bragason, sagnfræðing og lögfræðing. Þar er sagt frá Gjaldeyriseftirliti Seðlabankans, sem sett var upp til að fylgjast með því, að gjaldeyrishöftin eftir bankahrunið væru ekki brotin. Samkvæmt frásögn Björns Jóns var ráðið í eftirlitið ungt og óreynt fólk, sem hafði óskýra hugmynd um verkefni sín og valdheimildir. Það virtist halda, að það ætti helst að góma kaupsýslumenn og þyrfti við það ekki að fylgja settum lögum og reglum. Björn Jón lýsir þremur málum, þar sem Gjaldeyriseftirlitið beitti fólk hörðu, en reyndist síðan hafa gengið allt of langt: Aserta-málið, þar sem forstöðumaður Gjaldeyriseftirlitsins, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, kærði gamla vinnufélaga fyrir að fylgja ráðgjöf hennar sjálfrar, mál Heiðars Guðjónssonar fjárfestis, sem fékk að kenna á óvild Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og undirmanna hans, þegar Heiðar hugðist ásamt öðrum bjóða í Sjóvá, og Samherjamálið, þar sem gerð var að tilefnislausu húsleit hjá einu stærsta og myndarlegasta útgerðarfyrirtæki landsins, jafnframt því sem dómari veitti af vangá heimild til rannsókna á óskyldum erlendum fyrirtækjum.

Björn Jón spyr eins og Rómverjar að fornu: Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum? Almenna bókafélagið hefur gefið út fjögur þjóðmálarit, þar sem reyndir og ritfærir blaðamenn og sagnfræðingar hafa skrifað um ýmis eftirmál bankahrunsins: Árið 2012 kom út Icesave-samningarnir: Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann; árið 2013 Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefán Gunnar Sveinsson, sagnfræðing og blaðamann; árið 2015 Andersen-skjölin: Rannsóknir eða ofsóknir? eftir Eggert Skúlason, fyrrverandi ritstjóra DV; og nú bók Björns Jóns. RNH er einn af samstarfsaðilum AB.

Comments Off