Hannes: Hvers vegna var íslenska vinstrið smátt og róttækt?

Skopmynd eftir Halldór Pétursson af þremur ummyndunum íslenskrar kommúnistahreyfingar.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti fyrirlestur á ráðstefnu stjórnmálafræðinga í Háskóla Íslands 16. júní 2016. Hann var um það, hvers vegna íslenska vinstrið væri í senn smærra og róttækara en vinstrið á öðrum Norðurlöndum. (Með vinstrinu kvaðst Hannes eiga við jafnaðarmenn og sósíalista samtals: Þeir voru á 20. öld jafnan um þriðjungur kjósenda á Íslandi, en um helmingur kjósenda í Svíþjóð, Danmörku og Noregi.) Skýringin á því, að vinstrið var smærra, var eflaust sú að sögn Hannesar, að iðnþróun var hér skemmra á veg komin en á öðrum Norðurlöndum, þegar menn tóku að skiptast í flokka, jafnframt því sem hin sterka arfleifð sjálfstæðisbaráttunnar gerði vinstri flokkum erfitt fyrir.

En hvers vegna var íslenska vinstrið róttækara? Hvers vegna mynduðu sósíalistar stærri flokk en jafnaðarmenn? Því hefur verið haldið fram, að það hafi verið vegna þess, að þeir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason hafi verið snjallir foringjar. En Hannes kvaðst ekki vera viss um, að leiðtogar jafnaðarmanna, Jón Baldvinsson, Haraldur Guðmundsson, Stefán Jóhann Stefánsson og Emil Jónsson, hefðu verið lakari stjórnmálamenn.

Hann varpaði fram þeirri skýringu í fyrirlestrinum, að Sósíalistaflokkurinn væri ef til vill sambærilegri við Alþýðufylkinguna í Finnlandi en kommúnistaflokkana á öðrum Norðurlöndum. Til þess væru þrjár ástæður. Finnar og Íslendingar hefðu á öndverðri öldinni verið fátækari en hinar Norðurlandaþjóðirnar þrjár. Þessar tvær þjóðir hefðu byggt ný ríki, hið finnska stofnað 1917 og hið íslenska 1918. Og borgaralegt skipulag með sjálfsprottnu samstarfi og rótgrónum siðum og venjum hefði verið veikara í þessum tveimur löndum en í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Jarðvegur hefði því verið frjósamari fyrir frækorn byltingar og umróts.

Hannes benti einnig á, að íslenskir sósíalistar nutu verulegs fjárstuðnings frá Moskvu, jafnframt því sem Íslendingar hefðu verið og væru enn margir hrekklausir og hefðu ekki alltaf tekið byltingartal sósíalista alvarlega. Um það verði þó ekki deilt, sagði Hannes, að kommúnistaflokkurinn, sem starfaði 1930–1938, og Sósíalistaflokkurinn, sem starfaði 1938–1968, þótt hann byði ekki fram undir eigin merki nema til 1953, voru undir stjórn stalínista: Þeir beittu iðulega ofbeldi til að ná markmiðum sínum, og þeir voru í nánum tengslum við Kremlverja. Vísaði Hannes um það til bókar sinnar um íslensku kommúnistahreyfinguna. Alþýðubandalagið, sem var kosningabandalag 1956–1968 og stjórnmálaflokkur 1968–1998, hafði hins vegar haft tvíræðari afstöðu til heimskommúnismans. Það hafði engin opinber tengsl við kommúnistaflokk Ráðstjórnarríkjanna, en ræktaði hins vegar tengslin við ýmsa aðra kommúnistaflokka. Til dæmis var síðasta verk forystu Alþýðubandalagsins haustið 1998 að fara í boðsferð til kúbverska kommúnistaflokksins.

Fyrirlestur Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“, en tilgangurinn með því er að gleyma ekki orðum og gerðum kommúnista og annarra alræðissinna á 20. öld. Meðal annars er Hannes ritstjóri ritraðar, Safns til sögu kommúnismans, sem Almenna bókafélagið gefur út. Á meðal bóka, sem þegar eru komnar út, eru Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum eftir Jan Valtin (réttu nafni Richard Krebs) og Leyniræða Khrústsjovs 1956.

Comments are closed.