Hannes: Hvers vegna var íslenska vinstrið smátt og róttækt?

Skopmynd eftir Halldór Pétursson af þremur ummyndunum íslenskrar kommúnistahreyfingar.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti fyrirlestur á ráðstefnu stjórnmálafræðinga í Háskóla Íslands 16. júní 2016. Hann var um það, hvers vegna íslenska vinstrið væri í senn smærra og róttækara en vinstrið á öðrum Norðurlöndum. (Með vinstrinu kvaðst Hannes eiga við jafnaðarmenn og sósíalista samtals: Þeir voru á 20. öld jafnan um þriðjungur kjósenda á Íslandi, en um helmingur kjósenda í Svíþjóð, Danmörku og Noregi.) Skýringin á því, að vinstrið var smærra, var eflaust sú að sögn Hannesar, að iðnþróun var hér skemmra á veg komin en á öðrum Norðurlöndum, þegar menn tóku að skiptast í flokka, jafnframt því sem hin sterka arfleifð sjálfstæðisbaráttunnar gerði vinstri flokkum erfitt fyrir.

En hvers vegna var íslenska vinstrið róttækara? Hvers vegna mynduðu sósíalistar stærri flokk en jafnaðarmenn? Því hefur verið haldið fram, að það hafi verið vegna þess, að þeir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason hafi verið snjallir foringjar. En Hannes kvaðst ekki vera viss um, að leiðtogar jafnaðarmanna, Jón Baldvinsson, Haraldur Guðmundsson, Stefán Jóhann Stefánsson og Emil Jónsson, hefðu verið lakari stjórnmálamenn.

Hann varpaði fram þeirri skýringu í fyrirlestrinum, að Sósíalistaflokkurinn væri ef til vill sambærilegri við Alþýðufylkinguna í Finnlandi en kommúnistaflokkana á öðrum Norðurlöndum. Til þess væru þrjár ástæður. Finnar og Íslendingar hefðu á öndverðri öldinni verið fátækari en hinar Norðurlandaþjóðirnar þrjár. Þessar tvær þjóðir hefðu byggt ný ríki, hið finnska stofnað 1917 og hið íslenska 1918. Og borgaralegt skipulag með sjálfsprottnu samstarfi og rótgrónum siðum og venjum hefði verið veikara í þessum tveimur löndum en í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Jarðvegur hefði því verið frjósamari fyrir frækorn byltingar og umróts.

Hannes benti einnig á, að íslenskir sósíalistar nutu verulegs fjárstuðnings frá Moskvu, jafnframt því sem Íslendingar hefðu verið og væru enn margir hrekklausir og hefðu ekki alltaf tekið byltingartal sósíalista alvarlega. Um það verði þó ekki deilt, sagði Hannes, að kommúnistaflokkurinn, sem starfaði 1930–1938, og Sósíalistaflokkurinn, sem starfaði 1938–1968, þótt hann byði ekki fram undir eigin merki nema til 1953, voru undir stjórn stalínista: Þeir beittu iðulega ofbeldi til að ná markmiðum sínum, og þeir voru í nánum tengslum við Kremlverja. Vísaði Hannes um það til bókar sinnar um íslensku kommúnistahreyfinguna. Alþýðubandalagið, sem var kosningabandalag 1956–1968 og stjórnmálaflokkur 1968–1998, hafði hins vegar haft tvíræðari afstöðu til heimskommúnismans. Það hafði engin opinber tengsl við kommúnistaflokk Ráðstjórnarríkjanna, en ræktaði hins vegar tengslin við ýmsa aðra kommúnistaflokka. Til dæmis var síðasta verk forystu Alþýðubandalagsins haustið 1998 að fara í boðsferð til kúbverska kommúnistaflokksins.

Fyrirlestur Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“, en tilgangurinn með því er að gleyma ekki orðum og gerðum kommúnista og annarra alræðissinna á 20. öld. Meðal annars er Hannes ritstjóri ritraðar, Safns til sögu kommúnismans, sem Almenna bókafélagið gefur út. Á meðal bóka, sem þegar eru komnar út, eru Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum eftir Jan Valtin (réttu nafni Richard Krebs) og Leyniræða Khrústsjovs 1956.

