Oleg Sentsov fær verðlaun Evrópuvettvangsins

Oleg Sentsov.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Oleg Sentsov frá Úkraínu, sem situr í rússnesku fangelsi, hlaut verðlaun Evrópuvettvangs um minningu og samvisku árið 2018. Veitti sendiherra Úkraínu í Slóveníu, Mýkhaílo F. Brodovýtsj, verðlaununum viðtöku fyrir hönd Sentsovs við hátíðlega athöfn á alþjóðlegri ráðstefnu Evrópuvettvangsins í Ljubljana 14. nóvember, en hana sótti fulltrúi RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor. Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, sem berst gegn alræðisstefnu og fyrir lýðræði og réttarríki. Sentsov fæddist í Símferopol á Krímskaga 1976 og nam hagfræði og kvikmyndagerð. Hafa ýmsar kvikmyndir hans unnið til verðlauna á alþjóðlegum vettvangi. Sentsov snerist gegn hertöku Krímskaga 2014, og handtók þá rússneska öryggislögreglan hann og pyndaði, og var hann dæmdur í 20 ára fangelsi. Brodovýtsj sendiherra sagðist taka við verðlaununum fyrir hönd Sentsovs og annarra þeirra áttatíu einstaklinga, sem sætu í rússneskum fangelsum vegna stuðnings við Úkraínu. Við athöfnina sagði Janez Janśa, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu og leiðtogi Lýðræðisflokks landsins, að Úkraína væri fyrsta fórnarlamb átakanna eftir Kalda stríðið.

Frá v.: Alojz Kovšca, forseti slóvenska þingsins, dr. Łukasz Kaminski , forseti Evrópuvettvangsins, dr. Andreja Zver, Mýkhaílo F. Brodovýtsj sendiherra með verðlaunagripinn, Janez Janśa, fyrrv. forsætisráðherra Slóveníu. Ljósm. Peter Rendek, Platform.

 

Comments are closed.