Hannan tók málstað Íslendinga 2008

RNH studdi ráðstefnu frjálshyggjustúdenta, Students for Liberty Iceland, sem haldin var í Kópavogi 6. september 2019. Aðalræðumaður ráðstefnunnar var Daniel Hannan, ritari ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, og leiðtogi íhaldsmanna á Evrópuþinginu. Morgunblaðiðbirti viðtal við Hannan 12. september. Hann ræddi þar aðallega um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en hann var einn forystumaður útgönguhreyfingarinnar. Hann taldi Evrópusambandið bjóða Bretum afarkosti til að halda þeim inni. „Ímyndaðu þér að Ísland leitaði til ESB um fríverslunarsamning en sambandið setti í staðinn tvö skilyrði; annars vegar að þið þyrftuð að segja upp öllum fríverslunarsamningum ykkar við önnur ríki, því sambandið sæi um þá, og hins vegar að Evrópusambandið hefði hér eftir full yfirráð yfir Kópavogi!“ sagði Hannan og vísaði með því til deilunnar um Norður-Írland. „Ég er hins vegar fyrsti breski stjórnmálamaðurinn, og er mjög stoltur af því, sem tók málstað Íslands í Icesave-deilunni. Ég var alltaf viss um að nást myndi upp í skuldirnar, og var því mjög ósáttur við að bresk stjórnvöld fældu frá sér traustan vin og bandamann með notkun hryðjuverkalaganna,“ sagði Hannan enn fremur.

Comments are closed.