Comments Off

Hannes: Hvar á Ísland að vera?

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti fyrirlestur á málstofu Chicago Council on Global Affairs í Reykjavík 16. júní 2016. Hann bar heitið „Iceland’s Role in the World“. Hannes benti þar á, að fyrsti milliríkjasamningurinn var gerður 1022, um gagnkvæman rétt Íslendinga og Norðmanna. Ísland var skattland Noregskonungs og síðar Danakonungs frá 1262, en nærri gengið undir Englandskonung á fimmtándu öld. Englandskonungi var boðið landið þrisvar til kaups, 1518, 1524 og 1535, fyrir tæpar sjö milljónir Bandaríkjadala að núvirði, en hann hafði ekki áhuga, enda hafði hann þær spurnir af Íslendingum, að þeir dræpu iðulega sendimenn konunga.

Ísland var að sögn Hannesar að miklu leyti einangrað og lokað land frá 1490, þegar Píningsdómur var settur, og fram til 1855, þegar fullt verslunarfrelsi komst hér á. 1876 var síðasta árið, þegar útflutningur landbúnaðarafurða nam meira fé en sjávarafurða. Eftir það breyttist landið skjótt. Það var óvarið að kalla má, á meðan Danir réðu hér mestu, en í skjóli breska flotans 1814–1914. Bretar tóku í raun við stjórnartaumum hér 1914, en slepptu þeim strax að Norðurlandaófriðnum mikla loknum 1918. Þeir flýttu sér síðan að hernema landið 1940. Þeir vildu ekki áhrif eða ítök annarra stórvelda hér.

Hannes kvað bandarísku öldina í sögu Íslands hafa runnið upp 1941, þegar Bandaríkjamenn tóku að sér varnir landsins. Hún stóð allt til 2006. Þá hafði Ísland misst hernaðarlegt gildi sitt að dómi Bandaríkjamanna. Þegar fjármálakreppa reið yfir heiminn, veittu Bandaríkjamenn Svíum og Svisslendingum, sem aldrei höfðu stutt þá, ómetanlega aðstoð, en neituðu Íslendingum um slíka aðstoð með þeim afleiðingum, að bankarnir féllu. Bretar lokuðu tveimur breskum bönkum, Heritable og KSF, sem voru í eigu Íslendinga, en björguðu öllum öðrum breskum bönkum, sumum með leynilegum fjárframlögum eins og Alliance & Leicester, sumum með opinberri aðstoð, til dæmis RBS, HBOS og Bradford & Bingley. Jafnframt settu Bretar Landsbankann, Seðlabankann og fleiri íslenskar stofnanir á lista yfir hryðjuverkasamtök. Þessar aðgerðir þeirra voru í senn óþarfar og ódrengilegar, og taldi Hannes annarlegar hvatir hafa ráðið.

Hannes leiddi rök að því, að Íslendingar gætu valið um Atlantshafskostinn (samstarf við Noreg, Bretland, Kanada og Bandaríkin) og Evrópusambandskostinn (aðild að Evrópusambandinu). Ef til vill væri þó unnt að sameina þessa tvo kosti frekar en velja annan fram yfir hinn: 1) stunda áfram gagnkvæm viðskipti við lönd Evrópusambandsins, en líka við Bandaríkin, Kanada, Rússland, Kína og önnur lönd, 2) gera samninga við Breta eða Bandaríkjamenn um skiptanleika krónunnar, svo að Íslendingar lentu ekki í sömu sporum og 2008, 3) hafa varnarsamstarf við Noreg, Bretland, Bandaríkin og Kanada.

