Gullfót eða rafmynt?

Frá málstofunni.

Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema hélt umræðufund um æskilega nýskipan peningamála með prófessor Edward Stringham og Peter C. Earle fjármálafræðingi sunnudaginn 8. september kl. 20–22 að Hlíðarsmára 19 í Kópavogi. Báðir töldu þeir óheppilegt, að ríkið framleiddi gjaldmiðla, enda félli það iðulega á þá freistni að framleiða of mikið af þeim, og afleiðingin yrði verðbólga, sem skekkti verð og truflaði viðskipti. Earle bar saman kosti gullfótar, þar sem framleiðsla gjaldmiðils ræðst af gullforða útgefandans (sem oftast yrði seðlabanki), og rafmyntar. Kosturinn við gullfótinn væri, hversu stöðugur hann væri, en rafmyntir hefðu verið fremur óstöðugar, og væri þær þó að verða stöðugri. Kvaðst hann þess vegna ekki geta gert upp á milli þessara tveggja tegunda peninga.

Júlíus Viggó Ólafsson framhaldsskólanemi stjórnaði fundinum. Þeir Stringham og Earle, sem starfa báðir í Hagfræðirannsóknarstofnun Bandaríkjanna, American Institute of Economic Research,  voru staddir á Íslandi í tengslum við ráðstefnu frjálshyggjustúdenta 6. september um framtíð og frelsi. Þátttaka RNH í þessum viðburðum er liður í samstarfsverkefni við Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe.

Comments are closed.