Ásgeir og Hersir: Endurreisn Íslands

Ásgeir flytur framsögu. Ljósm. Kristinn Ingvarsson.

Fjármálasérfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson, dósentar í Háskóla Íslands, kynntu helstu niðurstöður nýrrar bókar sinnar, The Icelandic Financial Crisis: A Study Into the World’s Smallest Currency Area, á ráðstefnu í Háskóla Íslands 1. mars 2017. Á meðal þess, sem kemur fram í bókinni, er þetta:

  • Með neyðarlögunum 6. október 2008, sem sett voru í tíð samsteypustjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en að frumkvæði Seðlabankans, valdi Ísland þá leið að „þjóðnýta“ ekki tapið af bankahruninu, með öðrum orðum að leggja það ekki á herðar skattgreiðenda. Eigendur hlutafjár í bönkunum töpuðu því öllu, og skuldabréfaeigendur töpuðu verulegum hluta krafna sinna, en innstæðueigendur töpuðu engu.
  • Að lokum tapaði íslenska ríkið engu heldur, heldur græddi nokkuð á bankahruninu. Ástæðan var sú, að það var vegna gjaldeyrishaftanna, sem sett voru á í upphafi bankahrunsins, í sterkri samningsaðstöðu gagnvart kröfuhöfum bankanna (aðallega vogunarsjóðum), sem voru reiðubúnir að sætta sig við afslátt á kröfum sínum gegn því að fá þær greiddar í erlendri mynt. Mið-hægri-stjórnin, sem tók við völdum 2013, taldi eðlilegt, að bankarnir (eða bú þeirra) tækju á sig þann kostnað, sem þeir hefðu valdið þjóðinni.
  • Með því að veita innstæðueigendum forgang í bú föllnu bankanna samkvæmt neyðarlögunum voru um €10 milljarðar færðir frá öðrum kröfueigendum til þeirra. Innstæðueigendur voru ekki síst bjargálna Bretar, en margir kröfuhafar í upphafi þýskir bankar. Erlendis var sá misskilningur algengur, að Íslendingar hefðu mismunað innlendum og erlendum sparifjáreigendum, en í rauninni var sparifjáreigendum annars vegar og öðrum kröfuhöfum hins vegar mismunað.
  • Horfur voru mjög ískyggilegar í upphafi bankahrunsins. Skuldir hins opinbera jukust um 70% af vergri landsframleiðslu, VLF, vegna þess, og var það meira en í nokkru öðru Evrópulandi að Írlandi undanteknu. Ísland var víða, en með röngu, talið gjaldþrota.
  • Eftir að ríkisstjórnir Stóra Bretlands og Hollands höfðu einhliða ákveðið að greiða út innstæður í útbúum Landsbankans í þessum tveimur löndum, kröfðust þær þess, að íslenska ríkið endurgreiddi þeim „lánin“ með vöxtum. Þetta hefði verið fjárskuldbinding um €4 milljarða eða nær helmingur vergrar landsframleiðslu á ári. Bú Landsbankans gat þó að lokum greitt öllum innstæðueigendum. Kröfugerð Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum olli harðri milliríkjadeilu, en henni var hafnað með úrskurði EFTA-dómstólsins í málinu.
  • Helsti kostnaður íslenska ríkisins af bankahruninu var vegna taps Seðlabankans á lánum til viðskiptabankanna, en það nam um €2 milljörðum. Af því voru €1,7 milljarður vegna lána gegn ótryggðum skuldabréfum og €245 milljónir vegna neyðarláns til Kaupþings með veði í FIH banka í Danmörku. Einnig var mikið tap af sparisjóðnum í Keflavík, um €140 milljónir. Þótt þeir Ásgeir og Hersir sneiði hjá dómum um stjórnmálamenn, hefði þetta tap getað orðið miklu minna, ef Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefði ekki selt FIH banka með lökum kjörum og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ekki tekið sparisjóðinn í Keflavík upp á arma sína.
  • Þrátt fyrir að Ísland hafi sloppið tiltölulega vel frá bankahruninu, er ekki víst, að önnur lönd geti fetað í fótspor þess. Hinar sérstöku aðstæður á Íslandi auðvelduðu hina tvíþættu leið út úr vandanum, annars vegar að reisa skjaldborg utan um innlenda hluta bankakerfisins og gera upp erlenda hlutann, hins vegar að færa tapið frá sparifjáreigendum til skuldabréfaeigenda, sem flestir voru erlendir.
  • Hröð endurreisn Íslands ætti ekki að vera undrunarefni, því að hagkerfið er í eðli sínu traust. Það var reist á arðbærum fiskveiðum, ríkulegum orkulindum og verulegum mannauð, en til viðbótar kom eftir hrunið óvæntur ferðamannastraumur. Eignir bankanna reyndust líka vera meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Kristrún talar við þá Ásgeir, Hersi og Sigurð. Ljósm. Kristinn Ingvarsson.

Í pallborði eftir framsögur þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar voru auk þeirra dr. Sigurður Hannesson, ráðgjafi stjórnvalda um uppgjör við kröfuhafa, Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra í bankahruninu (Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá Samfylkingunni) og Jóhannes Rúnar Sveinsson, lögfræðiráðgjafi stjórnvalda um bankahrunið. Kristrún harmaði þá staðreynd, að Íslendingar skyldu ekki snúa bökum saman í bankahruninu eins og Danir gerðu til dæmis. Þess í stað notfærðu sumir stjórnmálamenn það til að gera upp gamlar sakir. Kristrún kvað Íslendinga verða að endurmeta utanríkisstefnu sína í ljósi þess, hversu fáa vini þeir ættu í raun. Bandaríkjamenn væru ekki sami trausti bakhjarlinn og í Kalda stríðinu, eins og vel hefði komið í ljós, þegar þeir gerðu gjaldeyrisskiptasamninga við skandinavísku bankana þrjá, en ekki við hinn íslenska. Þessir samningar hefðu gert seðlabönkunum kleift að bjarga ýmsum innlendum bönkum frá falli.

Comments are closed.