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, flutti einnig erindi á fundinum, og var það um ný viðhorf í öryggismálum í Norður-Evrópu. Kvað Björn aukna áreitni Rússa áhyggjuefni, ekki síst í Finnlandi, Svíþjóð og Eystrasaltslöndunum: Rússneskar orrustuþotur ryfu lofthelgi hvað eftir annað, og rússneskir kjarnorkukafbátar sigldu iðulega inn í lögsögu annarra ríkja. Daginn fyrir málstofuna sat Hannes kvöldverðarboð bandaríska sendiherrans, Roberts Barbers, með félögum í Chicago Council on Global Affairs. Þátttaka hans í málstofunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Hannes: Öflun tekna mikilvægari en dreifing þeirra

Hannes flytur erindi sitt í Rio de Janeiro.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti þrjá fyrirlestra á svæðisráðstefnum Estudantes pela liberdade, Samtökum frjálslyndra háskólastúdenta í Brasilíu, í apríl, 16. apríl í Rio de Janeiro, 23. apríl í Belo Horizonte og 30. apríl í háskólaborginni Santa Maria í fylkinu Rio Grande do Sul. Talaði hann í öll þrjú skiptin um umdeildar kenningar franska hagfræðingsins Tómasar Pikettys, sem krefst þungra skatta á hátekjufólk og stóreignamenn til að jafna tekjudreifingu. Hannes benti á, að Piketty hefði áhyggjur af því, að fólk yrði ríkt, en áður fyrr hefðu heimspekingar eins og John Rawls haft áhyggjur af því, að fólk væri fátækt. Flestir teldu fátækt böl, en velmegun ekki. Hnattvæðingin eða útfærsla alþjóðaviðskipta hefði haft þær tvær afleiðingar, að fámennur hópur fólks með einstæða hæfileika (hin frægu 1% Pikettys) gæti selt þá á miklu stærri markaði en áður og að hundruð milljóna manna hefðu brotist í bjargálnir í Indlandi og Kína. Því hefði tekjudreifingin sennilega orðið ójafnari á Vesturlöndum síðustu áratugi, en jafnari í heiminum sem heild. Hannes spurði líka, hvað væri að ójafnri tekjudreifingu, væri hún niðurstaðan úr frjálsu vali einstaklinganna. Ef Milton Friedman kemur til Íslands og selur inn á fyrirlestur, 10 þúsund krónur á mann, og 500 manns sækja fyrirlesturinn, þá verður tekjudreifingin ójafnari: Friedman er 5 milljón krónum ríkari og 500 einstaklingar 10 þúsund krónum fátækari. En allir eru ánægðir. Hvar er ranglætið?

Estudantes pela liberdade eru orðin mjög öflug samtök í brasilískum háskólum og hafa verið í fararbroddi í baráttu gegn landlægri spillingu. Fyrirlestrar Hannesar voru liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur HHG í Rio de Janeiro 16. apríl 2016

Comments Off

Atvinnufrelsi á Íslandi 930–2016

Hannes flytur erindi í Manhattanville College.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, sótti ráðstefnu um atvinnufrelsi í Manhattanville College í Purchase í New York-ríki 8.–9. apríl og flutti þar fyrirlestur um atvinnufrelsi á Íslandi 930–2016. Hann lýsti meðal annars stofnunum þjóðveldisins, frjálsu vali um goða og beitarréttindum í almenningum (ítölu). Einnig reyndi hann að svara þeirri spurningu, hvers vegna Íslendingar hefðu soltið öldum saman, þótt nægur fiskur spriklaði í sjó. Þá greindi hann íslenska kvótakerfið, en íslenskur sjávarútvegur er nú sjálfbær og arðbær ólíkt því, sem gerist víðast annars staðar. Hannes gaf á síðasta ári út bókina The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable hjá Háskólaútgáfunni. Einnig ræddi Hannes um markaðskapítalismann, sem fylgt var á Íslandi 1991–2004, og klíkukapítalismann og auðræðið, sem tók eftir það við fram að bankahruni 2008, og um eftirleikinn.

Á ráðstefnunni tók Hannes þátt í pallborðsumræðum um peningamál og starfsemi seðlabanka ásamt dr. Warren Coats, sem var lengi yfirmaður deildar sérstakra dráttarréttinda hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, dr. Arthur Gandolfi, sem var aðstoðarforstjóri Citibank, og prófessor James Lothian, Fordham-háskóla. Sagði Hannes þar frá reynslu sinni af því að sitja í bankaráði Seðlabanka Íslands 2001–2009 og hugleiðingum sínum um æskilegustu skipan peningamála í litlum og opnum hagkerfum. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Prófessor James Lothian, dr. Arthur Gandolfi, dr. Warren Coats og Hannes. Þeir Lothian og Coats luku báðir doktorsprófi í peningamálahagfræði undir umsjón Miltons Friedmans.

Glærur HHG í Manhattanville 8. apríl 2016

Comments Off

Ísland og engilsaxnesku stórveldin

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti fyrirlestur hjá Íslensk-ameríska viðskiptaráðinu í New York 7. apríl. Var hann um Ísland og engil-saxnesku stórveldin. Hannes rakti samskipti Íslendinga og Breta, allt frá því að fyrstu ensku fiskiskipin birtust á Íslandsmiðum 1412 og til þess, er breska Verkamannaflokksstjórnin setti hryðjuverkalög á Íslendinga haustið 2008. Hann sagði frá Bretum, sem hefðu haft veruleg áhrif á þróun mála á Íslandi, þar á meðal Sir Joseph Banks, miklum velgjörðamanni þjóðarinnar, og Eric Cable ræðismanni, og frá tveimur leiðtogum breska Verkamannaflokksins, Gordon Brown og Alistair Darling og aðgerðum þeirra gegn Íslendingum. Hannes lýsti einnig samskiptum Íslendinga og Bandaríkjamanna, herverndarsamningnum 1941 og varnarsamningnum 1951, brottför varnarliðsins 2006 og áhugaleysi bandarískra ráðamanna um örlög Íslands. Niðurstaða hans var, að þrátt fyrir allt ætti Ísland helst að leita samstarfs við grannríkin í Norður-Atlantshafi, Bandaríkin, Kanada, Noreg og Stóra-Bretland.

Eftir fyrirlesturinn sat Hannes kvöldverð með Einari Gunnarssyni, sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Thor Thors og fleiri mönnum. Einar var ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, þegar sem mest gekk á milli Breta og Íslendinga. Fyrirlesturinn var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Hvenær eru viðskipti siðferðilega óréttlætanleg?

Heil. Tómas af Akvínas

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, sótti árlega ráðstefnu Samtaka um einkaframtaksfræðslu, APEE, Association of Private Enterprise Education, sem var nú haldin í Las Vegas 3.–6. apríl 2016. Þar stjórnaði hann einni málstofu og hélt sjálfur einn fyrirlestur, og var hann um siðferði viðskipta. Hannes rakti hugmyndir heilags Tómasar af Akvínas, sem taldi menn ekki þurfa að upplýsa viðskiptavini sína um mat sitt á aðstæðum (í dæminu af kaupmanninum frá Alexandríu á eynni Ródos), en þeir mættu ekki heldur hagnýta sér neyð annarra (til dæmis í umsátri um borg) til að knýja fram ósanngjarnar niðurstöður. Í þessu sambandi lýsti Hannes því, hvernig norskir, finnskir og danskir fjáraflamenn hefðu eftir íslenska bankahrunið með fulltingi stjórnvalda í löndum sínum hirt eignir íslenskra banka fyrir smánarverð, Glitnir Bank og Glitnir Securities í Noregi, Glitnir Pankki í Finnlandi og FIH banka í Danmörku. Taldi hann þetta framferði hafa verið siðferðilega óréttlætanlegt á mælikvarða heilags Tómasar. Hannes hefur birt ritgerð á íslensku um þetta efni.

Hagfræðingurinn Gerald O’Driscoll, fyrrv. aðstoðarseðlabankastjóri Seðlabankans í Dallas, var kjörinn nýr forseti APEE. Á meðal annarra stjórnarmanna er Robert Lawson, sem komið hefur til Íslands á vegum RNH og haldið fyrirlestur um vísitölu atvinnufrelsis. Fyrirlestur Hannesar 5. apríl var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur HHG í Las Vegas 5. apríl 2016

Comments Off